Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-02/2004 - Ábyrgðarmenn - beiðni um niðurfellingu ábyrgðar

Úrskurður

 

Ár 2004 fimmtudaginn 19. ágúst kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-2/2004:

 

Kæruefni

 

Með bréfi dags. 8. mars 2004 kærði lögmaður kæranda, úrskurð stjórnar LÍN í málinu nr. I-15/04 frá 16. febrúar 2004, en með úrskurðinum hafnaði stjórn LÍN að kærandi væri talinn laus úr ábyrgðum sem hann tókst á hendur á námslánum er lánþegi tók á árunum 1984-1986. 

Kæran barst málskotsnefndinni þann 15. mars 2004. Með bréfi nefndarinnar dags. 16. mars 2004 var stjórn LÍN gefinn kostur á að tjá sig um kæruefnið. Með bréfi LÍN dags. 7. apríl 2004 barst álitsgerð LEGALIS lögmannsstofu þar sem sjónarmið LÍN til kærunnar voru reifuð. Með bréfi málskotsnefndarinnar dags. 15. apríl 2004 var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um sjónarmið LÍN. Þann 30. apríl 2004 barst bréf frá lögmanni kæranda þar sem gerð er frekari grein fyrir sjónarmiðum kæranda í málinu. 

Vegna tengsla sinna við kæranda málsins sagði Sigurður I. Halldórsson hdl. sig frá málinu og tók Gísli Tryggvason hdl., varamaður, hans sæti í nefndinni í máli þessu.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Á tímabilinu 1984-1986 gaf lánþeginn út tólf skuldabréf vegna náms síns sem hann stundaði á þeim tíma í Bandaríkjunum. Á allflestum bréfunum kom kærandi fram sem umboðsmaður lánþegans, auk þess sem kærandi gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu vegna allflestra lánanna. 

Í mars 1988 hvarf lánþeginn á ferðalagi í Kaliforníu. Þar sem ekkert spurðist til hans næstu árin var kveðinn upp úrskurður þann 20. mars 1991 í skiptarétti Rangárvallasýslu um að með bú hans skyldi farið eins og hann hefði látist í mars 1988, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 44/1981 um horfna menn. Lánþeginn fékk námslán útborguð í síðasta skipti í maí 1986 vegna skólaársins 1985-1986. Í samræmi við reglur sjóðsins voru námslok hans ákveðin þá og gert ráð fyrir því að hann hæfi greiðslu afborgana í mars 1989. Af upplýsingum í tölvukerfi LÍN má ráða að fyrsta afborgun var greidd í mars 1989, en hún var síðar endurgreidd í ljósi úrskurðar skiptaréttar Rangárvallasýslu. Þá voru afborganir í mars 1990 og mars 1991 einnig felldar niður á grundvelli reglna sjóðsins um að endurgreiðslur féllu niður við andlát skuldara. 

Árið 2000 sneri lánþegi aftur til landsins en ekkert hafði spurst til hans frá því í mars 1988. Í kjölfar komu sinnar til landsins óskaði lánþegi eftir því við LÍN að fá að greiða af námslánum sínum. Þann 9. nóvember 2000 féllst stjórn sjóðsins á beiðni lánþegans og var ákveðið að endurgreiðslur af námslánum hans hæfust í mars 2001 og hefur verið staðið skil á greiðslu afborgana síðan. 

Kærandi kveður stjórn LÍN ekkert samráð hafa haft við sig þegar lánþega var heimilað að hefja endurgreiðslur lána sinna að nýju í mars 2001. Kærandi kveðst þá hafa tjáð Stefáni Aðalsteinssyni, starfsmanni LÍN það munnlega að ábyrgðarmenn litu svo á að ábyrgð þeirra á lánum lánþegans væri niður fallin. 

Af hálfu kæranda er á því byggt að ábyrgðarskuldbindingin sé fyrnd á grundvelli 4. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, en þar segi að kröfur samkvæmt ábyrgðarskuldbindingum fyrnist á fjórum árum. Í 1. mgr. 5. gr. sömu laga komi fram að fyrningartími byrji að líða er krafa verði gjaldkræf. Kærandi telur að í kjölfar úrskurðar skiptaréttar Rangárvallasýslu um að fara með bú lánþegans sem bú látins manns hafi námslán hans fallið niður. Endurvakning þess hafi hvorki verið gerð að frumkvæði né með samþykki kæranda og geti hann því ekki orðið ábyrgur fyrir greiðslu þess. Til þess að svo hefði verið hefði hann orðið að samþykkja að nýju að vera ábyrgðarmaður á hinni nýju skuldbindingu. 

Kærandi telur að verði ekki talið að skuldin hafi fallið niður í marsmánuði 1988 verði að telja að hún hafi orðið gjaldkræf í síðasta lagi þegar hætt var að greiða af henni fljótlega eftir það. Þá hafi fyrningarfrestur 4. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905 byrjað að líða. Af hálfu LÍN hafi ekki verið gerðar neinar ráðstafanir til að rjúfa fyrninguna gagnvart kæranda eða öðrum ábyrgðarmönnum á lánum lánþegans, þrátt fyrir að ekki væri verið að greiða af skuldinni. Með vísan til þess sem að framan er rakið gerir kærandi þá kröfu að staðfest verði að ábyrgð hans á láni lánþega teljist niður fallin. 

Af hálfu LÍN er því haldið fram að námslok lánþega hefðu miðað við árið 1986, þ.e. þegar hann fékk síðast greidd námslán og áttu endurgreiðslur þá að hefjast á árinu 1989. Lánþegi hafi hins vegar horfið árið 1988. Greiðsla sem innt var af hendi á árinu 1989 hafi verið endurgreidd eftir að úrskurður skiptaréttar Rangárvallasýslu frá 20. mars 1991 lá fyrir, en skv. honum bar að leggja til grundvallar að lánþegi hefði látist í mars 1988. LÍN bendir á að ef allt hefði verið með felldu hefðu skuldabréfalán lánþegans fyrnst á 10 árum frá því þau urðu gjaldkræf. Með vísan til þess sem að framan er rakið hefðu skuldabréfin því átt að fyrnast á árinu 1999 eða 10 árum frá því þau gjaldféllu 1989. Af hálfu LÍN er því haldið fram að taka beri tillit til ákvæðis í 7. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905 en þar segir: "Ef skuldari dregur sviksamleg dul á, eða vanrækir að skýra frá atvikum, er krafan byggist á, eða valda því, að hún verður gjaldkræf, og skuldaranum bar skylda til að segja frá, þá fyrnist skuldin ekki, hvað sem öðru líður, fyrr en 4 ár eru liðin frá þeim degi, er kröfueigandinn fékk vitneskju um þessi atvik, eða eitt ár er liðið frá dánardægri skuldunauts." 

Telur LÍN augljóst að sú sviksamlega vanræksla lánþegans á að skýra ekki frá því hvar hann var niður kominn á árunum 1988-2000 leiði til þess að skuldabréfin sem hann gaf út á sínum tíma hafi ekki fyrnst. Af hálfu LÍN er litið svo á að nýr fyrningarfrestur hafi tekið að líða á árinu 2000 þegar LÍN fékk upplýsingar um þau atvik sem lánþegi dró skviksamlega dul á og vanrækti að skýra frá. 

Af hálfu LÍN er ekki litið svo á að ný skuldbinding hafi stofnast þegar lánþegi óskaði eftir því að hefja endurgreiðslur á námslánum sínum. Með því að samþykkja það hóf lánþegi endurgreiðslu á þeim sömu skuldabréfum og hann gaf út á árunum 1984-1986 en ný bréf voru ekki gefin út. 

Af hálfu LÍN er ekki litið svo á að ábyrgðarskuldbinding kæranda hafi fallið niður þrátt fyrir úrskurð skiptaréttar Rangárvallasýslu þar sem sá úrskurður hafi augljóslega verið efnislega rangur, en réttaráhrif hans hafi engu að síður verið þau að LÍN gat ekki krafið kæranda um greiðslu lána lánþegans. 

Af hálfu LÍN er litið svo á að skuldabréf lánþega hafi ekki gjaldfallið í raun fyrr en eftir ákvörðun stjórnar sjóðsins um að heimila honum að hefja endurgreiðslur lánsins í mars 2001. Atvik málsins hafi valdið því að bréfin hafi fyrir þann tíma í raun aldrei gjaldfallið og því hafi 4 ára fyrningarfrestur á ábyrgðarskuldbindingu kæranda ekki byrjað að líða fyrr en þá. Þá telur LÍN að úrskurður skiptaréttar Rangárvallasýslu eigi ekki að leiða til þess að ábyrgðarskuldbindingin sé fallin niður þegar upplýst er að þær upplýsingar sem lágu til grundvallar ákvörðun réttarins voru rangar.

 

Niðurstaða

 

Kærandi gekkst í ábyrgð fyrir námslánum lánþega á árunum 1984-1986. Á þeim tíma giltu lög nr. 72/1982 um Lánasjóð Íslenskra námsmanna. Í 2. mgr. 9. gr. þeirra laga var svohljóðandi ákvæði: "Endurgreiðslur sem falla í gjalddaga eftir að lánþegi andast falla sjálfkrafa niður." 

Með úrskurði skiptaréttar Rangárvallasýslu dags. 20. mars 1991 var úrskurðað að með bú lánþega skyldi fara sem hann hefði látist í marsmánuði 1988. Með þeim úrskurði fór um bú lánþega "þ.m.t. skuldir hans" eins og látinn væri og því varð ofangreint ákvæði í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 72/1982 virkt gagnvart kæranda. Hefði því stjórn LÍN ekki getað krafið hann um greiðslu lánanna á grundvelli sjálfsskuldarábyrgðarinnar eftir að úrskurðurinn gekk. Að áliti málskotsnefndarinnar féll því ábyrgð kæranda á námslánum lánþega niður að svo stöddu með ofangreindum úrskurði 1991. Síðar til komin ákvörðun stjórnar LÍN í árslok 2000 um að heimila lánþega að hefja endurgreiðslur að nýju á skuldabréfunum sem gefin höfðu verið út breyta engu í þessu sambandi enda verður að telja að ábyrgð kæranda hafi örugglega fallið niður þegar 5 ára frestur skv. IV. kafla laga nr. 44/1981 um horfna menn var liðinn miðað við hvarf lánþega, þ.e. í mars 1993. 

Að vísu var ekki kveðinn upp dómur um að lánþegi skyldi talinn látinn að undangenginni málsmeðferð skv. III. kafla laga um horfna menn þannig að LÍN gæfist kostur á að koma að sínum sjónarmiðum. Ekki verður talið að þetta ráði úrslitum þar sem þau sjónarmið eiga fyrst og fremst að lúta að vitneskju um afdrif hins horfna, sbr. 11. gr. laga um horfna menn, en ekki verður talið að LÍN hefði búið yfir meiri vitneskju en vandamenn í því efni. Auk þess gilda í aðalatriðum sömu réttaráhrif um úrskurð skv. I. kafla og dóm skv. III. kafla laga um horfna menn fari svo að dánarlíkur reynast rangar, sbr. 16. gr. sömu laga. 

Fyrir liggur að endurgreiðslur á námslánum þeim sem kærandi gekkst í ábyrgð fyrir áttu að hefjast á árinu 1989. Vegna framangreinds úrskurðar skiptaréttar Rangárvallasýslu var greiðsla sem innt var af hendi á árinu 1989 endurgreidd. Skv. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905 fyrnast kröfur samkvæmt ábyrgðarskuldbindingum á fjórum árum. Ekki er fallist á það með stjórn LÍN að 7. gr. laga nr. 14/1905 geti átt við gagnvart kæranda í máli þessu, hvað sem öðru líður, sbr. og meginreglu 19. gr. laga um horfna menn. Hvað kæranda varðar hlýtur að verða að miða við að lánin sem hann var í ábyrgð fyrir hafi gjaldfallið á árinu 1989, en þá voru þrjú ár liðin frá námslokum lánþega sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1991 og VII. kafla gildandi úthlutunarreglna LÍN. og því hafi ábyrgð hans fyrnst fjórum árum síðar eða á árinu 1993. 

Samkvæmt framangreindu verður að telja að sjálfskuldarábyrgð kæranda hafi fallið niður á árinu 1993 hvort sem litið er á samning LÍN og lánþega í árslok 2000 sem stofnun nýrrar kröfu eða skuldbreytingu. Er það í samræmi við reglur IV. kafla laga um horfna menn og óskráðar reglur um réttmætar væntingar kæranda um að sjálfskuldarábyrgð hans hafi takmarkaðan gildistíma. 

Stjórn LÍN getur að vísu með samningi við lánþega endurvakið kröfu gagnvart honum eða framlengt fyrningarfrest með því að endurskilgreina gjaldfellingardag skuldabréfanna með því að heimila lánþega að hefja endurgreiðslur að nýju á árinu 2001 eins og gert var í árslok 2000. Til þess að ábyrgð kæranda hefði haldist við þann gjörning hefði hins vegar þurft sérstakt samþykki kæranda sem ekki liggur fyrir.

Með vísan til þess sem að framan greinir er hinn kærði úrskurður úr gildi felldur og fallist á kröfu kæranda eins og í úrskurðarorði greinir.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í málinu nr. I-15/04 frá 16. febrúar 2004 er úr gildi felldur. Staðfest er að ábyrgð kæranda, á láni lánþega frá LÍN er fallin niður.

 
Til baka