Úrskurður
Ár 2006, föstudaginn 27. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-9/2006.
Kæruefni
Með bréfi sem barst málskotsnefnd 9. júlí sl. kærði kærandi
úrskurð stjórnar LÍN frá 19. desember sl. þar sem synjað var beiðni kæranda um
endurupptöku á úrskurði stjórnar LÍN frá 29. október 2004.
Með bréfi
málskotsnefndar dags. 20. júlí sl. var stjórn LÍN tilkynnt um kæruna og gefinn
kostur á að tjá sig um hana. Umboðsmanni kæranda var með bréfi dags. sama dag
sent afrit af bréfinu til stjórnar LÍN. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust
nefndinni í bréfi dags. 25. júlí sl. og var umboðsmanni kæranda sent afrit þess
með bréfi dags. 9. ágúst sl. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfi
dags. 22.ágúst sl.
Málsatvik og ágreiningsefni
Rétt þykir að fram komi að umboðsmaður kæranda sendi frumrit
kærunnar til skrifstofu LÍN sem móttók kæruna þann 21. mars sl. Eftir að
umboðsmaðurinn fór að grennslast fyrir um afdrif kærunnar kom í ljós hvernig
málum var háttað og var kæran send málskotsnefnd. Að mati málskotsnefndar er hér
um að ræða mistök sem ekki valda frávísun málsins.
Með úrskurði
uppkveðnum þann 29. október 2004 synjaði stjórn LÍN kæranda um undanþágu frá
endurgreiðslum árin 2001-2004 vegna veikinda og náms. Með bréfi dags. 17.
október 2005 óskaði umboðsmaður kærandi eftir endurupptöku. Stjórn LÍN synjaði
kæranda um endurupptöku málsins með nýjum úrskurði dags. 19. desember sl. með
vísan til þess að beiðni um endurupptöku verði að koma fram innan 3ja mánaða frá
dagsetningu hins kærða úrskurðar og að sá frestur hafi verið löngu liðinn.
Í kærunni til málskotsnefndar heldur umboðsmaður kæranda því fram að af
hálfu LÍN hafi henni hvorki munnlega né skriflega verið bent á þann möguleika að
geta óskað eftir endurupptöku né að kæra mætti úrskurð stjórnar LÍN til
málskotsnefndar.
Niðurstaða
Í bréfi stjórnar LÍN til umboðsmanns kæranda dags. 29. október
2004 þar sem tilkynnt er um úrskurð stjórnarinnar dags. sama dag er með skýrum
hætti vakin athygli á möguleikum kæranda að óska endurupptöku málsins með vísan
til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er einnig vakin athygli á þeim
möguleika að kæra úrskurð stjórnar LÍN til málskotsnefndar sbr. 5. gr. laga nr.
21/1992 um LÍN. Í báðum tilvikum er þess getið að um sé að ræða 3ja mánaða
kærufrest. Fyrir liggur að kærufrestur 24. gr. stjórnsýslulaga var löngu liðinn
þegar kærandi gerði kröfu um endurupptöku.
Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr.
37/1993 segir m.a.:
"Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni
frá, nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar."
Málskotsnefnd telur ekkert það hafa komið fram í röksemdum kæranda sem
veitir tilefni til undanþágu á grundvelli tilvitnaðra ákvæða stjórnsýslulaga.
Þess heldur er talið að stjórn LÍN hafi sinnt stjórnvaldslegri
leiðbeiningarskyldu sinni á fullnægjandi hátt.
Með vísan til
framanritaðs er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 19. desember
sl. staðfest.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 19. desember sl. er staðfestur.