Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-14/2006 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá afborgun

Úrskurður

Ár 2006, fimmtudaginn 16. nóvember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-14/2006:

Kæruefni

Með bréfi dagsettu 20. september 2006 sem móttekið var 26. sama mánaðar var í nafni kæranda kærður úrskurður stjórnar LÍN frá 31. ágúst sl. þar sem synjað var beiðni um að kæranda yrði veitt undanþágu frá greiðslu námslána. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 26. september sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar komu fram í bréfi dags. 3. október sl.og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 5. otkóber sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir voru gerðar af hálfu kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Með bréfi dags. 13. júlí sl. óskaði félagsráðgjafi eftir því við stjórn LÍN að gjaldfallnar afborganir kæranda af námsláni hans yrðu felldar niður þar sem hann ætti enga möguleika á greiðslu þess vegna 75% örorku sinnar af völdum alvarlegs geðsjúkdóms og fjárhagsörðugleika. Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda með vísan til þess að tekjur hans á árunum 2004 og 2005 hefðu verið yfir tekjumörkum. Eins og áður greinir var úrskurður stjórnar LÍN kærður í bréfi dags. 20. september sl.

Af hálfu kæranda er á því byggt að hann geti engan veginn greitt gjaldfallin námslán vegna alvarlegs geðsjúkdóms hans og mikilla fjárhagserfiðleika sem rekja megi til sjúkdóms hans og áfengisvanda. Undanfarin átta ár hafi hann ekki stundað vinnu á almennum vinnumarkaði en hann sé mjög skuldugur. Nemi greiðslur kæranda 49.100 krónum mánaðarlega. Hins vegar nemi tekjur hans frá Tryggingastofnun ríkisins og úr lífeyrissjóðum nettó 89.769 krónum á mánuði auk launatekna frá Blindravinnustofunni að fjárhæð 18.484 krónur en sú upphæð fari beint í að greiða uppsöfnuð félagsgjöld hjá Oddfellowreglunni og yfirdrátt hjá Glitni hf. Þá er tiltekið að vanskilaskuldir kæranda séu yfirdráttur hjá SPRON að fjárhæð 350.000 krónur, gjaldfallnar afborganir hjá LÍN að fjárhæð 143.370 krónur auk skuldar vegna ökusektar að fjárhæð 152.517 krónur. Kærandi hafi steypt sér í skuldir í geðhæð vegna sjúkdóms síns og hafi neysla hans þá farið langt fram úr greiðslugetu. Kærandi hafi nú farið fram á samvinnu við SPRON um að hann fái ekki frekari fyrirgreiðslu hjá sparisjóðnum í því augnamiði að koma í veg fyrir frekari skuldasöfnun og þá hafi hann lagt inn kreditkort sitt. Bent er á að kæranda sé ómögulegt að standa í skilum og valdi það honum miklum kvíða og þunglyndi.

Stjórn LÍN byggir synjun sína á því að kærandi hafi hvorki átt rétt á undanþágu vegna skyndilegra og verulegra breytinga á högum hans á grundvelli ákvæða greinar greinar 7.4.1. í úthlutunarreglum LÍN né vegna lágra tekna á grundvelli greinar 7.4.2. Bent er á að kærandi hafi sótt um undanþágu árin 2005 og 2006 á grundvelli lágra tekna eftir að hafa undirritað yfirlýsingu um að tekjur hans á undangengnu almanaksári hefðu verið lægri en 1.700.000 krónur. Fyrri yfirlýsingin hafi verið undirrituð 14. apríl 2005 en tekjur kæranda á árinu 2004 hafi síðar reynst nema 2.341.181 krónum. Síðari yfirlýsingin hafi verið undirrituð 4. apríl 2006 en nú hafi komið í ljós að tekjur kæranda á árinu 2005 námu 1.906.798 krónum. Þannig hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði framangreindra ákvæða úthlutunarreglnanna og bæði árin hafi honum reiknast viðbótargreiðsla samkvæmt almennum reglum sjóðsins. Þá beri gögn málsins ekki með sér að skyndilegar og verulegar breytingar hafi orðið á högum hans á þessum tíma sem skert hafi möguleika hans til að afla tekna milli áranna 2004 og 2005 annars vegar en milli áranna 2005 og 2006 hins vegar.

Niðurstaða

Samkvæmt grein 7.4.1. í úthlutunarreglum LÍN er sjóðnum heimilt að veita lánþega undanþágu frá endurgreiðslu ef skyndilegar og verulegar breytingar hafa orðið á högum hans milli ára, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna, og útsvarsstofn vegna tekna á fyrra ári gefur ekki rétta mynd af fjárhag hans á endurgreiðsluári. Fram er komið að kærandi er 75% öryrki vegna alvarlegs geðsjúkdóms og hefur ekki stundað vinnu á almennum vinnumarkaði vegna sjúkdómsins og áfengisvanda síns en hefur undanfarna mánuði stundað 30% vinnu hjá Blindravinnustofunni. Af þessu og gögnum málsins verður ekki séð að skyndilegar og verulegar breytingar hafi orðið á högum kæranda á þessum tíma sem skert hafi til muna möguleika hans til að afla tekna, þ.e. annars vegar milli áranna 2004 og 2005 og hins vegar milli áranna 2005 og 2006. Skilyrði greinar 7.4.1. í úthlutunarreglum LÍN fyrir undanþágu eru því ekki uppfyllt.

Í grein 7.4.2. í úthlutunarreglum LÍN segir:
"Námsmaður sem hefur haft svo lágar tekjur á fyrra ári að honum reiknast ekki viðbótargreiðsla og fjárhagur hans hefur ekki batnað á endurgreiðsluárinu, getur sótt um undanþágu frá fastri ársgreiðslu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda þessum örðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans."

Fram er komið að tekjur kæranda árin 2004 og 2005 voru yfir viðmiðunarmörkum LÍN, sem eru 1.700.000 króna árstekjur, en tekjur hans námu 2.341.181 krónum á árinu 2004 og 1.906.798 krónum á árinu 2005. Reiknast kæranda því viðbótargreiðsla bæði árin 2005 og 2006 og eru skilyrði fyrir undanþágu samkvæmt fyrrgreindu ákvæði úthlutunarreglnanna því ekki uppfyllt. Framangreind ákvæði úthlutunarreglna LÍN eru í samræmi við ákvæði 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN nr. 21/1992. Engar heimildir eru því samkvæmt lögum og reglum LÍN til að heimila undanþágu frá endurgreiðslu í máli þessu. Með vísan til framanritaðs er framangreindur úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 31. ágúst 2006 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka