Úrskurður
Ár 2003, fimmtudaginn 8. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-3/2003
Kæruefni
Með bréfi dags. 7. mars 2003, sem barst málskotsnefndinni þann
25. mars 2003, kærði kærandi, úrskurð stjórnar LÍN frá 9. desember 2002 í málinu
nr. I-156/02 þar sem ítrekuð var fyrri niðurstaða stjórnarinnar frá 7. október
2002 í málinu I-130/02 um synjun á undanþágu frá endurgreiðslu tekjutengdrar
afborgunar á gjalddaga 1. september 2002. Taldi stjórn LÍN það ekki breyta neinu
um forsendur úrskurðar síns frá 7. október 2002 að kærandi skráði sig
atvinnulausan 4. nóvember 2002.
Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með
bréfi dags. 26. mars sl. og gerði hún athugasemdir við kröfuna í bréfi dags. 3.
apríl sl. Með bréfi dags. 4. apríl sl. var kæranda gefinn fjórtán daga frestur
til að koma frekari sjónarmiðum á framfæri. Engar frekari athugasemdir bárust
frá kæranda.
Niðurstaða
Stjórn LÍN úrskurðaði í máli kæranda þann 7. október 2002, þar
sem beiðni kæranda um niðurfellingu á tekjutengdri afborgun námslána pr. 1.
september 2002 var hafnað, þar sem hann hafði ekki sýnt fram á það með
fullnægjandi hætti, m.a. með því að skrá sig atvinnulausan, að tilvik hans félli
undir undanþágureglu í 8. gr. laga nr. 21/1992 og 9. gr. reglugerðar nr.
602/1997. Í áðurnefndum úrskurði stjórnar LÍN kom fram að kærandi gæti óskað
eftir endurupptöku málsins innan 3ja mánaða ef niðurstaðan væri byggð á röngum
eða ófullnægjandi upplýsingum eða vísað málinu til málskotsnefndar LÍN innan
sama frests.
Þann 12. nóvember 2002 sendi kærandi stjórn LÍN bréf þar
sem fylgdi staðfesting á skráningu hans á atvinnuleysisskrá frá 4. nóvember
2002. Á grundvelli þessa bréfs endurupptók stjórn LÍN mál kæranda og úrskurðaði
að nýju í því þann 9. desember 2002. Þann úrskurð hefur kærandi nú kært til
málskotsnefndar svo sem fyrr greinir.
Í hinum kærða úrskurði stjórnar
LÍN kemur m.a. fram að kærandi geti kært úrskurðinn til sérstakrar
málskotsnefndar skv. 5. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN og að kæra verði að berast
innan 3ja mánaða frá dagsetningu bréfsins (9. desember 2002)., sbr. 27. gr.
stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Kæra barst málskotsnefnd þann 25. mars
2003. Voru þá liðnir meira en þrír mánuðir frá því stjórn LÍN kvað upp úrskurð
sinn í málinu. Í 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er svohljóðandi ákvæði:
"Kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt
um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg."
Engin heimild er
fyrir því í lögum að kærufrestur í málum af þessu tagi sé lengri en
stjórnsýslulög kveða á um og er máli þessu því vísað frá málskotsnefndinni.
Úrskurðarorð
Kæru, á úrskurði stjórnar LÍN í málinu nr. I-156/02 er vísað frá.