Úrskurður
Ár 2006, föstudaginn 27. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-11/2006:
Kæruefni
Með ódagsettu bréfi sem móttekið var 7. september sl. kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 1. september sl. þar sem synjað var beiðni hans um námslán. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 8. september sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar komu fram í bréfi dags. 18. september sl.og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 19. september sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Kærandi setti fram frekari athugasemdir sínar í ódagsettu bréfi sem barst málskotsnefnd 2. október sl.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi óskaði eftir því við Lánasjóð íslenskra námsmanna að
honum yrði veitt námslán vegna náms hans í viðskiptafræði við Háskólann í
Reykjavík. Kærandi hefur verið búsettur í Japan.
Kærandi véfengir ekki
að hann uppfylli ekki ákvæði greinar 1.1. í úthlutunarreglum LÍN en byggir kröfu
sína um námslán á því að þótt hann hafi verið búsettur erlendis eigi hann ekki
að missa sjálfsögð mannréttindi eins og að fá fyrirgreiðslu frá opinberum sjóði
til þess að geta stunda nám á Íslandi. Sé það skoðun hans að allir íslenskir
ríkisborgarar eigi að hafa sama rétt án tillits til búsetu. Þá tekur hann fram
að niðurstaða stjórnar LÍN sé einkar ósanngjörn með vísan til þess að hann hafi
unnið að útflutningsmálum Íslands allan þann tíma sem hann var búsettur
erlendis. Telur kærandi jafnframt að áðurnefnd ákvæði úthlutunarreglna LÍN
brjóti í bága við mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Byggir kærandi á því að
ákvæði 13. gr. laga nr. 21/1992 eigi aðeins við um erlenda ríkisborgara og eigi
að tryggja þeim sambærileg réttindi og íslenskir ríkisborgarar njóta í þeim
löndum sem viðkomandi erlendir ríkisborgarar koma frá.
Stjórn LÍN byggir
synjun sína á því að kærandi hafi hvorki átt lögheimili á Íslandi sl. 2 ár né
samtals í 3 ár á síðustu 10 árum, sbr. ákvæði 6. mgr. greinar 1.1. í
úthlutunarreglum LÍN sem byggi á 4. mgr. 13. gr. laga um sjóðinn. Ákvæðið sé
fortakslaust og engin heimild sé til að veita undanþágu frá settum skilyrðum.
Niðurstaða
Í gr. 1.1. í úthlutunarreglum LÍN er mælt fyrir um almenn
skilyrði fyrir lánshæfi. Þar segir í 6. mgr.:
"Skilyrði til aðstoðar
frá sjóðnum er að viðkomandi sé fjárráða og hafi átt lögheimili á Íslandi í tvö
ár samfellt fyrir upphaf þess tímabils sem sótt er um námslán vegna eða átt
lögheimili hér á landi í þrjú ár af síðustu tíu árum fyrir upphaf
tímabilsins."
Í 4. mgr. 13. gr. laga um LÍN nr. 21/1992 segir að það
sé skilyrði fyrir lánveitingu frá sjóðnum að viðkomandi hafi haft fasta búsetu á
Íslandi í tvö ár samfellt eða haft fasta búsetu hér á landi í þrjú ár af síðustu
tíu árum fyrir upphaf þess tímabils sem sótt er um lán vegna. Í áliti
menntamálanefndar Alþingis kemur fram að lagaákvæðið eigi við um lánþega, hvort
sem þeir eru íslenskir eða ríkisborgarar annars ríkis á Evrópska
efnahagssvæðinu. Þá segir jafnframt í nefndarálitinu að tilgangur lagaákvæðisins
sé að samræma rétt íslenskra ríkisborgara og íbúa annarra ríkja Evrópska
efnahagssvæðisins.
Fram er komið og óumdeilt að kærandi uppfyllir ekki
ofangreind skilyrði laga og reglna um LÍN um fasta búsetu hér á landi á tilteknu
tímabili. Hvorki í úthlutunarreglum LÍN né lögum um LÍN nr. 21/1992 er gert ráð
fyrir því að undanþágur séu veittar frá þessum almennu skilyrðum. Ekki verður
séð að framangreind ákvæði brjóti í báða við mannréttindaákvæði
stjórnarskrárinnar. Með vísan til framanritaðs er framangreindur úrskurður
stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 1. september 2006 í máli kæranda er staðfestur.