Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-11/2004 - Námslok - skilgreining námsloka

Úrskurður

Ár 2004, mánudaginn 22. nóvember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-11/2004:

Kæruefni

Með kæru dags. 27. janúar 2003 kærði lögmaður lánþega, úrskurð stjórnar LÍN í máli nr. L-116/04 frá 10. ágúst 2004 þar sem stjórnin ákvarðaði að námslok kæranda skyldu skilgreind 31. janúar 2002 á þeirri forsendu að sjóðnum hefðu ekki borist nein gögn um lánshæfan námsárangur kæranda á vorönn 2002, haustönn 2002 og vorönn 2003.

Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 27. ágúst 2004 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um kæruna. Svarbréf LÍN er dags. 9. september 2004. Lögmanni kæranda var sent afrit af því og gefinn kostur á að tjá sig um það. Svarbréf barst frá lögmanninum dags. 6. október 2004 og var málið að því búnu tekið til úrskurðar.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi fékk lán hjá LÍN vegna náms í mannfræði við Kaupmannahafnarháskóla skólaárið 2000-2001 og á haustönn 2001. LÍN skráði námslok hjá kæranda þann 31. janúar 2002, eða við lok þess tímabils sem kærandi fékk síðast lán hjá sjóðnum.

Ágreiningur aðila lýtur að því að kærandi telur ekki efni til að ákvarða námslokin á þessum tíma, enda stundi hann enn nám sitt og sé um það bil að ljúka mastersnámi sínu. Kærandi kveðst hafa sent LÍN staðfestingu skólans um að hann stundi þar enn nám, en það hafi í engu breytt þeirri afstöðu LÍN að skilgreina námslokin við lok þeirrar annar sem hann fékk síðast námslán eða þann 31. janúar 2002 svo sem áður segir.

Af hálfu stjórnar LÍN er á því byggt að kærandi hafi ekki sýnt fram á lánshæft nám eftir að haustönn 2001 lauk og námshlé í þeim skilningi hafi því staðið lengur en 2 misseri, sbr. gr. 2.5.1. í úthlutunarreglum sjóðsins. Af þessum sökum sé viðmiðunardagsetning námsloka lok þeirrar annar sem kærandi fékk síðast lán hjá sjóðnum.

Ágreiningur aðila lýtur að því að kærandi telur ekki efni til að ákvarða námslokin á þessum tíma, enda stundi hann enn nám sitt og sé um það bil að ljúka mastersnámi sínu. Kærandi kveðst hafa sent LÍN staðfestingu skólans um að hann stundi þar enn nám, en það hafi í engu breytt þeirri afstöðu LÍN að skilgreina námslokin við lok þeirrar annar sem hann fékk síðast námslán eða þann 31. janúar 2002 svo sem áður segir.

Af hálfu stjórnar LÍN er á því byggt að kærandi hafi ekki sýnt fram á lánshæft nám eftir að haustönn 2001 lauk og námshlé í þeim skilningi hafi því staðið lengur en 2 misseri, sbr. gr. 2.5.1. í úthlutunarreglum sjóðsins. Af þessum sökum sé viðmiðunardagsetning námsloka lok þeirrar annar sem kærandi fékk síðast lán hjá sjóðnum.

Kærandi bendir á að skv. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna skuli endurgreiðsla af lánum hefjast tveimur árum eftir námslok. Að mati kæranda skortir LÍN heimild að lögum til að þrengja það ákvæði með íþyngjandi hætti sem raunin sé svo sem með því að setja skilyrði um að lánþegar verði að stunda lánshæft nám. Kærandi telur að ströng skilyrði LÍN um námshraða til námsláns verði ekki yfirfærð og gerð að ákvörðunarástæðu fyrir námslokum. Skýra lagaheimild þurfi til þess og ákvörðun LÍN sé jafnframt brot á meðalhólfsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að áliti kæranda. Kærandi telur LÍN beita harðasta úrræði sínu og tefli þannig mastersnámi hans í tvísýnu og að sama skapi framtíðarhagsmunum hans og starfsréttindum. Kærandi kveður LÍN ávallt hafa hafnað frestun námsloka og það sé andstætt stjórnsýslulögum og góðum stjórnsýsluháttum.

Kærandi kveður nám sitt hafa hafist með umfangsmikilli rannsóknarvinnu sem hafi staðið í um þrjú misseri og síðan hafi tekið við úrvinnsla sem sé að ná lokastigi með mastersritgerð. Kærandi kveður námshraða sinn vera eðlilegan miðað við það metnaðarfulla verkefni sem hann sé að ljúka. Bæði námsframvinda og væntanleg námslok séu í fullu samræmi við það. Kærandi kveður LÍN ranglega halda því fram að ekkert hafi komið fram um námsástundun og láti eins og framlögð staðfesting Kaupmannahafnarháskóla á náminu sé ekki til. Þeirri staðfestingu hafi hvorki verið hnekkt né óskað viðbótarupplýsinga og málið ekki rannsakað samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga að áliti kæranda. Kærandi telur alla málsmeðferð LÍN vera andstæða góðum stjórnsýsluháttum.

Niðurstaða

4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er svohljóðandi:"Endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir námslok. Sjóðstjórn skilgreinir hvað telja beri námslok samkvæmt lögum þessum og úrskurðar um vafatilfelli."

Grein 2.5.1. í úthlutunarreglum LÍN er svohljóðandi: "Námslok teljast við lok þess misseris þegar námsmaður hættir að fá lán, nema námsmaður sýni fram á áframhaldandi lánshæft nám á næsta skólaári þar á eftir. Ef námsmaður gerir hlé á námi sínu lengur en eitt skólaár miðast námslok þannig við síðasta aðstoðartímabil fyrir námshlé. Hefji námsmaður nám aftur að loknu námshléi, sem er lengra en eitt skólaár, skal líta á það sem nýtt nám."

Ljóst er af síðari málslið 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 að stjórn LÍN getur skilgreint hvað telja beri námslok samkvæmt lögunum. Í áðurnefndri grein úthlutunarreglna sjóðsins hefur þetta verið skilgreint. Þessar reglur eru aðgengilegar fyrir lántakendur, jafnræðis er gætt og hefur þetta tiltekna ákvæði verið óbreytt í úthlutunarreglunum um margra ára skeið. Ekki er fallist á það með kæranda að skilgreining stjórnar LÍN á því hvað teljist til námsloka í skilningi sjóðsins feli í sér brot á stjórnsýslureglum.

Ekki er fallist á það með kæranda að stjórn LÍN hafi í málsmeðferð sinni brotið gegn stjórnsýslureglum, s.s. rannsóknarreglu eða meðalhólfsreglu, heldur þykir málskotsnefndinni sýnt að afgreiðsla málsins hafi verið rétt og í samræmi við lög og úthlutunarreglur. Þá hefur kærandi ekki sýnt fram á það með framlagningu gagna til stjórnar LÍN eða málskotsnefndar að nám það sem hann nú stundar við Kaupmannahafnarháskóla sé lánshæft nám í skilningi úthlutunarreglna LÍN.

Með vísan til framangreinds er niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í málinu nr. L-116/04 frá 10. ágúst 2004 er staðfestur.

Til baka