Úrskurður
Ár 2003, fimmtudaginn 3. apríl, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-1/2003:
Kæruefni
Með kæru dags. 27. janúar 2003 kærði kærandi úrskurð stjórnar
LÍN í máli nr. I-142/02 frá 27. október 2002 þar sem stjórnin synjaði beiðni
hennar um undanþágu frá endurgreiðslu tekjutengdrar afborgunar árið 2002 fyrir
hana sjálfa og maka hennar vegna veikinda kæranda.
Stjórn LÍN var
tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 29, janúar sl. og jafnframt gefinn kostur
á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir
stjórnarinnar komu fram í bréfi dags. 6. febrúar sl. og var afrit þess sent
kæranda með bréfi dags. 11. febrúar sl. en þar var henni jafnframt gefinn 14
daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engin frekari gögn bárust
frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Með umsókn til LÍN dags. 6. september 2002 óskaði kærandi eftir
fresti á greiðslu afborgunar fyrir sjálfa sig og eiginmann hennar vegna
skyndilegra og verulegra breytinga. Í bréfi dags. 25. september 2002 hafnaði LÍN
erindi hennar með vísan til greinar 7.4.1. í úthlutunarreglum sjóðsins. Þann 1.
október 2002 sendu kærandi og eiginmaður hennar stjórn LÍN beiðni um frest í 1
ár með að greiða afborganir af lánum þeirra sem gjaldféllu í september 2002.
Stjórn LÍN hafnaði erindi kæranda með vísan til þess að hvorki hún né eiginmaður
hennar uppfyllti þau skilyrði fyrir undanþágu sem eru talin upp í 8. gr. laga um
LÍN nr. 21/1992 og 9. og 10. gr. reglugerðar um sjóðinn nr. 602/1997.
Kærandi byggir kröfu sína á því að hún hafi á síðasta sumri veikst af
alvarlegum sjúkdómi og hafi lítið getað unnið síðan þá. Hún fái þó enn
veikindalaun en maður hennar hafi þurft að minnka við sig vinnu til frambúðar
til þess að geta sinnt henni og dætrum þeirra þremur. Kærandi bendir á að hún og
maður hennar hafi unnið mikið enda séu þau að koma sér upp framtíðarhúsnæði.
Af hálfu stjórnar LÍN er á því byggt að tekjutengdar afborganir kæranda
og manns hennar hafi verið ákvarðaðar í samræmi við tekjur þeirra á árinu 2001,
sbr. ákvæði laga og reglna um sjóðinn. Jafnframt sé það niðurstaða stjórnar að
ákvæði í lögum og reglum, sem heimila undanþágu frá árlegri endurgreiðslu, eigi
ekki við í hennar tilviki á árinu 2002. Vísar stjórnin til þess að hún veiti
undanþágu frá árlegri endurgreiðslu ef veikindi valda verulegum
fjárhagsörðugleikum og/eða ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum
skuldara er skerða til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna.
Hvorugt skillyrðið eigi við í tilviki kæranda og hafi hún ekki átt í verulegum
fjárhagsörðugleikum og ráðstöfunartekjur hennar hafi ekki skerst til muna.
Þá benti stjórn LÍN á að óski skuldari eftir undanþágu frá endurgreiðslu
þurfi hann lögum og reglum samkvæmt að sækja í það minnsta árlega um
undanþáguna. Þannig sé gert ráð fyrir athugun á fjárhagsstöðu umsækjanda og
sérstakri ákvörðun vegna hverrar afborgunar fyrir sig. Komi sjúkdómur kæranda
til með að valda henni eða eiginmanni hennar verulegum fjárhagsörðugleikum
og/eða að skerða til muna ráðstöfunarfé þeirra á árinu 2003 eða síðar, sé rétt
og elilegt að þau láti reyna á heimild stjórnar til frestunar á afborgunum sem
þá verða til innheimtu.
Niðurstaða
8. gr. laga um LÍN nr. 21/1992 er að finna heimildir til að
veita undaþágu frá ársgreiðslu ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun
barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá
lánþega eða fjölskyldu hans. Þá segir um undanþágur í 9. gr. reglugerðar um
sjóðinn nr. 602/1997 eftirfarandi:
"Nú gefur útsvarsstofn vegna tekna
á fyrra ári ekki rétta mynd af fjárhag lánþega á endurgreiðsluári, vegna
skyndilegra og verulegra breytinga sem hafa orðið á högum hans milli ára, t.d.
ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna
ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Ef lánþegi gerir skriflega
grein fyrir þessum breyttu högum sínum og styður hana tilskildum gögnum, er
sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu, ýmist til
lækkunar eða niðurfellingar á greiðslum, eftir atvikum."
Í málinu
liggja frammi upplýsingar um að tekjur kæranda á árinu 2001 námu 3.149.697
krónum og framlagðir launaseðlar kæranda á árinu 2002 benda til að heildartekjur
hennar verði ekki að mun minni fyrir árið 2002. Það verður því ekki talið að
útsvarsstofn ársins 2001 gefi ekki rétta mynd af fjárhag kæranda á
endurgreiðsluári. Þá uppfyllir eiginmaður kæranda ekki skilyrði framangreindra
ákvæða til undanþágu frá endurgreiðslu námslána. Að þessu virtu er það
niðurstaða málskotsnefndar að staðfesta úrskurð stjórnar LÍN í málinu.
Eins og rakið er hér að framan getur kærandi sótt um undanþágu til
stjórnar LÍN vegna afborgunar þessa árs ef verulegar breytingar verða á
fjárhagslegum högum hennar á árinu vegna veikindanna.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 27. október 2002 í máli I-142/02 er staðfestur.