Úrskurður
Ár 2006, miðvikudaginn 21. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-5/2006.
Kæruefni
Með kæru dags. 28. mars 2006, sem barst málskotsnefnd þann 1.
apríl 2006, kærði kærandi þá ákvörðun stjórnar LÍN sem staðfest var af stjórn
sjóðsins þann 8. maí 2006 að synja henni um undanþágu frá námsframvindureglum
sjóðsins vegna veikinda og erfiðra aðstæðna á heimili kæranda.
Með bréfi
dags. 25. apríl 2006 var stjórn LÍN tilkynnt um fram komna kæru og stjórninni
gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf stjórnar LÍN er dags. 8. maí 2006.
Í því kemur réttilega fram að enginn úrskurður stjórnar LÍN liggi fyrir í
málinu, en í stað þess að krefjast frávísunar málsins frá málskotsnefndinni
úrskurðaði stjórnin í málinu og staðfesti fyrri ákvörðun sjóðsins.
Með
bréfi dags. 9. maí 2006 var kæranda kynnt efni svars stjórnar LÍN og henni
gefinn kostur á að tjá sig um það. Ekkert svar barst frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Stuttu eftir að kærandi hóf nám sitt í snyrtifræði í
Snyrtiskólanum í Kópavogi, var dóttur hennar nauðgað af hópi manna. Afleiðingar
þessa urðu m.a. þær að dóttirin var vistuð á barna- og unglingageðdeild auk þess
sem fjölskyldan þurfti að flytjast búferlum frá Keflavík í Kópavog. Allt þetta
mál hafði mikil áhrif á fjölskylduna og misstu kærandi og eiginmaður hennar
mikið úr námi vegna þessa. Eiginmaður kæranda fékk aukalán vegna þessa en ekki
kærandi.
Af hálfu stjórnar LÍN kemur fram að skv. 1. mgr. 6. gr. laga
nr. 21/1992 um LÍN komi fram að námslán skuli aldrei veitt fyrr en námsmaður
hafi skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur. Þá vísar stjórn LÍN
einnig til 2. mgr. gr. 2.3.2. í úthlutunarreglum sjóðsins en þar kemur fram að
skilyrði þess að námsmaður eigi rétt á auknu svigrúmi við mat á námsframvindu sé
að hann hafi áður skilað fullnægjandi árangri í lánshæfu námi. Þá kemur enn
fremur fram í þeirri grein að námsmaður sem ekki hafi skilað fullnægjandi
námsárangri í lánshæfu námi eigi þó rétt á auknu svigrúmi vegna lánshæfs náms,
ef hann skili fullnægjandi árangri á næsta misseri eftir að hann þurfi á
svigrúminu að halda. Á þetta benti LÍN í afgreiðslu sinni á erindi kæranda.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 skal aldrei veita
námslán fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskilda skólasókn og
námsárangur. Þá kemur fram í 2. mgr. gr. 2.3.2. í úthlutunarreglum LÍN að
skilyrði fyrir því að námsmaður eigi rétt á auknu svigrúmi skv. greininni sé að
hann hafi áður skilað fullnægjandi árangri í lánshæfu námi. Fyrir liggur að
utanaðkomandi ófyrirséðar aðstæður ollu því að kærandi gat á fyrsta námsmisseri
sínu í Snyrtiskólanum í Kópavogi ekki sýnt fullnægjandi árangur skv.
skilgreiningum LÍN. Ekki er að finna heimildir fyrir því í lögum eða
úthlutunarreglum að hægt sé að komast hjá tilvitnaðri lagagrein eða nefndri
grein í úthlutunarreglum nema nemandi sýni fullnægjandi námsárangur á næstu önn
eftir að nám hefst, þ.e. á annarri námsönn. Samkvæmt upplýsingum frá LÍN hefur
kærandi ekki sýnt fullnægjandi námsárangur á vorönn 2006.
Með vísan til
framanritaðs er niðurstaða stjórnar LÍN frá 8. maí 2006 í máli kæranda.
Úrskurðarorð
Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 8. maí 2006 er staðfest.