Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-12/2006 - Skilyrði lánveitingar - fylgiskjöl vegna umsóknar bárust of seint

Úrskurður

Ár 2006, föstudaginn 27. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-12/2006.

Kæruefni

Með tölvubréfi til LÍN dags. 25. ágúst 2006 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 22. júní sl. þar sem stjórn LÍN synjaði kæranda um námslán vegna skólaársins 2004-2005 þar sem gögn um námsárangur o.fl. höfðu ekki borist LÍN fyrir 1. febrúar 2006 er lánveitingum vegna ársins 2004-2005 lauk.

Stjórn LÍN framsendi málskotsnefndinni framangreinda kæru með bréfi dags. 5. september 2006 þar sem stjórn sjóðsins hafði á fundi sínum þann 31. ágúst 2006 komist að þeirri niðurstöðu að vísa ætti kærunni beint til nefndarinnar. Með bréfi dags. 11. september 2006 var stjórn LÍN gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna kærunnar. Svarbréf LÍN er dags. 18. september 2006. Afrit þess var sent kæranda með bréfi dags. 19. september 2006. Kærandi sendi viðbótarupplýsingar og sjónarmið í ódagsettu bréfi sem barst málskotsnefndinni þann 3. október 2006.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi sótti um námslán fyrir allt skólaárið 2004-2005 eftir námshlé. Fyrir þann tíma hafði kærandi síðast fengið námslán á haustönn 2002. Eftir að LÍN móttók umsókn kæranda breytti kærandi umsókninni og óskaði einungis eftir láni fyrir vorönn 2005. Þann 31. maí 2005 móttók síðan LÍN umsókn frá kæranda um sumarlán vegna 2005 til viðbótar vorláni. Stuttu áður en sú umsókn barst sjóðnum hafði kærandi fengið sent skuldabréf til undirritunar vegna væntanlegs námsláns. Þann 1. febrúar 2006, þegar lánveitingum vegna skólaársins 2004-2005 lauk, höfðu sjóðnum hvorki borist nauðsynleg gögn um námsárangur kæranda né undirritað skuldabréf sem er forsenda útborgunar lánsins. Af þessum sökum var umsókn kæranda um námslán vegna skólaársins 2004-2005 felld úr gildi. Stjórn LÍN vísar til þess að samkvæmt gr. 5.2.1. í þágildandi úthlutunarreglum LÍN vegna viðkomandi skólaárs skyldi lánveitingum vegna námsársins 2004-2005 lokið fyrir 1. febrúar 2006 og eftir það væru ekki afgreidd lán vegna námsársins. Stjórn LÍN bendir enn fremur á að kærandi hafi aldrei skilað inn nefndu skuldabréfi vegna námslánsins og því hafi henni mátt vera ljóst að útilokað væri að hún fengi útborgað námslán, þó upplýsingar um námsárangur hefðu borist á réttum tíma.

Kærandi byggir á því að reglan í gr. 5.2.1. brjóti í eðli sínu meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Það sem máli skipti sé að hún hafi í raun skilað fullnægjandi námsárangri, þó upplýsingar um það hafi borist LÍN of seint. Kærandi telur að hægt væri að ná markmiði stjórnar LÍN með vægara móti en því að fella niður umsókn hennar um lán á árinu 2004-2005.

Kærandi telur enn fremur að andmælaréttur hafi verið brotið á henni með því að fella niður umsókn hennar um námslán vegna skólaársins 2004-2005 þann 1. febrúar 2006. Telur kærandi að hún hefði átt að fá tilkynningu um að þetta stæði til áður en ákvörðunin var tekin.

Kærandi viðurkennir að hafa gleymt að skila inn skuldabréfinu til LÍN vegna anna í námi. Telur hún að skort hafi á leiðbeiningarskyldu LÍN að hún skyldi ekki vera sérstaklega minnt á að skila inn skuldabréfinu þegar hún tilkynnti LÍN í nóvember 2005 að einkunnin væri að koma til sjóðsins.

Niðurstaða

Úthlutunarreglur LÍN hafa að geyma reglur þær sem gilda um veitingu námslána, endurgreiðslu þeirra o.fl. Reglurnar eru gegnsæjar og gilda jafnt fyrir alla sem um lán sækja hvað tímafresti, gögn sem skila þarf o.fl. varðar. Kærandi fór í engu eftir reglum sjóðsins og gat því ekki vænst þess að hljóta afgreiðslu umsóknar sinnar um námslán fyrir skólaárið 2004-2005. Með því að fullnægjandi gögn höfðu ekki borist sjóðnum þann 1. febrúar 2006 var umsókn hennar um námslán vegna skólaársins 2004-2005 felld niður, svo sem gr. 5.2.1. í úthlutunarreglum LÍN býður. Að áliti málskotsnefndarinnar fela hvorki ákvæðin í gr. 5.2.1. í úthlutunarreglum LÍN né hin kærða niðurstaða stjórnar LÍN í sér brot á meðalhófsreglu.

Þá var að áliti málskotsnefndar engin þörf á að veita kæranda sérstakan andmælarétt áður en framangreind ákvörðun var tekin. Kæranda mátti vera ljóst af lestri úthlutunarreglnanna að þessa væri að vænta.

Ekki er fallist á það með kæranda að LÍN hafi brotið leiðbeiningarreglu stjórnvalda með því að minna kæranda ekki sérstaklega á að skila inn skuldabréfinu á tilsettum tíma. Leiðbeiningarskyldureglum stjórnsýsluréttarins ekki ætlað að taka til almenns eftirlits með því að þeir sem eiga samskipti við stjórnsýslustofnanir fari í raun eftir leiðbeiningum þeim sem þeir þegar hafa fengið.

Með vísan til framanritaðs verður úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 22. júní 2006 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka