Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-04/2006 - Lánshæfi - lánshæfi náms

Úrskurður

Ár 2006, föstudaginn 30. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-4/2006.

Kæruefni

Með bréfi dags. 20. mars 2006 sem barst málskotsnefnd 7. apríl sl. kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 29. janúar sl. þar sem synjað var beiðni hennar um lán til náms í barokksellóleik.

Með bréfi málskotsnefndar dags. 12. apríl sl. var stjórn LÍN tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var með bréfi dags. sama dag sent afrit af bréfinu til stjórnar LÍN. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust nefndinni í bréfi dags. 27. apríl sl. og var kæranda sent afrit þeirra með bréfi dags. 28. apríl sl. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi hefur lokið 5 ára háskólanámi í klassísku tónlistarnámi í sellóleik við Det Kongelige Danske Musikkonservatorium sem lauk með diploma gráðu vorið 2005. Haustið 2005 hóf kærandi nám í barokksellóleik, Advanced Certificate Studies (ACS), við Konservatoríið í Den Haag. Skólinn býður upp á tvær leiðir til náms í barokktónlist, bachelor-master (BA-MA) annars vegar og Advanced Certificate Studies (ACS) hins vegar. ACS er skipulagt fyrir þá sem lokið hafa BA gráðu í hefðbundnum klassískum hljóðfæraleik en vilja sérhæfa sig með tveggja ára námi í barokkhljóðfæraleik. Stefni nemandi að hefðbundnu MA námi í barokktónlist við skólann er nauðsynlegt að hafa áður lokið BA prófi (sem venjulega tekur fjögur ár) í barokktónlist við sama skóla.

Kærandi bendir á að langflestir nemar í barokkhljóðfæraleik hafi að baki langt og strangt háskólanám í hefðbundnu klassísku tónlistarnámi. Það sama eigi við um kæranda sem, svo sem áður greinir, hafi stundað 5 ára háskólanám og barokknám hennar við Konservatoríið sé eðlilegt framhald af fyrra námi, sérhæfing sem ekki sé hægt að líta á sem nýtt nám. Kærandi leggur fram svar kennslusviðs Háskóla Íslands dags. 15. desember sl við fyrirspurn hennar um skilgreiningu á námsstigi Certificate for Advanced Studies í barokksellóleik við Royal Conservatoire í Hollandi. Í svarinu kemur m.a. fram að haft hafi verið samband við ENIC/NARIC upplýsingaskrifstofu í Hollandi. (Nuffic). Samkvæmt svari Nuffic geti námið talist framhaldsnám á háskólastigi (second cycle) þar sem krafist er Bachelor prófs fyrir inngöngu. Þeir bendi þó á að náminu ljúki ekki með formlegri háskólagráðu, en óski nemendur eftir að útskrifast með gráðu þá hljóti þeir Bachelor gráðu sem tilheyrir grunnnámi í háskóla (first cycle).

Síðan segir í svari kennslusviðs Háskóla Ísland "Í ljósi svars Nuffic álítur kennslusvið Háskóla Íslands ekki óeðlilegt að telja Certificate for Advanced Studies í barokksellóleik sambærilegt viðbótarnámi að loknu fyrsta háskólaprófi við háskóla á Íslandi. Í báðum tilfellum er um að ræða skipulagt nám eftir fyrsta háskólapróf sem ekki leiðir til formlegrar prófgráðu. Viðbótarnám að loknu fyrsta háskólaprófi á Íslandi telst til framhaldsnáms á háskólastigi (second cycle). Að mati kennslusviðs breytir sú staðreynd ekki ofangreindu mati að námsmenn geti valið að útskrifast með aðra Bachelor gráðu að námi loknu. Hér er einungis um mat á námsstigi Certificate for Advanced Studies að ræða, ekki Bachelor gráðunnar." Kærandi vísar einnig til bréfs Jan Kleinbussink, yfirmanns barokkdeildarinnar dags. 15. ágúst 2005 þar sem segir m.a.: "the Advanced Certificate Studies in Early Music has to be considered being postgraduate course programme."

Stjórn LÍN úrskurðaði í máli kæranda 16. september 2005. Með bréfi dags. 2. janúar sl. óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins á grundvelli nýrra gagna. Stjórn LÍN úrskurðaði á ný í málinu 29. janúar sl. Í athugasemdum stjórnar LÍN vegna kærunnar segir m.a. að óski námsmaður eftir að útskrifast með opinbera viðurkennda gráðu í því námi sem kærandi stundar þá sé það bachelorgráða eftir eitt viðbótarár. Stjórnin telur námið vera ótvírætt á grunnháskólastigi og vitnar m.a. í bréf kennslusviðs Háskóla Íslands frá 15. desember sl. Stjórnin bendir einnig á að ACS nám kæranda í barokksellóleik komi ekki til styttingar á mögulegu lánshæfu masternámi kæranda í sellóleik við skólann heldur sé um tveggja ára nám að ræða sem sé á sama skólastigi og hún hafi þegar lokið. Að lokum telur stjórn LÍN að ekki sé hægt að fallast á að nám kæranda falli undir skilgreiningu gr. 2.4.3. í úthlutunarreglum LÍN þar sem fjallað er um stutt eða starfstengt viðbótarháskólanám þar sem þar sé átt við nám til öflunar starfsréttinda og námið skipulagt í eitt til tvö misseri.

Niðurstaða

Kærandi hefur stundað háskólanám í klassísku tónlistarnámi í sellóleik sl. 5 ár og notið aðstoðar LÍN þann tíma á grundvelli gr. 2.4.2 í úthlutunarreglum LÍN. Kærandi fer nú fram á að nám hennar Advanced Certificate Studies verði skilgreint sem nám á framhaldsháskólastigi sbr. gr. 2.4.3. úthlutunarreglna LÍN. Í greininni segir að heimilt sé að veita námsmanni lán umfram 5 ára hámarkið skv. gr. 2.4.2. leggi námsmaður stund á framhaldsháskólanám.

Í 1. gr. l. nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna með síðari breytingum segir m.a: "Sjóðurinn veitir lán til framhaldsnáms við skóla sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis." Ekki verður ákvæðið skilið á annan veg en að bæði sé átt við nám á grunnháskólastigi og framhaldsháskólastigi. Það er óumdeilt að kærandi hefur lokið háskólanámi í hefðbundnum klassískum hljóðfæraleik og að þess er krafist, við inngöngu í Advanced Certificate Studies við Konservatoríið í Den Haag, að nemendur hafi áður lokið háskólanámi.

Í gr. 2.4.3 segir m.a. að með framhaldsháskólanámi sé átt við doktors-eða licentiatnám, meistaranám eða sambærilegt nám að loknu þriggja ára háskólanámi, skv. skipulagi skóla. Þá er tekið fram að til framhaldsháskólanáms geti einnig talist stutt starfstengt viðbótarháskólanám sem ekki lýkur með æðri prófgráðu, t.d. kennslufræði til kennsluréttinda. Að mati málskotsnefndar er í greininni ekki um að ræða tæmandi talningu þeirra tilvika sem undir greinina geta fallið og ber því í máli þessu að líta til almennra lagaskilyrða og sambærilegra tilvika.

Í ljósi þessa er fallist á það með kæranda að viðbótarnám að loknu fyrsta háskólaprófi á Íslandi telst til framhaldsnáms á háskólastigi. Með vísan til framlagðra gagna og tilvitnaðra ákvæða laga og úthlutunarreglna LÍN verður að telja nám kæranda framhaldsnám á háskólastigi og því lánshæft.

Með vísan til framanritaðs er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 29. janúar 2006 í máli kæranda felld úr gildi.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 29. janúar er felldur úr gildi.

Til baka