Úrskurður
Ár 2006, fimmtudaginn 16. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-6/2005.
Kæruefni
Með kæru dags. 6. desember 2005 sem barst málskotsnefndinni
þann 19. desember 2005 kærði lánþegi, úrskurð stjórnar LÍN frá 24. október 2005
þar sem því var hafnað að nám kæranda væri lánshæft þar sem kærandi stundaði
einungis 50% nám. Kærandi hugðist skila 30 ECTS einingum á skólaári, en fullt
nám telst 60 ECTS einingar á ári.
Með bréfi málskotsnefndarinnar dags.
19. desember 2005 var stjórn LÍN tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að tjá
sig um hana. Athugasemdir stjórnarinnar bárust nefndinni með bréfi dags. 29.
desember 2005. Með bréfi málskotsnefndarinnar til kæranda dags. 29. desember
2005 var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir stjórnar LÍN.
Svarbréf kæranda dags. 9. janúar 2006 barst málskotsnefndinni þann 13. janúar
2006.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi stundar nám við félagsvísindadeild Álaborgarháskóla í
Danmörku. Vegna lesblindu skráði kærandi sig einungis í 50% nám og skilar því
aðeins 30 ECTS námseiningum á ári. Kærandi bendir á að námið sem slíkt sé
lánshæft og að námshraðinn eigi ekki að skipta neinu í því sambandi. Kærandi
bendir á að hann gæti sótt um undanþágu vegna lesblindu en það myndi ekki
tengjast lánshæfi námsins. Óskar kærandi þess að námið sé viðurkennt sem
lánshæft óháð námsframvindunni eins og á stendur í þessu máli.
Af hálfu
stjórnar LÍN er því haldið fram að kærandi hafi fyrirfram verið gerð grein fyrir
því að til að nám teldist lánshæft þyrfti það að vera skipulagt sem fullt nám.
Jafnframt hafi honum verið kynntir möguleikar á að sækja um undanþágu vegna
lesblindu. Þrátt fyrir þetta hafi kærandi ákveðið að skrá sig í hlutanám (50%)
og óskaði síðan eftir að námið yrði samþykkt sem lánshæft nám m.t.t. lesblindu
sinnar. Stjórn sjóðsins hafi því hafnað erindi kæranda með vísan til gr. 2.1.1.
og 2.2.1. í úthlutunarreglum LÍN. Stjórn LÍN tekur fram að kærandi hafi sent
sjóðnum vottorð sérfræðings um lesblindu kæranda dags. 4. maí 1998. Það vottorð
staðfesti hins vegar ekki að lesblinda kæranda sé með þeim hætti að skilyrði gr.
2.3.3. í úthlutunarreglum LÍN sé uppfyllt.
Niðurstaða
Í gr. 2.2.1. í úthlutunarreglum LÍN kemur skýrt fram að til að
námsmaður eigi rétt á námsláni skuli hann að jafnaði ljúka 100% af fullu námi
skv. skipulagi skóla. Viðmiðun LÍN um fullt nám er að lokið sé 60 ECTS einingum
á ári. Fyrir liggur að kærandi lýkur einungis 50% af þeim einingafjölda og á því
skv. fyrrgreindri grein í úthlutunarreglunum ekki rétt á námsláni. Skiptir í því
sambandi engu þó námið sem slíkt sé í raun lánshæft ef um fullt nám væri að
ræða. Kærandi hefur ekki sótt um né sýnt fram á að hann eigi rétt á undanþágu
vegna lesblindu á grundvelli gr. 2.3.3. í úthlutunarreglunum.
Með vísan
til þess sem að framan greinir er niðurstaða hins kærða úrskurðar stjórnar
staðfest.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 24. október 2005 er staðfestur.