Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-05/2005 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá afborgun

Úrskurður

Ár 2005, þriðjudaginn 24. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-5/2005:

Kæruefni

Með ódagsettri kæru sem ber póststimpil 2. október sl. en sem barst málskotsnefnd LÍN 20. október sl., hefur lánþegi kært úrskurð stjórnar LÍN frá 15. september 2005 þar sem stjórnin hafnaði beiðni hans um frest á fastri afborgun námsláns 1. mars 2005 á þeirri forsendu að meira en 60 dagar væru liðnir frá gjalddaganum.

Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 20. október 2005 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit af bréfinu með bréfi dags. sama dag. Svarbréf LÍN er dags. 1. nóvember 2005. Með bréfi dags. 4. nóvember 2005 var kæranda sent afrit af svarbréfi stjórnar LÍN og gefinn kostur á að tjá sig um það. Kærandi sendi málskotsnefnd athugasemdir sínar í bréfi dags. 9. nóvember 2005. Með bréfi dags. 20. desember 2005 óskaði málskotsnefnd eftir því við kæranda að hann upplýsti nefndina um það hvort hann gæti sýnt fram á það með gögnum að hann hefði sent LÍN umsókn um undanþágu frá afborgun námsláns í pósti og að hann upplýsti hvenær hún hefði verið póstlögð. Ekkert svar barst frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi hefur óskað eftir því að honum verði veittur frestur á endurgreiðslu námsláns vegna náms og lágra tekna. Hann telur sig hafa sent undanþáguumsókn sína í pósti en hún misfarist en tekur fram að hann hafi áður grennslast fyrir um það hjá LÍN hvar hann gæti nálgast þar til gert eyðublað með tölvupósti sem hann sendi LÍN 24. janúar sl. Kærandi hafi hins vegar ekki móttekið ítrekanir á greiðslu námsláns síns og enga vitneskju haft um þær tilkynningar þar sem sjóðurinn hafi hvorki sent þær til kærandans sjálfs né umboðsmanns hans, heldur á ábyrgðarmann á hinu gjaldfallna láni. Hafi það verið gert þótt heimilisfang kæranda í Danmörku hafi komið fram í áðurgreindu afriti af tölvupóstsskeyti frá 24. janúar sl.

Um það álitaefni hvort kærandi eigi rétt á undanþágu frá endurgreiðslu námsláns síns, bendir hann á að hann hafi stundað nám bæði á haustmisseri 2004 og vormisseri 2005. Kærandi fái nú danskt námslán, SU, sem hann hafi fengið frá því í febrúar sl. Hjúkrunarfræðinám kæranda sé lánshæft og tekjur hans séu undir þeim tekjumörkum sem LÍN setji við mat á umsóknum um undanþágur. Kærandi byggir á því að hann hafi sent LÍN upplýsingar um tekjur sínar og framvindu náms og telji sig þar með uppfylla skilyrði til undanþágu frá endurgreiðslu námsláns.

Stjórn LÍN vísar niðurstöðu sinni frá 15. september sl. til stuðnings til ákvæða í grein 7.4.3. í úthlutunarreglum LÍN þar sem segi að umsókn um frest á endurgreiðslu námsláns þurfi að berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga. Ekki hafi borist nein umsókn um undanþágu á afborgun námslána fyrir árið 2005 og kærandi hafi ekki brugðist við fyrr en eftir að hafa fengið greiðsluseðil og þrjár ítrekanir með bréfi dags. 9. september sl. Í athugasemdum stjórnar LÍN frá 1. nóvember sl. kemur fram það álit stjórnar LÍN að óvíst sé að kærandi hefði fengið undanþágu frá afborgunum ársins 2005 sbr. reglur sjóðsins um hámarkslánstíma og skilyrði um að lánshæft nám sé stundað bæði á haustmisseri 2004 og vormisseri 2005.

Niðurstaða

Í grein 7.4.3. í úthlutunarreglum LÍN kemur fram að lánþegi geti óskað eftir frestun eða niðurfellingu á endurgreiðslu námsláns en að slík umsókn skuli berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar. Síðan segir að hafi ósk um frestun ekki borist sjóðnum fyrir þessi tímamörk sé óheimilt að fresta afborguninni. Er ákvæðið í samræmi við ákvæði 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna þar sem segir að umsókn um undanþágu á endurgreiðslu námsláns skuli berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar.

Í gögnum málsins kemur fram að gjalddagi á fastri afborgun umrædds námsláns var 1. mars sl. en formlegt erindi kæranda til LÍN um frestun á afborguninni er dagsett 9. september sl. þótt ljóst sé af gögnum að kærandi óskaði eftir því við sjóðinn með tölvupósti 24. janúar sl. að fá sent eyðublað til að sækja um undanþágu á afborgun námsláns. Því erindi var svarað með tölvupósti frá starfsmanni sjóðsins sama dag þar sem kæranda var bent á leiðbeiningar á heimasíðu LÍN.

Kærandi telur sig hafa sent LÍN umsókn um undanþágu í pósti sem hljóti að hafa misfarist. Með bréfi dags. 20. desember sl. var kæranda gefinn kostur á að sýna frá á að það með einhverjum hætti að hann hafi sent umsókn um undanþágu í pósti, t.d. með gögnum, og að hann upplýsti hvenær umsóknin hefði verið póstlögð. Engin viðbrögð bárust frá kæranda vegna þessa. Af framlögðum gögnum má sjá að tvær ítrekanir og lokaviðvörun vegna gjaldföllnu afborgunarinnar voru sendar til umboðsmanns kæranda en ekki til kæranda og hefur kærandi haldið því fram að hún hafi ekki vitað af bréfunum.

Ekki verður séð að LÍN hafi verið ókunnugt um heimilisfang kæranda og telur málskotsnefnd að viðkomandi tilkynningar hefði átt að senda beint til kæranda. Hins vegar verður að líta til þess að kæranda mátti vera ljóst hver staða námsláns hans var og af gögnum málsins liggur fyrir að hann vissi að hann þyrfti að sækja um undanþágu. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi póstlagt slíka umsókn þótt honum hafi verið gefinn kostur á því við meðferð málsins fyrir málskotsnefnd. Með vísan til framangreinds er niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 15. september 2005 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka