Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-15/2006 - Umsóknarfrestur og útborgun - varðar útborgun láns

Úrskurður

 

Ár 2007, fimmtudaginn 29. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-15/2006.

 

Kæruefni

 

Með bréfi dags. 20. nóvember 2006 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN 6. október 2006 í máli kæranda þar sem stjórnin synjaði því að kæranda bæri bætur frá LÍN vegna þess að útborgun námsláns vegna haustmisseris 2004. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 23. nóvember sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dags. 6. desember sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. sama dag, en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Þann 18. desember sl. bárust viðbótarathugasemdir frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Hinn 23. nóvember 2005 fékk kærandi útborgað lán vegna náms á haustmisseri 2004. Með bréfi dags. 7. júní 2006, barst LÍN bréf frá kæranda þar sem hún heldur því fram að lánið hafi verið greitt of seint út og gerði kröfu til þess að LÍN greiddi henni bætur vegna kostnaðar sem hún varð fyrir vegna þessa. Erindi kæranda var synjað með bréfi dags. 20. júní sl. Þá vísaði stjórn LÍN í hinum kærða úrskurði til þess að í reglum sjóðsins væri ekki að finna neina heimild til að afgreiða námslán vegna námsársins 2004-2005 eftir 1. febrúar 2006. Af hálfu stjórnar LÍN er sérstaklega tekið fram að ástæður þess að námslán vegna haustmisseris 2004 var greitt svo seint út voru þær að uppýsingar um námsframvindu vantaði frá kæranda. Þá hafi upplýsingar um tekjur hennar á Íslandi ekki borist sjóðnum. Það hafi því verið fyrst eftir athugin á álagningarskrá RSK 22. nóvember 2005 sem unnt hafi reynst að borga umbeðið lán til kæranda. 

Kærandi mótmælir því að hún hafi ekki sent LÍN nauðsynleg gögn til afgreiðslu námslánsins. Hún telur að ástæða hinnar síðbúnu afgreiðslu hafi verið sú að gögnin hafi týnst innan veggja LÍN. Þá bendir kærandi á að hún hafi átt lögheimili í Danmörku frá því í október 2002 og skili því engu skattframtali á Íslandi. Telur hún fráleitt að það geti verið neitt samhengi milli útgreiðslu lánsins allt of seint og könnunar LÍN á staðgreiðsluskrá RSK á Íslandi. Telur hún augljóst að mál hennar hafi hreinlega gleymst í afgreiðsluferli LÍN. Kærandi telur sig fyrst í nóvember hafa orðið þess áskynja að lánið hefði ekki verið greitt út og því ekki haft neina ástæðu til að ætla annað en öll gögn vegna lánsins væru komin til LÍN. Kærandi tekur enn fremur fram að vegna streitu tengdu námi hennar hafi hún ekki getað sinnt máli þessu fyrr en í júní 2006, rúmum sex mánuðum eftir að henni varð ljóst að námslánið hefði ekki verið afgreitt frá LÍN.

 

Niðurstaða

 

Óumdeilt er að kærandi fékk ekki afgreitt námslán vegna hausmisseris 2004 fyrr en í nóvember 2005. Þá er enn fremur óumdeilt að kærandi gerði ekki reka að því að gera athugasemdir vegna þessa fyrr en rúmum sex mánuðum eftir að þetta varð ljóst, eða í júní 2006. Í gr. 5.2.1. í úthlutunarreglum LÍN kemur fram að lánveitingum vegna námsársins 2004-2005 skuli lokið fyrir 1. febrúar 2006. Erindi kæranda barst ekki fyrr en löngu eftir þann tíma svo sem fyrr greinir. Í þágu skilvirkni í afgreiðslu hjá LÍN verður sú krafa gerð til viðskiptavina lánasjóðsins að þeir fari að þeim úthlutunarreglum sem í gildi eru og aðgengilegar eru hverjum sem vill. Engin heimild var í reglum sjóðsins til að fjalla um lánveitingu vegna námsársins 2004-2005 loksins þegar erindi kæranda barst í júní 2006. Með vísan til þessa er niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN frá 6. október 2006 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka