Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-13/2006 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá afborgun

Úrskurður

Ár 2006, fimmtudaginn 23. nóvember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-13/2006:

Kæruefni

Með ódagsettu bréfi sem móttekið var 26. september 2006 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 23. júní sl. þar sem synjað var beiðni um að kæranda yrði veitt undanþágu frá greiðslu námslána. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 25. september sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar komu fram í bréfi dags. 3. október sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 5. otkóber sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 18. október sl.

Málsatvik og ágreiningsefni

Með bréfi dags. 1. maí sl. óskaði kærandi eftir því við stjórn LÍN að fá undanþágu frá greiðslu fastrar afborgunar ársins 2006. Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda með vísan til þess að tekjur hennar á árinu 2005 hefðu verið langt yfir viðmiðunarmörkum sjóðsins og að engar þær breytingar hefðu orðið á hennar aðstæðum milli ára sem heimiluðu undanþágu.

Af hálfu kæranda er á því byggt að aðstæður hennar hafi breyst mjög hratt síðastliðin 2-3 ár til hins verra. Kærandi kveðst hafa lent í alvarlegu bílslysi sem hafi leitt til þess að heilsu hennar hafi hrakað verulega og á árinu 2004 hafi læknir hennar fyrirskipað veikindaleyfi. Haustið 2004 hafi henni verið sagt upp störfum sem sjúkraliði og hafi hún þurft að höfða dómsmál til að fá laun sín í veikindaleyfi greidd. Bæturnar hafi verið greiddar á árinu 2005 og gefi það óraunhæfa mynd af tekjum þess árs. Þessi röskun á högum kæranda hafi leitt til þess að hún var atvinnulaus í marga mánuði, þá neyddist kærandi til að selja íbúð sína og varð síðan gjaldþrota.

Kærandi er í dag 75% öryrki en er í 50% starfi á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Þá gerir kærandi sundurliðaða grein fyrir að ráðstöfunartekjur hennar nemi 175.000 krónum á mánuði og fastar mánaðargreiðslur nemi um 130.000 krónum og er þá hvorki tekið tillit til fastra né tekjutengdra afborgana til LÍN en þær nemi um 15.000 krónum á mánuði. Af mismuninum þurfi hún að greiða fyrir mat, aðrar nauðsynjar og óvænt útgjöld.

Stjórn LÍN byggir synjun sína á því að kærandi hafi hvorki átt rétt á undanþágu vegna skyndilegra og verulegra breytinga á högum hennar á grundvelli ákvæða greinar greinar 7.4.1. í úthlutunarreglum LÍN né vegna lágra tekna á grundvelli greinar 7.4.2. Tekjur kæranda árið 2005 voru 3.116.181 krónur en viðmiðunarmörk sjóðsins eru 1.700.000 krónur. Þannig hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði framangreindra ákvæða úthlutunarreglnanna. Þá beri gögn málsins ekki með sér að skyndilegar og verulegar breytingar hafi orðið á högum kæranda á milli áranna 2005 og 2006.

Stjórn LÍN bendir á að kærandi hafi fengið undanþágu frá afborgunum námslána árið 2005 á þeirri forsendu að skyndilegar og verulegar breytingar hefðu orðið á högum hennar milli áranna 2004 og 2005 samkvæmt framlögðum læknisvottorðum.

Niðurstaða

Samkvæmt grein 7.4.1. í úthlutunarreglum LÍN er sjóðnum heimilt að veita lánþega undanþágu frá endurgreiðslu ef skyndilegar og verulegar breytingar hafa orðið á högum hans milli ára, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna, og útsvarsstofn vegna tekna á fyrra ári gefur ekki rétta mynd af fjárhag hans á endurgreiðsluári.

Kærandi er í dag 75% öryrki vegna afleiðinga bílslyss á árinu 1990 en hefur undanfarna mánuði stundað 50% vinnu hjá Landspítala háskólasjúkrahúsi. Af þessu og gögnum málsins verður ekki séð að skyndilegar og verulegar breytingar hafi orðið á högum kæranda á þessum tíma sem skert hafi til muna möguleika hennar til að afla tekna milli áranna 2005 og 2006. Skilyrði greinar 7.4.1. í úthlutunarreglum LÍN fyrir undanþágu eru því ekki uppfyllt.

Í grein 7.4.2. í úthlutunarreglum LÍN segir:

"Námsmaður sem hefur haft svo lágar tekjur á fyrra ári að honum reiknast ekki viðbótargreiðsla og fjárhagur hans hefur ekki batnað á endurgreiðsluárinu, getur sótt um undanþágu frá fastri ársgreiðslu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda þessum örðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans."

Fram er komið að tekjur kæranda árið 2005 voru yfir viðmiðunarmörkum LÍN, sem eru 1.700.000 króna árstekjur, en tekjur hennar námu 3.116.181 krónum á árinu 2005. Reiknast kæranda því viðbótargreiðsla á árinu 2006 og eru skilyrði fyrir undanþágu samkvæmt fyrrgreindu ákvæði úthlutunarreglnanna því ekki uppfyllt. Framangreind ákvæði úthlutunarreglna LÍN eru í samræmi við ákvæði 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN nr. 21/1992. Engar heimildir eru því samkvæmt lögum og reglum LÍN til að heimila undanþágu frá endurgreiðslu í máli þessu. Með vísan til framanritaðs er framangreindur úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 23. júní 2006 í máli kæranda er staðfestur. 

Til baka