Úrskurður
Ár 2003, fimmtudaginn 4. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-12/2003:
Kæruefni
Með kæru dags. 12. júlí 2003 kærði lánþegi, ákvörðun LÍN um að
synja beiðni kærandans um undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námsláns. LÍN
synjaði erindi kæranda með tölvuskeyti 30. apríl sl. en kærandi sendi sjóðnum
frekari gögn 13 maí sl. Synjun sjóðsins var ítrekuð í tölvuskeyti sjóðsins til
kæranda 14. maí sl. Með bréfi LÍN dags. 13. júní sl. var erindi kæranda enn
synjað. Með bréfi kæranda dags. 12. júlí sl. til málskotsnefndar LÍN var
framangreindri synjun vísað til nefndarinnar til úrlausnar. Með bréfi
málskotsnefndar til LÍN dags. 15. ágúst sl. var stjórn LÍN sent framangreint
erindi. Stjórn LÍN kom á framfæri athugasemdum sínum í bréfi dags. 29. ágúst sl.
þar sem fram kom m.a. að stjórn sjóðsins hefði í úrskurði sínum daginn áður
staðfest synjun á beiðni kæranda um að fá að fresta fastri afborgun námsláns með
gjalddaga 1. mars sl.
Með bréfi dags. 3. september sl. voru kæranda
sendar athugasemdir stjórnar LÍN og gefinn 14 daga frestur til að koma frekari
sjónarmiðum sínum á framfæri en engar athugasemdir bárust frá kæranda.
Málskotsnefnd óskaði eftir því við stjórn LÍN í bréfi dags. 29. september sl. að
stjórnin sendi nefndinni þau gögn sem lágu til grundvallar ákvörðunar
stjórnarinnar í málinu, þ.m.t. gögn um tekjur og fjárhagsaðstæður, auk
bréfaskipta stjórnar og kæranda. Þá var þess jafnframt óskað að gerð yrði grein
fyrir sérstakri hækkun námslána maka kæranda og gögn um hana. Með bréfi dags. 3.
október sl. voru málskotsnefnd send umbeðin gögn. Kæranda voru send afrit
bréfsins og gagnanna með bréfi málskotsnefndar dags. 20. október sl. og henni
gefinn 14 daga frestur til að koma athugasemdum sínum á framfæri. Vegna rangra
upplýsinga um heimilisfang kæranda voru henni send framangreind gögn öðru sinni
með bréfi nefndarinnar 12. nóvember sl. og henni gefinn 14 daga frestur til að
koma að athugasemdum. Engar athugasemdir hafa borist frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Með umsókn til LÍN dags. 29. apríl 2003 óskaði kærandi eftir
fresti á endurgreiðslu afborgunar 2003 vegna lágra tekna. Með úrskurði stjórnar
LÍN 28. ágúst sl. var erindi kæranda hafnað með vísan til þess að ekki væru
uppfyllt skilyrði fyrir undanþágu skv. 8. gr. laga um LÍN nr. 21/1992 og 10. gr.
reglugerðar um LÍN nr. 602/1997.
Kærandi byggir kröfu sína á því að
tekjur hennar síðustu 4 mánuði séu undir því hámarki sem tilgreint sé í reglum
LÍN og að þar sem hún hafi verið heimavinnandi fyrsta árið sem fjölskyldan
dvaldi í Danmörku hafi hún ekki verið á atvinnuleysisskrá. Þegar hún hefði ætlað
að hefja vinnu haustið 2002 hefði henni verið synjað um atvinnuleysisskráningu
þar sem hún hefði ekki átt rétt á bótum og hefði henni því verið ógerlegt að fá
vottorð um atvinnuleysi sitt. Kærandi hefði verið í afleysingavinnu hjá
bæjaryfirvöldum í Horsens frá haustinu 2002 en það væru einu tekjurnar sem hún
hefði haft í 2 ár.
Stjórn LÍN byggir synjun sína á ákvæðum 8. gr. laga
nr. 21/1992 og 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um LÍN. Ekki hafi borist opinber
staðfesting á atvinnuleysi kæranda, þ.e. vottorð frá Arbejdsformidlingen í
sveitarfélagi hennar í Danmörku. Þá er á það bent að maki kæranda hafi fengið
sérstaka hækkun á námsláni sínu til framfærslu hennar undanfarin tvö ár.
Samkvæmt því og þeim gögnum sem fyrir liggi sé það mat stjórnarinnar að kærandi
uppfylli ekki þau skilyrði fyrir undanþágu frá afborgun sem upp séu talin í
framangreindum ákvæðum laga og reglugerðar um sjóðinn.
Niðurstaða
Um undanþágur frá endurgreiðslu námslána gilda ákvæði 8. gr.
laga nr. 21/1992 um LÍN og 10. gr. reglugerðar um LÍN nr. 602/1997. Samkvæmt 10.
gr. reglugerðarinnar er ekki veitt undanþága frá árlegri endurgreiðslu námsláns
nema lánþegi hafi haft svo lágar tekjur á fyrra ári að honum reiknast ekki
tekjutengd afborgun. Samkvæmt framlögðum gögnum er ljóst að tekjur kæranda eru
undir viðmiðunarmörkum LÍN.
Í 6. mgr. 8. gr. framangreindra laga er að
finna ákvæði um skilyrði þess að veitt verði heimild til undanþágu frá
endurgreiðslu fastrar afborgunar en þar segir:
"Stjórn sjóðsins er
enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám,
atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður
valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans."
Í málinu liggur frammi yfirlýsing frá fyrirtækinu Aktiv Rengöring í
Danmörku dags. 27. maí 2003 um að kærandi sé atvinnulaus og hafi sótt um vinnu
hjá fyrirtækinu. Þar segir jafnframt að hún hafi ekki unnið hjá fyrirtækinu frá
því hún sótti þar um vinnu í september 2002. Þá sendi kærandi LÍN umsókn dags.
18. nóvember 2002 um hreingerningarstörf að því er virðist hjá bæjarfélaginu
Horsens í Danmörku. Engin gögn hafa hins vegar borist sem staðfest geta
atvinnuleysi kæranda með sannanlegum hætti. Er fallist á það með stjórn LÍN að
leggja þurfi fram yfirlýsingu þar til bærs aðila sem tekur af tvímæli um
atvinnuleysi kæranda og telst hvorugt framangreindra skjala uppfylla þær kröfur.
Kærandi hefur fengið rúman frest til að leggja fram umbeðin gögn en þau hafa
ekki borist. Með vísan til framangreinds telst kærandi ekki uppfylla skilyrði
framangreindra ákvæða laga og reglna um LÍN og verður því að staðfesta
framangreindan úrskurð stjórnar LÍN í máli kæranda, mál nr. I-174.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 28. ágúst 2003 í málinu nr. I-174 er staðfestur.