Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-05/2004 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá afborgun

Úrskurður

Ár 2004, föstudaginn 13. ágúst, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-5/2004:

Kæruefni

Með bréfi dags. 18. apríl 2004 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN í máli nr. I-30/04 frá 6. apríl sl. þar sem stjórnin synjaði beiðni hans um undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námsláns hans.

Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 28. apríl sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar komu fram í bréfi dags. 10. maí sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 11. maí sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Með bréfi dags. 12. maí sl. sendi kærandi málskotsnefnd yfirlýsingu frá Partille social- och arbetsnämd dags. 4. maí sl. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Málsatvik og ágreiningsefni

Með bréfi dags. 16. febrúar sl. óskaði kærandi eftir undanþágu frá endurgreiðslu námslána 2004 vegna slæms fjárhags og lágra tekna á árinu 2003 en þær námu SKR 100.231 samkvæmt framlögðum gögnum. Fram kom í bréfinu að kærandi hefði fengið starf hjá Buscaresystem AB til reynslu til marsloka 2004 og að hann vonaðist til að hann héldi starfinu. Með bréfi dags. 19. febrúar sl. óskaði LÍN eftir frekari gögnum og upplýsingum frá kæranda sem hann lét í té með bréfi dags. 23. febrúar sl. en formleg frestsumsókn kæranda á umsóknareyðublaði er dags. 25. febrúar sl. Með bréfi dags. 1. mars sl. var beiðni kæranda um undanþágu frá afborgun námslána vorið 2004 synjað með vísan til ákvæða greina 7.4.1. og 7.4.2. í úthlutunarreglum sjóðsins. Með bréfi dags. 8. mars sl. óskaði kærandi eftir úrskurði stjórnar LÍN um synjunina og er úrskurðurinn dags. 6. apríl sl. sem kærandi hefur borið undir málskotsnefnd LÍN eins og rakið er hér að ofan.

Kærandi krefst þess að fá endurgreidda þá peninga sem hann greiddi 5. mars sl. vegna fastrar afborgunar af námsláni hans með gjalddaga 1. mars sl. þar sem „social kontoret“ í Partille í Svíþjóð taki ekki til greina greiðslu á námsskuldum og því hafi hann ekkert „socialbidrag“ fengið. Af þessum sökum sé hann illa settur peningalega og hætta sé á að hann missi leiguhúsnæði sitt. Kærandi kveðst hafa misst starf sitt hjá Buscaresystem AB og hafi orðið atvinnulaus um mánaðamótin febrúar-mars sl.

Kærandi krefst þess að fá endurgreidda þá peninga sem hann greiddi 5. mars sl. vegna fastrar afborgunar af námsláni hans með gjalddaga 1. mars sl. þar sem „social kontoret“ í Partille í Svíþjóð taki ekki til greina greiðslu á námsskuldum og því hafi hann ekkert "socialbidrag" fengið. Af þessum sökum sé hann illa settur peningalega og hætta sé á að hann missi leiguhúsnæði sitt. Kærandi kveðst hafa misst starf sitt hjá Buscaresystem AB og hafi orðið atvinnulaus um mánaðamótin febrúar-mars sl.

Stjórn LÍN vísar til þess að samkvæmt greinum 7.4.1. og 7.4.2. í úthlutunarreglum sjóðsins sé það forsenda þess að unnt sé að veita undanþágu frá greiðslu afborgana af námslánum að möguleikar lántaka til öflunar tekna séu skertir á einhvern hátt, t.d. vegna veikinda, atvinnuleysis, náms o.fl. Ekki sé heimilt að veita undanþágu frá endurgreiðslu vegna þess eingöngu að lántaki afli lágra tekna og kærandi uppfylli því ekki skilyrði fyrir undanþágu enda hafi hann ekki verið skráður atvinnulaus fyrr en 5. mars sl. en gjalddagi endurgreiðslu var 1. mars sl.

Niðurstaða

Um undanþágur frá endurgreiðslu námslána gilda ákvæði 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN. Ákvæði um heimild til undanþágu frá endurgreiðslu fastrar afborgunar er að finna í 6. mgr. 8. gr. en þar segir:

"Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans."Samkvæmt 10. gr. reglugerðar um LÍN nr. 602/1997 getur námsmaður, sem hefur haft svo lágar tekjur á fyrra ári að honum reiknast ekki viðbótargreiðsla og fjárhagur hans hefur ekki batnað á endurgreiðsluárinu, sótt um undanþágu frá fastri ársgreiðslu ef ákveðnar aðstæður hafa valdið fjárhagsörðugleikum hans, s.s. lánshæft nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður lánþega eða fjölskyldu hans.

Samkvæmt gögnum málsins starfaði kærandi hjá fyrirtækinu Buscaresystem AB frá júní 2003 út febrúar 2004 en var skráður atvinnulaus frá 5. mars sl. Kærandi greiddi fasta afborgun námsláns síns með gjalddaga 1. mars sl. og var því ekki orðinn atvinnulaus á því tímamarki. Eins og fram er komið er enga heimild að finna í lögum og reglum LÍN um að undanþága sé veitt vegna lágra tekna einvörðungu heldur verða að liggja ákveðnar ástæður að baki fjárhagsörðugleikunum. Verður því ekki talið að kærandi uppfylli skilyrði laga og reglna LÍN um undanþágu frá fastri endurgreiðslu námslána.

Með vísan til framanritaðs er framangreindur úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 6. apríl 2004 í málinu nr. I-30/04 er staðfestur.

Til baka