Úrskurður
Ár 2004, fimmtudaginn 14. apríl, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-1/2005:
Kæruefni
Með bréfi dags. 11. mars 2005 kærði faðir lánþega, úrskurð stjórnar LÍN frá 28. janúar sl. í máli lánþega þar sem stjórnin synjaði beiðni lánþega um námslán. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 17. mars sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar komu fram í bréfi dags. 21. mars sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. sama dag en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi hóf nám við Paisley University í Skotlandi á haustönn
2004. Kærandi er íslenskur ríkisborgari og bjó á Íslandi til ársins 1995 en
hefur eftir það búið í Danmörku. Þann 17. nóvember 2004 sótti kærandi um námslán
í tölvupósti til LÍN en í bréfi dags. 18. nóvember 2004 taldi starfsmaður
kæranda ekki vera lánshæfa þar sem hann hefði ekki átt lögheimili á Íslandi í 2
ár áður en nám hans hófst eða í 3 ár af síðustu 10 árum. Áður hafði kærandi
leitað til SU styrelsen í Danmörku um fyrirgreiðslu en beiðni hans verið neitað.
Af hálfu kæranda var menntamálaráðuneytinu sent bréf dags. 22. nóvember 2004 þar
sem þess var óskað að ráðuneytið svaraði því í hvoru landinu, Íslandi eða
Danmörku, kærandi ætti rétt á námsláni. Með bréfi dags. 19. desember 2004 var
það niðurstaða menntamálaráðuneytisins að erindi kæranda í tölvupósti 17.
nóvember 2004 til LÍN hefði verið fyrirspurn en ekki formleg umsókn og því var
henni bent á að sækja formlega um námslán til LÍN.
Með bréfi dags. 28.
desember 2004 fór kærandi með erindi sitt til stjórnar LÍN sem kvað upp úrskurð
í málinu 28. janúar 2005 eins og áður er komið fram. Var erindi kæranda synjað
með vísan til þess að hann uppfyllti ekki ákvæði 6. mgr. greinar 1.1. í
úthlutunarreglum sjóðsins um lögheimili á Íslandi. Kærandi kvartaði við
umboðsmann Alþingis 2. mars sl. en samkvæmt bréfi hans til kæranda dags. 9. mars
sl. tók hann erindið ekki til efnislegrar meðferðar þar sem úrskurður stjórnar
LÍN hefði ekki verið borinn undir málskotsnefnd LÍN. Af hálfu kæranda var málið
borið undir málskotsnefnd með bréfi dags. 11. mars sl. eins og þegar er komið
fram.
Af hálfu kæranda er byggt á því að kærandi sé íslenskur
ríkisborgari og hafi búið hér á landi frá fæðingu og fram yfir fermingaraldur.
Þá hafi kærandi þegar fengið synjun um námsaðstoð frá SU styrelsen í Danmörku
þar sem kærandi bjó frá árinu 1995 hjá móður sinni sem einnig sé íslenskur
ríkisborgari.
Stjórn LÍN byggir synjun sína á því að kærandi hafi hvorki
átt lögheimili á Íslandi sl. 2 ár né samtals í 3 ár á síðustu 10 árum, sbr.
ákvæði 6. mgr. greinar 1.1. í úthlutunarreglum LÍN fyrir árið 2004-2005. Um sé
að ræða nýtt ákvæði sem komið hafi inn í reglur sjóðsins sl. vor og megi rekja
til breytinga á lögum um LÍN, sbr. lög nr. 12/2004. Ákvæðið sé afdráttarlaust og
engin heimild veitt til undanþágu frá settum skilyrðum.
Niðurstaða
Í gr. 1.1. í úthlutunarreglum LÍN fyrir árið 2004-2005, sem
staðfestar voru af menntamálaráðherra 19. maí 2004 en tóku gildi 1. júní 2004,
er mælt fyrir um almenn skilyrði fyrir lánshæfi. Þar segir í 6. mgr.:
"Skilyrði til aðstoðar frá sjóðnum er að viðkomandi sé fjárráða og
hafi átt lögheimili á Íslandi í tvö ár samfellt fyrir upphaf þess tímabils sem
sótt er um námslán vegna eða átt lögheimili hér á landi í þrjú ár af síðustu tíu
árum fyrir upphaf tímabilsins."
Í 13. gr. laga um LÍN nr. 21/1992,
eins og henni var breytt með lögum nr. 12/2004, sem birt voru í Stjórnartíðindum
15. mars 2004, segir að það sé skilyrði fyrir lánveitingu frá sjóðnum, að
viðkomandi hafi haft fasta búsetu á Íslandi í tvö ár samfellt eða haft fasta
búsetu hér á landi í þrjú ár af síðustu tíu árum fyrir upphaf þess tímabils sem
sótt er um lán vegna.
Óumdeilt er að kærandi uppfyllir ekki ofangreind
skilyrði laga og reglna um LÍN um fasta búsetu hér á landi á tilteknu tímabili.
Er ekki gert ráð fyrir því í lögunum og reglunum að undanþágur séu veittar frá
þessum skilyrðum. Með vísan til framanritaðs er framangreindur úrskurður
stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 28. janúar 2005 í máli lánþega er staðfestur.