Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-07/2003 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá endurgreiðslum

Úrskurður

Ár 2003, þriðjudaginn 8. júlí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-7/2003:

Kæruefni

Með kæru dags. 29. apríl 2003 kærði kærandi þann úrskurð stjórnar LÍN í máli nr. I-8/03 frá 7. febrúar 2003 þar sem stjórnin synjaði beiðni kæranda um undanþágu frá endurgreiðslum námslána á gjalddaga 1. nóvember 2001, 1. júlí 2002 og 1. september 2002 með vísan til þess að engin ný gögn hefðu komið fram sem sýnt hefðu fram á að skyndilegar og verulegar breytingar hefðu orðið á högum kæranda milli áranna 2000 og 2001 og áranna 2001 og 2002.

Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 6. maí sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnarinnar komu fram í bréfi dags. 20. maí sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 21. maí sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir kæranda eru settar fram í bréfi dags. 26. maí sl.

Málsatvik og ágreiningsefni

Með bréfi til LÍN dags. 24. október 2002 óskaði kærandi eftir því að henni yrði veitt undanþága frá frekari endurgreiðslum námsláns sem hún fékk frá janúar 1981 til maí 1985. Undanþágubeiðnin byggðist á því að hún hefði minni möguleika á tekjuöflun nú vegna veikinda og örorku. Stjórn LÍN kvað upp úrskurð 5. desember 2002 þar sem erindi kæranda var synjað með vísan til þess að ekki hefðu orðið skyndilegar eða verulegar breytingar á högum hennar viðkomandi ár og því væru ekki uppfyllt skilyrði 8. gr. laga um LÍN nr. 21/1992 fyrir veitingu undanþágu frá endurgreiðslu. Kærandi sendi stjórn LÍN annað erindi dags. 28. janúar 2003 og var því svarað með úrskurði stjórnarinnar dags. 7. febrúar sl. sem kærandi kærði með bréfi dags. 29. apríl sl. eins og áður er komið fram.

Kærandi byggir kröfu sína á því að hún sé nú 70-100% öryrki og þar af leiðandi eigi hún minni möguleika nú en áður á því að afla sér tekna. Hún hafi ekki getað stundað vinnu frá 5. ágúst 2002 vegna veikinda sinna. Þá sé kostnaður hennar vegna læknisþjónustu og lyfjakaupa um NOK 19.200 á ári en laun og örorkugreiðslur hafi numið NOK 127.994 á árinu 2001. Kærandi telur að tekjur hennar á árinu 2002 hafi verið álíka miklar en að tekjur hennar lækki vegna örorku hennar og getu til að stunda vinnu.

Af hálfu stjórnar LÍN er vísað til ákvæða 8. gr. laga um LÍN nr. 21/1992 um heimildir stjórnar sjóðsins til að veita undanþágur frá endurgreiðslum námslána ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir möguleika hans til að afla tekna. Að auki er vísað til 9. gr. reglugerðar um LÍN nr. 602/1997 um að heimilt sé að veita undanþágu eða niðurfellingu á árlegri endurgreiðslu ef útsvarsstofn gefur ekki rétta mynd af fjárhag lánþega á endurgreiðsluári vegna skyndilegra og verulegra breytinga á högum hans milli ára og lánþegi gerir skriflega grein fyrir breyttum högum sínum og styður hana tilskildum gögnum.

Stjórn LÍN bendir jafnframt á að vinnufærni kæranda sé metin 50% og sé nú skv. læknisvottorði óvinnufær vegna veikinda en talið að hún komist aftur til vinnu. Tekjur hafi verið kr. 2.061.043 árið 1998, kr. 2.015.908 árið 1999, 1.923.681 árið 2000 og 1.925.057 árið 2001. Gera megi ráð fyrir að tekjur kæranda á árinu 2002 nemi 1.969.956. Af þessu megi ráða að ekki hafi orðið þær breytingar á högum kæranda sem heimili stjórn LÍN að veita umbeðna undanþágu.

Niðurstaða

Í málinu liggja fyrir gögn um heilsufar kæranda og tekjur hennar. Samkvæmt læknisvottorði dags. 23. desember 2002 kemur fram það mat læknis hennar að óvíst sé hvort kærandi fari í launaða vinnu á ný. Hún gæti verið óvinnufær vegna heilsuleysis en hafi sjálf óskað eftir að reyna að stunda vinnu í hálfu starfi. Þá staðfestir læknirinn að kærandi hafi lýst því að hún hafi borgað NOK 19.200 árið 2002 í lyfja- og læknakostnað.

Fram er komið að kærandi hefur haft svipaðar árstekjur frá árinu 1998 þótt þær hafi farið lítillega lækkandi. Jafnvel þótt tekið sé tillit til lyfja- og lækniskostnaðar eru ráðstöfunartekjur kæranda yfir viðmiðunarmörkum LÍN. Verður í ljósi framanritaðs ekki talið að þær skyndilegu og verulegu breytingar hafi orðið á högum kæranda milli áranna 2000 og 2001 annars vegar og 2001 og 2002 sem skert hafi möguleika hennar til að afla tekna, sbr. ákvæði 8. gr. laga um LÍN og 9. gr. reglugerðar um sjóðinn. Er framangreindur úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda því staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 9. desember 2002 í málinu nr. I-8/03 er staðfestur.

Til baka