Úrskurður
Ár 2006, fimmtudaginn 5. október kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-7/2006.
Kæruefni
Kærandi er einn af fjórum ábyrgðarmönnum námsláns X. Með bréfi
dags. 27. desember 2005 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 21. desember
2005, þar sem stjórn sjóðsins ákvað að veita X frest til 30. janúar 2006 til að
leiðrétta tekjuviðmiðun LÍN vegna tekjutengdrar afborgunar, en kærandi hafði
verið krafinn um greiðslu vegna vanskila X. Fjárhæðin sem kærandi var krafinn um
var byggð á tekjuáætlunum skattyfirvalda.
Af ókunnum ástæðum mislagðist
bréf kæranda hjá málskotsnefndinni og hófst því eiginleg meðferð málsins fyrir
nefndinni ekki fyrr en með bréfi nefndarinnar til stjórnar LÍN dags. 1. ágúst
2006 þar sem stjórninni var gefinn kostur á að tjá sig um fram komna kæru. Svar
stjórnar LÍN dags. 28. ágúst 2006 barst nefndinni í faxbréfi sama dag. Með bréfi
nefndarinnar dags. 29. ágúst 2006 var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um svar
stjórnar LÍN. Engin frekari bréf eða gögn hafa borist frá kæranda vegna málsins.
Kærandi óskar eftir að málskotsnefndin svari þeim spurningum hvort það
standist lög og reglugerðir að LÍN krefji ábyrgðarmenn um greiðslur byggðar á
áætlunum skattyfirvalda á tekjum lántaka fremur en tekjum ábyrgðarmannsins. Í
öðru lagi er krafist svara við því hvort það standist lög og reglugerðir að LÍN
krefji um tekjutengda afborgun miðað við áætlaðar tekjur sem séu langt umfram
raunverulegar tekjur viðkomandi lántaka.
Málsatvik og ágreiningsefni
Svo sem að framan er rakið er kærandi einn af fjórum
ábyrgðarmönnum námsláns X. Þann 21. desember 2005 ákvað stjórn sjóðsins að veita
frest til 30. janúar 2006 til að leiðrétta tekjuviðmiðun LÍN vegna tekjutengdrar
afborgunar, en kærandi hafði verið krafinn um greiðslu vegna vanskila X á þeirri
afborgun. Engar upplýsingar eða leiðréttingar bárust LÍN innan nefndra
tímafresta og var því hin ógreidda afborgun send til lögfræðilegrar
innheimtumeðferðar þann 1. júní sl.
Stjórn LÍN byggði niðurstöðu sína á
11. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN, þar sem fram kemur heimild til að láta
endurútreikna tekjutengda afborgun sé hún byggð á áætluðum tekjum en ekki
raunverulegum.
Niðurstaða
Ekki er fallist á það með kæranda að miða eigi við tekjur
viðkomandi ábyrgðarmanns þegar tekjutengd afborgun af láni lántaka er reiknuð
út. Kærandi er ábyrgðarmaður á þeim skuldbindingum sem X tókst á hendur með töku
lánsins. Bæði lánshæfni viðkomandi náms og afborgunarkjör á teknum námslánum eru
miðuð við lántakann sjálfan en ekki ábyrgðarmenn á lánunum.
Í 11. gr.
laga um LÍN segir m.a.:
"Lánþegi á rétt á endurútreikningi árlegrar
viðbótargreiðslu sé hún byggð á áætluðum tekjum. Hann skal þá sækja um
endurútreikninginn eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar og leggja
fyrir stjórn sjóðsins bestu fáanlegar upplýsingar um tekjurnar.
Endurútreikningur skv. 1. mgr. á árlegri viðbótargreiðslu skal gerður
þegar sjóðnum hafa borist staðfestar upplýsingar um tekjurnar. Komi þá í ljós að
tekjustofn hafi verið of hátt áætlaður eða oftalinn og lánþegi því innt af hendi
of háa greiðslu skal honum endurgreidd hin ofgreidda fjárhæð með almennum vöxtum
óverðtryggðra bankalána."
Fyrir liggur að kæranda var veitt
lögbundin heimild til að koma réttum upplýsingum til LÍN vegna útreiknings á
tekjutengdri afborgun. Engar nýjar upplýsingar bárust stjórn LÍN og hlýtur
sjóðurinn því að verða að byggja útreikning sinn á fyrirliggjandi gögnum frá
skattyfirvöldum. Um önnur gögn er ekki að ræða.
Með vísan til
framanritaðs er hinn kærði úrskurður staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 21. desember 2005 í máli kæranda er staðfestur.