Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-01/2007 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá afborgun

Úrskurður

Ár 2007, fimmtudaginn 22. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-01/2007.

Kæruefni

Með bréfi dags. 3. janúar sl. kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 6. október sl. þar sem synjað var beiðni kæranda um undanþágu frá greiðslu afborgunar námslána.

Með bréfi málskotsnefndar dags. 10. janúar sl. var stjórn LÍN tilkynnt um kæruna og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var með bréfi dags. sama dag sent afrit af bréfinu til stjórnar LÍN. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust nefndinni í bréfi dags. 17. janúar sl. og var kæranda sent afrit þeirra með bréfi dags. 18. janúar sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir voru gerðar af hálfu kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi sem stundar BA nám við guðfræðideild Háskóla Íslands fór þess á leit við LÍN með bréfi dags. 21. september sl. að fá undanþágu frá afborgunum námslána á árinu 2006 vegna erfiðrar fjárhagsstöðu. Var þar bæði um að ræða tekjutengda og fasta afborgun námslána kæranda. Með úrskurði uppkveðnum 6. október sl. synjaði stjórn LÍN beiðni kæranda um undanþágu frá afborgun ársins 2006 með vísan til þess að kærandi hafði hvorki sýnt fram á lánshæfan námsárangur skólaárið 2005-06 né að tekjur hennar árið 2005 væru undir viðmiðunarmörkum sjóðsins.

Eftir að stjórnin hafði kveðið upp nefndan úrskurð sendi kærandi LÍN bréf dags. 15. nóvember sl. þar sem fram komu staðfestar upplýsingar um tekjur hennar á árinu 2005 sem voru undir viðmiðunarmörkum LÍN. Með vísan til framlagðra upplýsinga kæranda var tekjutengd afborgun kæranda með gjalddaga 1. september sl. felld niður sbr. bréf LÍN til kæranda dags. 23. nóvember sl.

Hins vegar var úrskurðurinn óbreyttur hvað varðar föstu afborgunina með gjalddaga 1. mars sl. þar sem gögn frá kæranda sýndu fram á að námsárangur hennar var ólánshæfur bæði vegna náms á haustönn 2005 og vorönn 2006.

Niðurstaða

Samkvæmt gr. 7.4.1 í úthlutunarreglum LÍN er heimilt að veita undanþágu frá greiðslu námslána, m.a. vegna lánshæfs náms að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skilyrðin vegna undanþágu á greiðslu fastrar afborgunar ársins 2006 eru að lánshæft nám sé stundað á skólaárinu 2005-2006 og að tekjur ársins 2005 séu lægri en 1.700.000 kr. Uppfylla þarf bæði skilyrðin.

Fyrir liggur að námsárangur kæranda á skólaárinu 2005-2006 er ófullnægjandi hvað varðar lánshæfi. Námsmaður sem stundar BA nám í guðfræði við Háskóls Íslands þarf að ljúka 15 einingum á misseri til að eiga rétt á 100% láni, 11 einingar veita 75% lán. Samkvæmt upplýsingum Háskóla Íslands lauk kærandi 8 einingum á haustmisseri 2005 og 9 einingum á vormisseri 2006. Úrskurður stjórnar LÍN er því í samræmi við úthlutunarreglur sjóðsins.

Með vísan til framanritaðs er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 6. október sl. staðfest.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 6. október sl. er staðfestur.

Til baka