Úrskurður
Ár 2004, mánudaginn 27. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-9/2004.
Kæruefni
Með bréfi dagsettu 29. júní 2004 kærði lögmaður kæranda, úrskurð stjórnar LÍN í máli nr. L-8/2004 frá 27. febrúar 2004 þar sem stjórnin synjaði beiðni hans um að felld yrði niður tekjutengda afborgun á árinu 2002. Málskotsnefnd ákvað að taka mál kæranda til meðferðar þótt kærufrestur samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefði verið liðinn þegar kært var. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 6. júlí sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Lögmanni kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dags. 9. júlí sl. og var afrit þess sent lögmanni kæranda með bréfi dags. 13. júlí sl. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá lögmanni kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi er búsettur í XXXX og starfar þar á vegum XXXX. Tekjur
hans vegna þeirra starfa njóta skattfrelsis. Þar sem kærandi skilaði ekki
upplýsingum um erlendar tekjur sínar á árinu 2002 voru þær áætlaðar til
útreiknings tekjutengdu afborguninni 1. september 2003. Ágreiningur málsins
snýst um það hvort kæranda beri að greiða tekutengda afborgun vegna umræddra
tekna en kærandi telur svo ekki vera og krefst þess að málskotsnefnd felli úr
gildi synjun stjórnar LÍN á erindi hans um að fella niður tekjutengda afborgun
2003. LÍN hafnaði kröfu kæranda með bréfi dags. 27. október 2003 og ítrekaði þá
afstöðu sína í úrskurði 27. febrúar 2004.
Kærandi véfengir að
lagagrundvöllur sé fyrir kröfu LÍN um að hann greiði tekjutengda afborgun af
skattfrjálsum tekjum sínum. Bendir hann á að LÍN sé opinber lánasjóður sem lúti
stjórnsýslureglum og grundvallarreglum íslenskrar stjórnskipunar. Hver
tekjutengd endurgreiðsla teljist til stjórnsýsluákvarðana og byggist fjárhæð
slíkrar kröfu ekki aðeins á gagnkvæmum samningi sjóðsins og lántaka heldur að
verulegu leyti á beitingu laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Samkvæmt 3. mgr. 10. gr.
laga nr. 21/1992 um LÍN hafi sjóðurinn heimild til að áætla útsvarsstofn í
tvenns konar tilvikum, í fyrsta lagi þegar lánþegi sé ekki skattskyldur á
Íslandi af öllum tekjum sínum og þegar slíkar upplýsingar teljast ótrúverðugar.
Sé þetta áréttað í grein 7.3. í úthlutunarreglum LÍN þar sem fram komi að
sjóðurinn geti ekki áætlað útsvarsstofn liggi tekjuupplýsingar fyrir. Hvorugt
skilyrðanna eigi við í máli kæranda. LÍN hafi um langt árabil sótt upplýsingar
um tekjur lánþega til skattstofu með rafrænum hætti og því ekki óskað eftir
tekjuupplýsingum frá lánþegum sem framtalsskyldir séu hérlendis heldur talið
upplýsingar í skattskýrslum vera upplýsingar sendar sjóðnum í skilningi laganna.
Kærandi hafi alltaf verið framtalsskyldur hér á landi og talið hér fram og liggi
því allar upplýsingar frammi í skattframtali hans fyrir árið 2002. LÍN hafi því
nú þegar allar nauðsynlegar upplýsingar um tekjur kæranda og hafi upplýsingarnar
ekki verið taldar ótrúverðugar. Hafi sjóðnum því ekki verið heimilt að áætla
útsvarsstofn kæranda. Teldist það brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga ef
sjóðurinn teldi kæranda bera ríkari skyldur til upplýsingagjafar en aðrir
lánþegar.
Kærandi bendir jafnframt á að LÍN sé óheimilt að nota
upplýsingar úr skattframtölum um tekjur, sem ekki eru skattskyldar á Íslandi,
til að búa til ímyndaðan skattstofn heldur sé hlutverk hans takmarkað við að
sannreyna útsvarsstofninn í skilningi 21. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna
sveitarfélaga, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt. Þar
sem tekjur kæranda myndi skýrlega ekki útsvarsstofn sé hann kr. 0 á því tímabili
sem um ræðir. Loks telur kærandi ákvörðun LÍN um að krefjast tekjutengdra
afborgana vera íþyngjandi stjórnsýsluákvarðanir sem byggja verði á skýrri
lagastoð en hún sé ekki fyrir hendi í þessu tilviki. Þau lagaákvæði, sem leggi
fjárhagslegar byrðar á borgarana, skuli skýrðar þröngri lögskýringu.
Stjórn LÍN byggir niðurstöðu sína á því að kærandi hafi eki skilað
upplýsingum um erlendar tekjur sínar á árinu 2002 og því hafi þær verið áætlaðar
til útreiknings tekjutengdu afborguninni 1. september 2003, sbr. 3. mgr. greinar
7.3. í úthlutunarreglum sjóðsins. Tilgangur tekjuáætlunar sjóðsins sé að fá
staðfestar upplýsingar frá greiðendum námslána. LÍN leggi áherslu á samræmda
framkvæmd í þessu efni og snúi sér því beint til allra greiðenda búsettra
erlendis vegna erlendra tekna þeirra. Ástæðan sé sú að ekki séu allir
framtalsskyldir af öllum tekjum sínum hérlendis, þ.e. mögulegt er að menn telji
hluta af tekjum sínum fram á Íslandi og hluta þeirra þar sem þeir búa. Samkvæmt
reglum LÍN eigi kærandi rétt á að koma staðfestum tekjuupplýsingum til sjóðsins
ef hann vill byggja endurgreiðsluna á þeim fremur en áætluninni.
Niðurstaða
Í 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN er mælt fyrir um endurgreiðslu
námslána. Samkvæmt 1. mgr. ákvarðast árleg endurgreiðsla lánþega í tvennu lagi.
Skýrlega er mælt fyrir um það að önnur greiðslan skuli vera föst greiðsla, sem
innheimt er á fyrri hluta ársins og sé hún óháð tekjum en hins vegar sé
tekjutengd greiðsla innheimt á seinni hluta ársins og sé hún háð tekjum fyrra
árs. Í 3. mgr. 8. gr. kemur fram að viðbótargreiðslan miðast við ákveðinn
hundraðshluta af útsvarsstofni ársins á undan endurgreiðsluári og er
útreikningum greiðslunnar nánar lýst í næstu málsgreinum.
Um
endurgreiðslu lánþega, sem er á endurgreiðslutímanum ekki skattskyldur á Íslandi
af öllum tekjum sínum og eignum, er sérákvæði að finna í 3. mgr. 10. gr.
laganna. Þar segir:"Sé lánþegi á endurgeriðslutímanum ekki skattskyldur á
Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum skal honum gefinn kostur á að senda
sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og yrði hámark árlegrar
endurgreiðslu ákveðið í samræmi við það. Geri hann það ekki eða telja verður
upplýsingar hans ósennilegar og ekki unnt að sannreyna útsvarsstofn samkvæmt því
skal stjórn sjóðsins áætla honum útsvarsstofn til útreiknings árlegrar
viðbótargreiðslu. Kom í ljós að áætlun þessi sé röng eiga ákvæði 2. mgr.
við."
Fram er komið að LÍN hefur óskað eftir því við kæranda að hann
sendi sjóðnum upplýsingar um tekjur sínar á árinu 2002 með heimild í
framangreindri lagagrein en kærandi hefur ekki orðið við því. Eins og komið
hefur fram í athugasemdum stjórnar LÍN er tilgangur sjóðsins að fá staðfestar
tekjuupplýsingar frá greiðendum námslána þar sem ekki séu allir framtalsskyldir
af öllum tekjum sínum hérlendis og því mögulegt að menn telji hluta af tekjum
sínum fram hér á landi og hluta tekna sinna þar sem þeir eru búsettir.
Upplýsingar úr skattskýrslum geta verið ónógar í tilfelli greiðenda sem búa og
starfa í útlöndum. Verður af þessum sökum ekki fallist á það með kæranda að
framangreind tilhögun sé brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga þótt önnur regla
gildi um þá greiðendur sem eru að öllu leyti framtalsskyldir hér á landi.
Eins og lýst er hér að framan er árleg viðbótargreiðsla háð tekjum fyrra
árs, sbr. ákvæði 3. mgr. 8. gr. laga um LÍN, og er í 3. mgr. 10. gr. laganna
mælt fyrir um að hámark árlegrar endurgreiðslu lánþega, sem ekki er skattskyldur
hér á landi af öllum tekjum sínum og eignum, skuli ákvarðað í samræmi við
upplýsingar um tekjur. Við túlkun 10. gr. í heild verður að líta til
meginsjónarmiðsins um að upplýsingar um raunverulegar tekjur fyrra árs eigi að
leggja til grundvallar útreikningi á endurgreiðslu. Umfjöllun í lagaákvæðinu um
tillit til útsvarsstofns breyta ekki þeirri viðmiðun. LÍN er samkvæmt skýru
orðalagi 3. mgr. 10. gr. heimilt að áætla tekjur til útreiknings árlegrar
viðbótargreiðslu ef greiðandi sendir ekki sjóðnum þær upplýsingar sem honum ber
skylda til samkvæmt lagakvæðinu. Í ljósi þessa er það niðurstaða málskotsnefndar
að LÍN hafi verið heimilt að áætla tekjur kæranda eins og sjóðurinn gerði.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 27. febrúar 2004 í málinu nr. L-9/2004 er staðfestur.