Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-10/2006 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá afborgun

Úrskurður

Ár 2006, föstudaginn 27. október kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-10/2006.

Kæruefni

Með kæru dags. 30. júlí 2006 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 24. júlí 2006. Í nefndum úrskurði var fallist á undanþágubeiðni kæranda um afborganir af námslánum á árinu 2006 en staðfest niðurfelling á undanþágu vegna ársins 2005, þar sem í ljós kom eftir úrvinnslu upplýsinga frá ríkisskattstjóra að tekjur kæranda á árinu 2004 voru umfram það sem áður hafði verið talið og því ekki efni til að veita undanþágu frá afborgunum á árinu 2005.

Af gögnum og bréfum kæranda má ráða að hann telji að við mat á því hvort veita eigi undanþágu eigi að líta til kostnaðar sem hann ber vegna veikinda hans en ekki eingögnu tekna hans.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er hreyfihamlaður MS sjúklingur og býr í Danmörku. Hann þarf að bera ýmsan kostnað vegna hreyfihömlunar sinnar t.a.m. þarf hann að reka bifreið o.fl. Kæranda var veitt undanþága frá greiðslu afborgana af námslánum hans á árinu 2006 þar sem árstekjur hans á árunum 2005 og 2006 væru lægri en IKR 1.700.000. Áður hafði kæranda verið veitt undanþága af sömu ástæðum vegna afborgana á árinu 2005, en síðar kom í ljós að tekjur hans á árinu 2004 voru hærri en áður hafði verið talið og því bæri honum samkvæmt reglum LÍN að greiða afborganir af lánunum. Var því undanþágan afturkölluð.

Stjórn LÍN fellst ekki á aðra skilgreiningu á skattskyldum tekjum en þá sem viðhöfð er hjá íslenskum og dönskum skattyfirvöldum. Engin heimild sé til lækkunar tekjustofns til viðmiðunar við ákvörðun á tekjutengdri afborgun af námslánum vegna lyfjakostnaðar eða rekstrarkostnaðar bifreiðar, umfram það sem skattyfirvöld gera í útreikningum sínum. Kærandi gerir aftur kröfu til þess að litið sé til kostnaðar þess sem beinlínis megi tengja við sjúkdóm hans þegar tekjutengda afborgunin er ákveðin.

Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni voru kæranda þann 9. október 2006 sendar fyrirspurnir um beinan (útlagðan) kostnað hans á árinu 2004 sem alfarið og eingöngu mætti rekja til fötlunar hans. Þá var hann spurður að því að hvaða leyti bifreið væri honum nauðsynleg í tengslum við fötlun hans og hvaða afslátt hann fengi af kostnaði við bifreiðina vegna fötlunarinnar. Sérstaklega var óskað eftir að gögn fylgdu svari kæranda. Svar barst frá kæranda dags. 9. október 2006 þar sem hann listar upp ýmsan kostnað sem hann telur sig þurfa að bera vegna fötlunar sinnar. Þá útskýrði hann þörf sína fyrir bifreiðina og tók fram að þungaskattur væri felldur niður af henni vegna fötlunarinnar. Engin gögn fylgdu svari kæranda.

Niðurstaða

Í máli þessu er óumdeilt að tekjur kæranda á árinu 2004 voru hærri en talið hafði verið þegar undanþága frá greiðslu afborgana af námsláni var veitt og því var undanþáguheimildin afturkölluð. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að stjórn LÍN hafi með þeirri ákvörðun sinni brotið lög eða reglur LÍN, né jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins. Þá hefur kærandi heldur ekki sýnt fram á að miða eigi við annað við mat á undanþágubeiðni hans en raunverulegum tekjum hans samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda. Þeir kostnaðarliðir sem kærandi listaði upp í svari sínu til nefndarinnar þann 9. október sl. voru ekki studdir gögnum auk þess sem ekki var að sjá að þeir liðir stæðu í beinum og órjúfanlegum tengslum við fötlun kæranda. Af þessum sökum ber að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 24. júlí 2006 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka