Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-02/2006 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá afborgun

Úrskurður

Ár 2006, fimmtudaginn 11. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-2/2006.

Kæruefni

Með kæru dagsettri 17. febrúar 2006 sem barst málskotsnefnd 28. febrúar sl. kærði lánþegi úrskurð stjórnar LÍN frá 15. desember 2005 þar sem beiðni hennar um frestun á fastri afborgun 2004 og 2005 var hafnað á þeim forsendum að umsóknarfrestur og frestur til athugasemda við afgreiðslu sjóðsins í máli kæranda 17. maí 2005 væri löngu liðinn. Með bréfi málskotsnefndar dags. 28. febrúar sl. var stjórn LÍN tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var með bréfi dags. sama dag sent afrit af bréfinu til stjórnar LÍN. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust nefndinni í bréfi dags. 6. mars sl. og var kæranda sent afrit bréfsins með bréfi dags. 7. mars sl. Svarbréf kæranda dags. 16. mars sl. og læknisvottorð dags. 21. febrúar sl. barst nefndinni 21. mars sl.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi fékk námslán vegna kennaranáms í Svíþjóð árið 1993 og hóf að greiða af því 1. mars 1996. Hún sótti um og fékk undanþágu frá afborgunum áranna 2002 og 2003. Kærandi fékk í febrúar 2004 sendan greiðsluseðil að fjárhæð 68.710 krónur vegna fastrar afborgunar með gjalddaga 1. mars 2004. Þrátt fyrir ítrekanir hvorki greiddi kærandi skuld sína né sótti um að fá að fresta henni. Í ágúst sama ár fékk kærandi sendan greiðsluseðil að fjárhæð 20.015 krónur vegna tekjutengdrar afborgunar með gjalddaga 1. september 2004 en þrátt fyrir ítrekanir hafði hún ekki samband við sjóðinn vegna þessa og sendi LÍN því skuld samkvæmt báðum gjalddögum ársins 2004 í lögmannsinnheimtu 8. febrúar 2005. Föst afborgun með gjalddaga 1. mars 2005 var ákvörðuð 70.837 krónur og var þeirri fjárhæð bætt við vanskil kæranda. Með bréfi dags. 12. maí sama ár óskaði kærandi eftir frestun á afborgun námslánsins vegna lágra tekna og veikinda. Þar sem erindinu fylgdu engin gögn hafnaði sjóðurinn málaleitan kæranda í bréfi dags. 17. maí sl. og var kæranda þá jafnframt bent á að teldi hún afgreiðsluna byggða á ófullnægjandi upplýsingum þyrfti hún að senda sjóðnum viðbótargögn og að hún yrði að biðja um úrskurð stjórnar sjóðsins innan þriggja mánaða. Kæranda var síðan ákveðin tekjutengd afborgun 1. september 2005 að fjárhæð 4.524 og var þeirri fjárhæð bætti við vanskil hennar sem til innheimtu voru hjá lögmönnum sjóðsins.

Kærandi óskaði eftir endurupptöku málsins með bréfi dags. 22. nóvember 2005 og fylgdi bréfinu læknisvottorð. Stjórn LÍN féllst að hluta til á erindi kæranda þann 19. desember 2005 og var tekjutengdum afborgunum hennar árin 2004 og 2005 frestað. Hins vegar var kæranda synjað um frestun á fastri afborgun áranna 2004 og 2005 þar sem umsóknarfrestur og frestur til athugasemda við afgreiðslu sjóðsins 17. maí 2005 var liðinn. Kærandi byggir kröfur sínar á því að hún sé sjúklingur og þar af leiðandi hafi hún haft lágar tekjur um langt skeið. Í framlögðu læknisvottorði dags. 11. nóvember 2005 kemur fram að kærandi hafi haft skerta starfsgetu síðastliðin sjö ár vegna lungnasjúkdóms og í læknisvottorði dags. 21. febrúar sl. segir að kærandi hafi verið að mestur óvinnufær síðustu tvö árin vegna langvinnra veikinda. Á árunum 2004 og 2005 hafi hún fengið greiningu á alvarlegum sjúkdómi og ýmis vandamál hafi íþyngt henni. Hún hafi átt í miklum fjárhagserfiðleikum undanfarin ár og meðal annars átt bágt með að borga af íbúðarláni og fengið greiðslustöðvun í eitt ár á húsnæðisláni. Hafi framtaksleysi kæranda til að sinna bréfasendingum til LÍN átt rót sína að rekja til veikinda hennar sem hafi dregið úr henni þrek og mátt. Kærandi bendir á að hún sé nú að reyna að koma skipulagi á fjármál sín og búist hún við að það reynist henni framvegis auðveldara að greiða skuldir sínar þótt heilsan batni ekki.

Af hálfu stjórnar LÍN er byggt á því að umsóknarfrestur og frestur til athugasemda við afgreiðslu sjóðsins 17. maí 2005 hafi verið löngu liðinn þegar athugasemdir kæranda komu fram. Kærandi hafi hvorki greitt né sinnt ítrekunarbréfum vegna greiðslna afborgana vegna ársins 2004 en með bréfi dags. 12. maí 2005 hafi hún óskað eftir frestun á afborgun af námsláni sínu án þess að beiðninni fylgdu nokkur gögn.

Niðurstaða

Samkvæmt ákvæðum 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN og gr. 7.4.3. í úthlutunarreglum sjóðsins ber að sækja um fresti á endurgreiðslum námslána innan 60 daga frá gjalddaga afborgunar. Með vísan til þess sem að framan er rakið um bréfaskriftir kæranda og sjóðsins er ljóst að kærandi hefur ekki gætt þessara lögmæltu fresta. Þá er endurupptökubeiðni kæranda frá 22. nóvember 2005 of seint fram komin en af gögnum málsins verður ráðið að starfsmaður LÍN leiðbeindi henni sérstaklega í bréfi dags. 17. maí 2005 um 3ja mánaða frest til að krefjast úrskurðar stjórnar LÍN. Allt að einu hefur LÍN veitt kæranda frestun á endurgreiðslu tekjutengdra afborgana á árunum 2004 og 2005. Að þessu virtu er fallist á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindum kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda.

Með vísan til þess sem að framan greinir er staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar stjórnar LÍN.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 15. desember 2005 er staðfestur.

Til baka