Úrskurður
Ár 2006, þriðjudaginn 24 janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-4/2005:
Kæruefni
Með kæru dags. 4. október 2005 kærði lánþegi, úrskurð stjórnar
LÍN frá 16. september 2005 þar sem stjórnin synjaði beiðni kæranda um frekari
námslán þar sem kærandi hafði fullnýtt hámarkslánstíma samkvæmt úthlutunarreglum
LÍN.
Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 11. október 2005
og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um kæruna. Svarbréf LÍN er dags. 14.
október 2005. Með bréfi dags. 20. október 2005 var kæranda sent afrit af
svarbréfi stjórnar LÍN og gefinn kostur á að tjá sig um það. Engar frekari
athugasemdir hafa borist frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi hóf MBA nám við Háskólann í Reykjavík haustið 2003.
Námið er skipulagt sem fjögurra missera nám og er lánshæft allan tímann uppfylli
námsmaður sett skilyrði s.s. námsframvindu og hámarkssvigrúm. Þegar kærandi hóf
MBA nám sitt hafði kærandi fengið námslán á árabilinu 1987 til 1997 í samtals
8,5 ár og átti því einungis rétt á námsláni í þrjú misseri.
Kærandi
heldur því fram að hann hafi ráðfært sig við ráðgjafa hjá LÍN um lánamöguleika
sína áður en hann hóf MBA námið við Háskólann í Reykjavík og þar hafi komið fram
að hann ætti rétt á námslánum allan námstímann.
Stjórn LÍN bendir á að
eftir að kærandi sótti um námslán 27. júlí sl. hafi LÍN sent honum bréf dags.
29. júlí sl. þar sem athygli hans var vakin á því að hann ætti aðeins rétt á
námsláni hluta námsársins vegna reglna um hámarkslánstíma. Með bréfi til LÍN
dags. 25. ágúst sl. fór kærandi fram á undanþágu frá reglunni um
hámarkslánstíma. Í bréfinu kemur fram að kærandi hafi áður en hann hóf MBA nám
sitt hætt við arkitektanám erlendis þar sem starfsmenn LÍN hefðu staðfest að
hann ætti ekki rétt á láni í svo langt nám. Eftir nýjan fund með ráðgjöfum LÍN
hafi kærandi skráð sig í MBA námið. Það kemur hvorki fram hvenær þessir fundir
með ráðgjöfum LÍN hafi átt sér stað né við hverja kærandi ræddi. Hjá LÍN finnast
engar upplýsingar um þessa fundi.
Einnig kemur fram hjá LÍN að kærandi
hafi upphaflega sótt um aðstoð vegna MBA náms við Háskólann í Reykjavík 27. júní
2002, en hafi dregið þá umsókn til baka með tölvupósti 24. mars 2003. Kærandi
sótti að nýju um MBA námið við skólann 21. júní 2004. Við skráningu beggja
umsóknanna hjá LÍN var tilgreint að hámarkssvigrúm hans leyfði aðeins
viðbótarnámslán í 3 misseri og vegna seinni umsóknarinnar var kæranda send
lánsáætlun þar sem skýrt kom fram að hann hafði samtals fengið aðstoð í 17
misseri.
Stjórn LÍN byggir niðurstöðu sína á því að kærandi hafi fengið
lán hjá sjóðnum vegna náms samtals í 19 misseri eða 9,5 ár og hafi því einungis
átt rétt á láni í eitt misseri til viðbótar samkvæmt 10 ára reglunni sem fram
kemur í gr. 2.4.3. í úthlutunarreglum LÍN. Hvorki í greininni né í framkvæmd er
að finna undanþágu frá reglunni.
Niðurstaða
Í gr. 2.4.3. í úthlutunarreglum LÍN segir m.a: "Samanlagður
tími sem námsmaður getur fengið lán er að hámarki 10 ár." Í máli þessu liggur
fyrir að kærandi hafði fullnýtt lánamöguleika sína þegar honum hafði verið veitt
lán vegan haustmisseris 2005. Ekki er að finna heimild til undanþágu frá
reglunni um hámarkslánstíma í úthlutunarreglum LÍN.
Ekki verður séð af
gögnum málsins að ráðgjafar LÍN hafi veitt kæranda rangar eða ófullnægjandi
upplýsingar um lánamöguleika hans er hann hóf MBA nám sitt haustið 2003.Með
vísan til framangreinds er niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 16. september 2005 í máli kæranda er staðfestur.