Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-01/2004 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá afborgun

Úrskurður

Ár 2004, miðvikudaginn 12. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-1/2004.

Kæruefni

Með bréfi dags. 3. febrúar 2004 sem barst málskotsnefndinni þann 16. febrúar 2004 kærði lánþegi, úrskurð stjórnar LÍN frá 12. janúar 2004 í málinu nr. I-2/04, en með úrskurðinum hafnaði stjórn LÍN að veita kæranda undanþágu frá afborgun námslána á grundvelli þess að kærandi var ekki talinn uppfylla skilyrði fyrir undanþágu endurgreiðslna sem fram koma í 8. gr. laga nr. 21/1992 og í 9. 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997.

Stjórn LÍN var með bréfi málskotsnefndar dags. 17. febrúar 2004 tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust nefndinni með bréfi dags. 27. febrúar 2004. Með bréfi dags. 10. mars 2004 var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir stjórnar LÍN, en engar frekari athugasemdir eða gögn bárust frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi fékk námslán á árunum 1991 og 1992 og hóf endurgreiðslu þess árið 1995. Árið 1998 hóf kærandi lánshæft nám að nýju í hársnyrtingu og fékk undanþágu frá endurgreiðslu lánsins árin 1998 og 1999 vegna námsins og lágra tekna. Kærandi skilaði lánshæfum árangri skólaárið 1999-2000 og fékk útborgað lán í janúar og júlí 2000 fyrir bæði misserin.

Kærandi heldur því fram að hún hafi þurft að taka sér frí frá námi skólaárið 2000-2001 vegna veikinda sinna og sonar síns og að LÍN hafi verið send gögn vegna þessa. Stjórn LÍN heldur því aftur á móti fram að sjóðnum hafi aldrei borist gögn sem staðfesti framangreind veikindi. Yfirlit sem sjóðnum hafi aftur á móti borist frá Tryggingastofnun ríkisins í ágúst 2002 beri á hinn bóginn með sér að kærandi fái mánaðarlegar örorkubætur frá júlí 2001 til ágúst 2002.

Kærandi lauk hársnyrtinámi vorið 2003. Samkvæmt gögnum frá skóla var námsframvinda hennar skólaárin 2001-2002 og 2002-2003 með þeim hætti að hún átti ekki rétt á námsláni. Að mati stjórnar LÍN hefði hún því hvorki átt rétt á námslánum né frestun afborgana vegna lánshæfs náms eftir skólaárið 1999-2000. Vegna afborgunar í mars 2000 fékk kærandi sendan gíróseðil og síðan ítrekanir í mars og maí 2000 að sögn stjórnar LÍN. Þá mun henni einnig hafa verið sent sérstakt bréf í janúar 2001. Stjórn LÍN kveður kæranda ekki hafa brugðist við með neinum hætti og því hafi skuld hennar verið send til lögfræðilegrar innheimtu þann 25. janúar 2001.

Af hálfu stjórnar LÍN kemur fram að vera kunni að kærandi hefði átt rétt á undanþágu frá afborgun áranna 2000-2001. Til að láta á það reyna hafði hún á þeim tíma orðið að sækja um undanþáguna og sýna fram á veikindi sín með læknisvottorði, en það hafi hún aldrei gert. Stjórn LÍN bendir enn fremur á að árin 2002 og 2003 hafi kæranda reiknast tekjutengd afborgun og því ekkert sem bendi til að hún hefði getað átt rétt á undanþágu frá afborgun þeirra ára.

Af hálfu stjórnar LÍN kemur fram að vegna aðstæðna kæranda hafi stjórnin fallist á að gefa henni kost á að skuldbreyta vanskilunum á almennt skuldabréf og það boð standi enn.

Kærandi kveðst hafa sótt um undanþágu frá endurgreiðslu af námslánum árið 2002. Kærandi mótmælir að hún hafi ekki skilað inn gögnum vegna þeirrar undanþágubeiðni og kveðst hafa lagt fram námsferilsskrá og önnur gögn sem LÍN hafi beðið um. Ekkert af þessum gögnum virðist þó hafa dugað að mati LÍN og því hafi innheimta á vanskilunum haldið áfram af hálfu sjóðsins. Kærandi telur að mistökin felist í því að hún hafi aldrei verið beðin um að útfylla tiltekið eyðublað.

Niðurstaða

Í 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og í 9. og 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997 er að finna heimildir til að veita undanþágu frá endurgreiðslu námslána ef nánar tilgreindar ástæður eru fyrir hendi. Forsenda þess að stjórn LÍN geti tekið afstöðu til slíkra beiðna er að þeir sem óska eftir undanþágunni leggi fram viðeigandi gögn til að sýna fram á að umrædd laga- og reglugerðarákvæði eigi við um tilvik þeirra. Í máli þessu virðist sem gagnaframlagningu af hálfu kæranda hafi verið áfátt þrátt fyrir leiðbeiningar af hálfu LÍN sem gerð er grein fyrir í hinum kærða úrskurði. Af þessum sökum er fallist á það með stjórn LÍN að hafna beri kröfu kæranda um undanþágu frá greiðslu afborgana af námslánum hennar eins og atvikum háttar í máli þessu. Af þessum sökum er hinn kærði úrskurður staðfestur.

Í upphaflegri beiðni sinni til LÍN virðist kærandi vera að óska eftir því að fá að færa vanskil sín við sjóðinn yfir á skuldabréf þar sem námslán hennar hafi verið gjaldfellt og árangurslaust fjárnám gert hjá henni vegna þessa. Svo sem að framan greinir hefur stjórn LÍN fallist á að gefa kæranda kost á að skuldabreyta vanskilunum á almennt skuldabréf og það boð standi enn.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 12. janúar 2004 í málinu nr. I-2/04 er staðfestur.

Til baka