Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-06/2004 - Framfærsla - beiðni um hækkun á láni vegna breytinga á gengi

Úrskurður

Ár 2005, fimmtudaginn 20. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-6/2004.

Kæruefni

Með ódagsettu bréfi kærði lánþegi, úrskurð stjórnar LÍN í máli nr. L-19/2004 frá 7. apríl 2004 þar sem stjórnin synjaði beiðni hans um að afgreiðsla LÍN á námsláni hans frá 15. febrúar 2004 verði endurskoðuð og hækkuð sem nemur þeirri rýrnun í virði sem orðið hefur milli bandaríkjadals og íslenskrar krónu frá því lánsloforð var gefið út í ágúst 2003 til útborgunardags. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 14. maí 2004 og jafnframt gefinn 14 daga frestur til að tjá sig um hana og var kæranda sent afrit þessa bréfs. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dags. 24. maí sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 26. maí sl. Kærandi sendi frekari athugasemdir til málskotsnefndar 8. júní sl. og var stjórn LÍN sent afrit bréfs kæranda með bréfi dags. 5. júlí sl. Stjórn LÍN sendi bréf dags. 9. júlí þar sem hún kvaðst ekki gera frekari athugasemdir.

Með bréfi dags. 21. október sl. fór málskotsnefnd fram á það við kæranda að hann upplýsti hvernig hann hefði skaðast af þeirri gengisbreytingu sem hann nefni. Afrit bréfsins var send stjórn LÍN með bréfi dags. sama dag. Kærandi sendi málskotsnefnd bréf dags. 31. október sl. og var stjórn LÍN sent afrit þess með bréfi dags. 25. nóvember sl. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá stjórn LÍN. Með bréfi dags. 16. desember 2004 var kæranda enn sent bréf þar sem þess var óskað að hann upplýsti hvort og þá með hvaða hætti gengismunur bandaríkjadals á umræddu tímabili hefði haft áhrif á ráðstöfunartekjur hans og framfærslu á tímabilinu og var óskað svars innan 14 daga. Kærandi óskaði eftir frekari fresti í bréfi til málskotsnefndar dags. 23. desember sl. en svar kæranda er dags. 6. janúar 2005.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundar nám í Rússlandi og fær framfærslulán frá LÍN sem reiknuð eru út í bandaríkjadölum samkvæmt fylgiskjali II í úthlutunarreglum sjóðsins. Kærandi skaut máli sínu til málskotsnefndar þar sem gengi bandaríkjadals gagnvart íslenskri krónu hefði lækkað um 17,5% frá því lánsloforð var gefið út þar til kom að útborgun 15. febrúar sl. Hefur kærandi krafist þess að afgreiðsla námslána hans verði endurskoðuð. Aðalkrafa hans lýtur að því að afgreiðsla framfærslulána hans frá 15. febrúar sl. verði reiknuð á því gengi sem bandaríkjadalur var skráður á við útgáfu lánsloforðs í lok ágúst 2003. Kærandi gerir allmargar varakröfur og er sú fyrsta á þá leið að upphæð mánaðarlegrar framfærslu verði umreiknuð í myntir eða vísitölur á innbyrðis gengi 5. maí 2003 og námslán afgreidd í samræmi við það á skráðu gengi viðkomandi mynta þann dag sem lánsloforð var gefið út, þannig: að reiknað sé út frá þróun gengisvísitölu íslensku krónunnar frá 5. mars 2003 til 29. ágúst sama ár, að reiknað sé út frá þróun gengisskráningar evru á sama tímabili eða að reiknað sé út frá þróun gengisskráningar rúblu á sama tímabili. Þá gerir kærandi kröfu um að upphæð mánaðarlegrar framfærslu verði reiknuð yfir í evru á því gengi sem var við síðustu endurskoðun reglna sjóðsins 5. maí 2003 og afgreiðslu lána verði reiknuð í evrum á því gengi sem var 15. febrúar 2004 eða að upphæðin ráðist af gengi íslensku krónunnar með sama hætti. Einnig gerir kærandi þá kröfu að framfærsla hans verði reiknuð sem hlutfall af framfærslu á Íslandi eins og það hlutfall birtist í fylgiskjali II er á móti þeim 77.500 krónum sem ætlaðar eru til framfærslu á Íslandi á gengi 5. maí 2003. Þá gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt aukalán er jafngildi framfærslu eins mánaðar í samræmi við ákvæði greinar 4.9.1. þar sem flokka megi stórfellt tap hans af gengisþróun á tímabilinu frá útgáfu lánsloforðs sem stórfellda röskun á stöðu hans og högum. Útfærir kærandi þessa kröfu sína frekar í kærunni. Kærandi gerir enn fremur kröfu til þess að framfærsla hans verði reiknuð út miðað við rúblu á því gengi sem ríkti við síðustu endurskoðun reglna sjóðsins 5. maí 2003 og að afgreiðsla lána hans verði reiknuð í rúblum á því gengi sem ríkti 15. febrúar 2004. Síðasta varakrafa kæranda er sú að LÍN endurskoði lánsafgreiðslu sína frá 15. febrúar 2004 og hækki eins og sjóðnum þyki eðlilegt í ljósi aðstæðna. Þá gerir kærandi kröfu um málskostnað að fjárhæð 15.000 krónur og bætur sem nemi 2% af heildarframfærslulánum vetrarins vegna fjárhagslegra óþæginda hans. Til vara krefst hann þess að LÍN greiði honum fjárhæð sem sjóðnum þyki eðlileg vegna málskostnaðar og bætur vegna vaxtakostnaðar og fjárhagslegra óþæginda eins og sjóðnum þykja hæfilegar.

Kærandi hefur rökstutt kröfur sínar í löngu máli og gerir einnig ýmsar athugasemdir við reglur og framkvæmd LÍN. Verða hér raktar helstu röksemdir kæranda til stuðnings kröfum hans. Kærandi byggir m.a. á því að enga skýra heimild né útskýringar sé að finna í grein 5.2.2. í úthlutunarreglum LÍN til að reikna lánin út í bandaríkjadollar í stað rúblu. Viðmiðun við bandaríkjadal hafi skapað kæranda tjón á umræddu tímabili. Þá sé engin heimild til þess að reikna grunnframfærslu í útlöndum sem hlutfall af grunnframfærslu á Íslandi eins og gert er ráð fyrir í grein 3.1.2. Sé hvergi að finna tilgreiningu um það við hvaða tímamark eigi að miða umreikning af framfærslu á Íslandi yfir í erlenda mynt.

Þá byggir kærandi á því að LÍN bregðist því hlutverki sínu skv. 3. gr. laga nr. 21/1992 veita námsmönnum framfærslulán sem nægi til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur með því að koma ekki til móts við námsmenn sem orðið hafa fyrir gengistapi. Kærandi telur jafnframt óeðlilegt að ýmsir frádráttarliðir séu reiknaðir út á gengi 5. maí 2003 þegar lánin séu reiknuð út frá gengi hins erlenda gjaldmiðils við útborgun. Þróun bandaríkjadals hafi með þessu móti leitt til óhagstæðs útreiknings fyrir hann.

Kærandi bendir einnig á ýmis rök fyrir því að miða eigi við gengi gjaldmiðla á útgáfudegi lánsloforðs við útborgun námsláns. Helst komi til álita að áætlanir námsmanna um fjárþörf miðist við þann dag og að túlka beri lánþega í hag þegar LÍN greiðir út lán. Þá sé skortur á reglum um það hvernig námsmenn séu varðir gegn óhagstæðum gengissveiflum brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar, 2. gr. samningsviðauka nr. 1 við lög um mannréttindasáttmála Evrópu um rétt til menntunar, 11. gr. laga um alþjóðasamninga um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi nr. 10/1972 og 13. gr. sömu laga. Kærandi telur ósanngjarnt að stórfelld lækkun á gengi bandaríkjadals á umræddu tímabili sé ekki talin til fjárhagslegra áfalla í skilningi greinar 4.9.1. í úthlutunarreglum LÍN.

Stjórn LÍN bendir á að grunnframfærsla í Rússlandi sé ákveðið hlutfall af grunnframfærslu á Íslandi skv. grein 3.1.2. í úthlutunarreglum sjóðsins og sé hlutfallið endurskoðað árlega með nýjum úthlutunarreglum og með tilliti til verðlags- og gengisþróunar. Framfærslukostnaður í Rússlandi hafi verið ákveðinn fyrir skólaárið 2003-2004 í bandaríkjadölum og sé hann bundinn af þeirri framfærslutölu. Enga heimild sé að finna í grein 4.9.1. til að bæta námsmönnum upp ætlað gengistap eða kostnað vegna gengisbreytingar. Fullyrðingar kæranda um gengistap vegna styrkingar íslensku krónunnar séu ekki á rökum reistar því hann hafi hvorki sýnt fram á útgjöld í íslenskum krónum né gert grein fyrir mögulegum fjármagnstekjum eða fjármagnskostnaði eftir að hann hóf nám haustið 2003. Námslán kæranda séu afgreidd í samræmi við ákvæði greinar 5.2.2. og því í samræmi við lög og reglur.

Niðurstaða

Í 3. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN segir m.a.:

"Miða skal við að námslán samkvæmt lögum þessum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmanns. Stjórn sjóðsins er heimilt að taka tillit til búsetu og annarra atriða er áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu námsmanns. Stjórn sjóðsins setur nánari ákvæði um úthlutun námslána."

Samkvæmt heimild í framangreindu lagaákvæði hefur stjórn LÍN sett reglur um útreikning námslána til náms erlendis. Í grein 5.2.2. í úthlutunarreglum LÍN kemur fram sú meginregla að námslán er reiknað út í mynt viðkomandi námslands og mælt fyrir um með hvaða hætti sá útreikningur er framkvæmdur. Þá er í reglunum skýrt kveðið á um það við hvaða mynt ber að miða fyrir hvert land fyrir sig, sbr. fylgiskjal II, og hefur um langt árabil verið stuðst við bandaríkjadal við útreikning lána námsmanna í Rússlandi og hefur það verið gert í þeim tilgangi að verja námsmenn fyrir veikri stöðu íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Verða reglur þessar ekki taldar brjóta í bága við ákvæði laga um LÍN nr. 21/1992.

Ljóst er að gengisbreytingar geta valdið því að fjárhæð útborgaðra námslána getur verið hærri eða lægri en hún var þegar lánsloforð var gefið. Verður því að ganga úr skugga um hvort slíkar breytingar valda því að námsmaður njóti ekki þeirrar réttinda sem honum ber lögum samkvæmt. Eins og áður er rakið ber skv. 3. gr. laganna um LÍN að miða við að námslán nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur. Málskotsnefnd hefur óskað eftir því við kæranda málsins að hann gefi upplýsingar um hvernig hann hafi skaðast af gengisbreytingum á tímabilinu frá útgáfu lánsloforðs til útborgunar láns hans. Hefur kærandi vísað til þess að raunvirði framfærsluláns hans hafi skerst vegna gengisbreytinganna og vísað til taflna sem hann sendi nefndinni máli sínu til stuðnings. Kærandi dregur í þeim töflum upp annars vegar raunverulega afgreiðslu lána hans og hins vegar þá afgreiðslu sem hann telur réttari. Gögn þessi sýna ekki fram á að afgreitt námslán kæranda hafi ekki dugað honum til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur. Önnur gögn málsins varpa ekki frekari ljósi á það atriði. Þá hefur kærandi ekki upplýst hvort og þá hvernig gengismunur bandaríkjadals á umræddu tímabili hefði haft áhrif á ráðstöfunartekjur hans og framfærslu á tímabilinu. Verður því ekki talið að á rétti kæranda samkvæmt ákvæðum 3. gr. laganna um LÍN hafi verið brotið. Í ljósi þessa er það niðurstaða málskotsnefndar að staðfesta framangreinda niðurstöðu LÍN.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 7. apríl 2004 í málinu nr. L-19/04 er staðfestur.

Til baka