Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-17/2003 - Ábyrgðarmenn - ábyrgðarmenn á markaðskjaraláni

Úrskurður

 

Ár 2004, fimmtudaginn 29. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-17/2003.

 

Kæruefni

 

Með bréfi dags. 10. nóvember 2003 kærði Gústaf Þór Tryggvason hrl. fyrir hönd lánþega, úrskurð stjórnar LÍN nr. I-176 frá 29. ágúst sl. þar sem stjórnin hafnaði erindi kæranda um að það yrði talið fullnægjandi að einn ábyrgðarmaður væri fullnægjandi á markaðskjaraláni kæranda. 

Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 17. nóvember sl. og gerði hún athugasemdir við kröfuna í bréfi dags. 26. nóvember sl. Með bréfi dags. 27. nóvember sl. var umboðsmanni kæranda gefinn fjórtán daga frestur til að koma frekari sjónarmiðum á framfæri. Ítarlegri athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda með bréfi dags. 4. desember sl.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Málsatvik er þau að kærandi hefur fengið 10 bráðabirgðalán hjá LÍN. Fyrsti gjalddagi þeirra var 1. júní 2003. Sótt var um að sameina þessi lán í eitt lán -markaðskjaralán- til handa kæranda. 

Við frágang á markaðskjaraláni kæranda var komin upp sú staða að annar ábyrgðaraðili kæranda fullnægði ekki lengur mati LÍN, að geta talist hæfur ábyrgðaraðili. LÍN krafðist þess að kærandi útvega annan ábyrgðaraðila í staðinn. Kærandi kveðst enga möguleika eiga á að útvega annan ábyrgðaraðila í stað þess sem ekki telst lengur hæfur. Faðir kæranda sé eini aðilinn sem komi til greina sem ábyrgðaraðili fyrir kæranda á markaðskjaraláninu. Þess var farið á leit við LÍN að faðir kæranda yrði einn ábyrgðaraðili á markaðskjaraláni kæranda með vísan til fyrrgreindra aðstæðna. Þá hefur einnig verið á það bent að með höfnun erindisins verði bráðabirgðalán kæranda gjaldfelld og falli greiðslan alfarið á föður kæranda. 

Umboðsmaður kæranda rökstyður kæru sína með tilvísun til 6. gr. laga nr. 21/1992 og telur að það sé andstætt ákvæðum greinarinnar að hafna frágangi á skuldabréfi vegna markaðskjaraláns þó aðeins sé um að ræða einn ábyrgðaraðila. 

Í röksemdum stjórnar LÍN kemur fram að markaðskjaralán eru veitt samkvæmt heimild í 3. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992 og skulu samkvæmt ákvörðun stjórnar LÍN vera tryggð með tveimur ábyrgðarmönnum. Þá bendir stjórnin á að frá upphafi hafi sú regla tíðkast að tvo ábyrgðarmenn þurfi til ábyrgðar vegna markaðskjaralána, en mögulegt sé að setja veðtryggingu í stað ábyrgðarmanna með vísan til gr. 5.3.4. í úthlutunarreglum LÍN.

 

Niðurstaða

 

Í 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna segir: "Námsmenn, sem fá lán úr sjóðnum, skulu undirrita skuldabréf við lántöku og leggja fram yfirlýsingu a.m.k. eins manns um að hann taki að sér sjálfskularábyrgð á endurgreiðslu lánsins ásamt vöxtum og verðtryggingu þess allt að tiltekinni hámarksfjárhæð."Í 7. mgr. sömu greinar kemur einnig fram að stjórn sjóðsins ákveði hvaða skilyrðum lántakendur og ábyrgðarmenn skuli fullnægja. Þá geti ábyrgð ábyrgðarmanns, eins eða fleiri fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi. 

Gr. 5.3.2. í úthlutunarreglum LÍN fjallar um skilyrði sem ábyrgðamenn þurfa að uppfylla. Í greininni segir m.a. "Einn ábyrgðarmaður skal að lágmarki takast á hendur sjálfskuldarábyrgð fyrir lántakanda." Þá verður hvorki ráðið ákvæðum af 12. gr. laga nr. 21/1992 né kafla 5.3. í úthlutunareglum LÍN að sérreglur gildi um ábyrgðamenn á markaðkjaralánum LÍN. 

Af framansögðu er ljóst að stjórn LÍN ákveður hvaða skilyrðum ábyrgðarmenn skuli fullnægja. Þær reglur sem stjórn LÍN setur í þessum efnum eiga að koma fram með skýrum hætti í úthlutunarreglum LÍN. Þá reglu að ábyrgðarmenn skuli ávallt vera tveir er hvorki að finna í lögum um LÍN né úthlutunarreglum sjóðsins. Þá hefur LÍN ekki í máli þessu rökstutt að sá ábyrgðarmaður sem bauð fram ábyrgð á viðkomandi námsláni, teljist ekki uppfylla skilyrði sjóðsins um fullnægjandi tryggingu fyrir endurgeiðslu lánsins. 

Með vísan til þessa er úrskurður stjórnar LÍN frá 29. ágúst sl. felldur úr gildi.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN frá 29. ágúst 2003 í máli kæranda er felldur úr gildi.

Til baka