Úrskurður
Ár 2006, fimmtudaginn 22. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-3/2006.
Kæruefni
Með bréfi dags. 13. mars 2006 sem barst málskotsnefnd 15. sama
mánaðar kærði lánþegi, úrskurð stjórnar LÍN frá 6. mars sl. þar sem samþykkt var
að veita honum undanþágu frá greiðslu námslána árið 2005 en synjað beiðni hans
um undanþágu frá greiðslu námslána árið 2004.
Með bréfi málskotsnefndar
dags. 15. mars sl. var stjórn LÍN tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að tjá
sig um hana. Kæranda var með bréfi dags. sama dag sent afrit af bréfinu til
stjórnar LÍN. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust nefndinni í bréfi dags. 23. mars
sl. og var kæranda sent afrit þeirra með bréfi dags. 27. mars sl. Svarbréf
kæranda dags. 10. apríl sl. barst nefndinni 18. sama mánaðar. Stjórn LÍN var
sent afrit bréfs kæranda með bréfi dags. 28. apríl sl. Vegna mistaka í meðförum
málsins fyrir málskotsnefnd dróst að taka það til úrskurðar.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi sendi stjórn LÍN erindi þann 6. febrúar sl. þar sem
hann óskaði eftir frestun á greiðslu námslána sinna vegna veikinda í kjölfar
vinnuslyss sem hann lenti í þann 30. apríl 2005. Kemur fram í erindi kæranda að
hann hafi vegna slyssins verið launalaus frá september 2005 en síðan þá hafi
hann verið í sjúkraþjálfun. Samkvæmt læknisvottorði Stefáns Dalberg
bæklunarlæknis dags. 3. október 2005 hafði kærandi þá verið óvinnufær sem
sjómaður frá því hann lenti í slysinu og yrði það enn um óákveðinn tíma. Væri
óvíst hvort hann gæti kunnið sem sjómaður í framtíðinni.
Kærandi er í
vanskilum með greiðslur námslána 2004 og 2005 og er ljóst af bréfaskriftum milli
hans og LÍN að hann hefur ekki getað staðið við samninga sína við sjóðinn um
afborganir greindra ára. Eins og áður er komið fram úrskurðaði stjórn LÍN á þann
veg að kæranda var veitt undanþága frá afborgunum ársins 2005 en synjaði kæranda
hins vegar um undanþágu vegna afborgana ársins 2004 með þeim rökum að vanskil
hans vegna þeirra afborgana væru slysinu þann 30. apríl 2005 óviðkomandi. Þá
kemur fram í tölvupósti frá LÍN þann 10. mars sl. að kæranda var veitt undanþága
frá afborgun námslána með gjalddaga 1. mars 2005 með því skilyrði að hann
uppfyllti það skilyrði að tekjur hans árið 2005 væru undir 1.700.000 krónum.
Samkvæmt gögnum málsins var útsvarsstofn kæranda árið 2003 2.001.216 krónur en
árið 2004 2.723.671 krónur og reiknaðist honum því tekjutengd afborgun bæði
árin.
Kærandi byggir kröfur sínar á því að hann hafi vegna slyssins 30.
apríl 2005 verið óvinnufær og launalaus frá því í september 2005 þegar hann hóf
sjúkraþjálfun sem gangi mjög hægt. Um síðustu áramót hafi komið í ljós að hann
er með brjósklos. Af þessum sökum hafi hlaðist upp vanskil víða og væri honum
ókleift að standa við samninga sína. Kærandi telur því að það væri óheiðarlegt
af honum að semja um eitthvað sem fyrirsjáanlegt væri að hann gæti ekki staðið
við með sómasamlegum hætti. Hann eigi ekki til fé til þess að borga umrædd
vanskil og því sé tilgangslaust að veita honum frest á einni greiðslu, skilyrða
aðra en rukka þá þriðju. Ljóst sé að teljist hann ekki geta greitt námslán frá
2005 þá geti hann heldur ekki greitt fyrir árið 2004. Kærandi óskar því eftir
því að honum verði veitt heildarfrestun á námslánum sínum fyriri árin 2004, 2005
og 2006 á grundvelli veikinda hans.
Af hálfu stjórnar LÍN er í hinum
kærða úrskurði vísað til ákvæða greinar 7.4.1. í úthlutunarreglum sjóðsins þar
sem heimild sé veitt til þess að veita undanþágu frá greiðslu fastrar afborgunar
vegna skyndilegra og verulegra breytinga á högum lánþega sem skerðir til muna
ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Sé jafnan miðað við að
fjáhagsörðugleikar viðkomandi hafi staðið í a.m.k. 4 mánuði fyrir greiðsludag.
Uppfylli kærandi því skilyrði greinarinnar að því er varðar vanskil ársins 2005
en vanskil ársins 2004 teljist ekki koma slysinu 30. apríl 2005 við og sé því
hægt að veita kæranda undanþágu vegna vanskila ársins 2005 en ekki 2004. Þá eigi
kærandi rétt á undanþágu frá fastri afborgun með gjalddaga 1. mars sl. ef tekjur
hans árið 2005 eru undir 1.700.000 krónum.
Niðurstaða
Kærandi hefur fengið undanþágu frá greiðslu afborgana vegna
ársins 2005 og 2006. Samkvæmt ákvæðum 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN er
stjórn sjóðsins heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námslána að
hluta eða öllu leyti ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum
skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til
muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Sama regla kemur fram í
grein 7.4.1. í úthlutunarreglum sjóðsins.
Gögn málsins bera með sér að
slys það, sem kærandi varð fyrir, hafði í för með sér miklar breytingar á högum
hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn LÍN ákvað að nýta framangreinda
undanþáguheimild til að veita kæranda undanþágu frá endurgreiðslum á námsláni
sínu árið 2005 vegna þessara afleiðinga slyssins, sem hann varð fyrir á því ári,
en synjaði honum um undanþágu frá endurgreiðslum ársins 2004. Fallist er á það
með stjórn LÍN að vanskil kæranda á greiðslum ársins 2004 verði ekki rakin til
framangreinds slyss sem átti sér stað í apríl 2005. Sú staðreynd breytir ekki
því áliti málskotsnefndar að þegar litið er til málavaxta í heild felist mótsögn
í þeirri niðurstöðu stjórnar LÍN að heimila undanþágu frá endurgreiðslu námslána
á árinu 2005 en synja kæranda um leið um undanþágu frá endurgreiðslu vegna 2004.
Með vísan til framanritaðs er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar
LÍN frá 6. mars 2006 í máli kæranda felld úr gildi.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 6. mars 2006 er felldur úr gildi.