Úrskurður
Ár 2004, föstudaginn 4. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-18/2003:
Kæruefni
Með bréfi dags. 29. nóvember 2003 óskaði kærandi, eftir því að
málskotsnefnd endurskoðaði synjun LÍN á að veita henni umbeðið námslán. Með
bréfi málskotsnefndar dags. 10. desember 2003 var kæranda tilkynnt að ekki væri
ljóst af erindi hennar um hvers konar úrlausn LÍN væri að ræða og því myndi
nefndin ekki aðhafast frekar fyrr en nánari upplýsingar lægju fyrir. Í ljós kom
að stjórn LÍN kvað upp úrskurð í málinu 6. nóvember 2003, mál nr. L-599/03, en
með úrskurðinum hafnaði stjórn LÍN að veita kæranda undanþágu frá fimm ára reglu
greinar 2.4.2. í úthlutunarreglum LÍN.
Stjórn LÍN var með bréfi
málskotsnefndar dags. 24. mars 2004 tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að tjá
sig um hana. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust nefndinni með bréfi dags. 7. apríl
2004. Með bréfi dags. 15. apríl 2004 var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um
athugasemdir stjórnar LÍN, en engar frekari athugasemdir eða gögn bárust frá
kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi stundaði á árunum 1990 og 1991 nám í tækniteiknun við
Iðnskólann í Reykjavík og fékk þá námslán í þrjú misseri. Þurfti hún að hætta
námi vegna veikinda en hóf nám við Kennaraháskóla Íslands árið 2000. Hún hefur
eftir haustmisseri 2003 notið námslána í 10 misseri. Samkvæmt gögnum nam
heildarnámslánaskuld kæranda þann 1. janúar 2004 kr. 5.046.806.
Kærandi
byggir kröfu sína á því að henni sé nauðsynlegt að fá námslán 11. misserið svo
henni verði kleift að ljúka námi sínu. Breytingar hafi orðið á högum hennar í
kjölfar veikinda vorið 2003 og þá hafi hún misst vinnuna og húsnæði sem henni
fylgdi. Krefst kærandi þess að henni verði veitt undanþága frá svonefndri 5 ára
reglu með vísan til ákvæða greinar 2.4.2. í úthlutunarreglum LÍN.
Af
hálfu stjórnar LÍN er á því byggt að kærandi hafi fullnýtt svigrúm sitt samkvæmt
5 ára reglunni samkvæmt grein 2.4.2. í úthlutunarreglunum. Til þess að fá
undanþágu eftir þeirri grein þurfi að uppfylla tvö skilyrði, þ.e. að samanlögð
lán viðkomandi nemi lægri fjárhæð en 2,1 milljónum króna og að hann hafi áður
staðist lokapróf í lánshæfu námi og ljúki á námsárinu öðru lokaprófi í lánshæfu
námi. Með lokaprófi sé átt við próf til staðfestingar starfs- eða háskólagráðu
en ekki undirbúnings-, fornáms eða frumgreinapróf. Kærandi uppfylli hvorugt
skilyrðið og því eigi hún ekki rétt á undanþágu.
Niðurstaða
Um námslengd er fjallað í kafla 2.4. í úthlutunarregnlum LÍN.
Þar eru í grein 2.4.2. reglur um svonefnda fimm ára reglu. Þar kemur fram að
námsmaður geti, að uppfylltum skilyrðum um námsframvindu, fengið námslán að
hámarki í allt að fimm ár samanlagt. Síðan kemur fram að heimilt sé að veita
námsmanni undanþágu frá þeirri meginreglu og veita honum lán í allt að eitt
námsár til viðbótar ef hann uppfyllir annað af tveimur skilyrðum sem þar eru
talin upp, þ.e. að samanlögð námslán hans hjá sjóðnum nemi lægri fjárhæð en 2,1
milljónum króna eða hann hafi áður staðist lokapróf í lánshæfu námi og ljúki á
námsárinu námi í lánshæfu námi. Með lokaprófi er átt við próf til staðfestingar
starfs- eða háskólagráðu en ekki undirbúnings-, fornáms eða frumgreinapróf.
Af því sem að framan er rakið og liggur fyrir í gögnum málsins nam
heildarnámslánaskuld kæranda þann 1. janúar sl. kr. 5.046.806 og þá lauk kærandi
ekki námi sínu í tækniteiknun sem hún stundaði á árunum 1990-1991. Ljóst er því
að kærandi uppfyllir hvorugt skilyrðið sem kemur fram í undanþáguákvæði greinar
2.4.2. í úthlutunarreglum LÍN. Úthlutunarreglurnar eru settar með heimild í 3.
gr. laga um LÍN nr. 21/1992. Af þessum sökum er fallist á það með stjórn LÍN að
hafna beri kröfu kæranda um undanþágu frá svonefndri 5 ára reglu um
námsframvindu. Hinn kærði úrskurður er því staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 6. nóvember 2003, mál nr. L-599/03, er staðfestur.