Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-03/2007 - Endurgreiðsla námslána - umsókn um skuldbreytingu R-láns

Úrskurður

Ár 2007, fimmtudaginn 24. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-3/2007:

Kæruefni

Með bréfi dagsettu 13. mars 2007 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 14. desember sl. þar sem synjað var beiðni hans um að skuldbreyta R-láni yfir í G-lán. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 21. mars sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar komu fram í bréfi dags. 3. apríl sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. sama dag en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir kæranda bárust málskotsnefnd með bréfi dags. 22. apríl sl.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundaði MA nám í alþjóðasamskiptum við háskólann í Essex á Englandi á árunum 2003-2004 og fékk námslán á því tímabili. Endurgreiðslur lánsins eiga að hefjast á árinu 2007. Kærandi segir sér hafa borist bréf frá LÍN þar sem honum hafi verið boðið að skuldbreyta láninu og lækka þar með greiðsluhlutfallið um 1%. Kærandi kveðst hafa fyllt út blað sem fylgdi bréfi LÍN og um haustið 2005 hafi hann skilað því í eigin persónu á skrifstofu LÍN í Höfðaborg. Við athugun sl. haust kom í ljós að skuldbreytingin hafði aldrei átt sér stað. Samkvæmt upplýsingum LÍN hafði erindi kæranda ekki borist sjóðnum.

Kærandi telur sig hafa skilað umsókninni um skuldbreytingu í eigin persónu til sjóðsins og að það sé ekki á hans ábyrgð að sjá til þess að erindið hljóti rétta meðferð hjá LÍN og beri LÍN að leiðrétta mistök sín. Kærandi óskaði síðan eftir að fá námsláni sínu skuldbreytt með bréfi til stjórnar LÍN dags. 23. nóvember sl. en stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda með úrskurði dags. 14. desember sl. Í athugasemdum sínum bendir kærandi einnig á að öll sanngirni mæli með því að heimila honum skuldbreytingu á námsláni sínu þó seint sé þar sem um verulega hagkvæmari lán G-lán er um að ræða.

Stjórn LÍN byggir synjun sína á því að umsókn kæranda hafi ekki fundist í skjalasafni sjóðsins þrátt fyrir ítarlega leit. Umsóknin hafi hvorki verið skráð né skönnuð eins og átti við um allar aðrar umsóknir um skuldbreytingu sem bárust sjóðnum á pappír. Þá bendir stjórn LÍN á að í kynningarbréfi um skuldbreytingar hafi komið skýrt fram að í framhaldi af umsókn þyrfti að senda sjóðnum nýtt skuldabréf til að skuldbreytingin gæti átt sér stað. Enginn fékk óumbeðið sent umsóknareyðublað á pappír til útfyllingar, eins og kærandi heldur fram. Stjórn LÍN vekur einnig athygli á að lánþegar sjóðsins hafi mátt vita að ekki væri nóg að sækja um skuldbreytingu heldur þyrfti m.a. að undirrita nýtt skuldabréf, tilgreina ábyrgðarmann og koma skuldabréfinu til sjóðsins og að sjóðurinn þyrfti einnig að samþykkja skuldbreytinguna. Réttur til skuldbreytingarinnar var tímabundinn og lauk móttöku skuldbreytingarbréfa á árinu 2005.

Hinn 19. desember 2005 fékk kærandi senda tilkynningu um frágang á skuldabréfi því sem námslán hans höfðu verið greidd út á. Í tilkynningunni kom fram tegund skuldabréfsins (R-bréf), útgáfudagur 30. október 2001, að námslok væru miðuð við 30. september 2004 og að afborganir ættu að hefjast 1. mars 2007. Einnig var ábyrgðarmaður bréfsins tilgreindur og sérstök athygli vakin á því að bærust engar athugasemdir innan hálfs mánaðar yrði gengið frá skuldabréfinu í samræmi við tilkynninguna. Engar athugasemdir bárust frá kæranda af þessu tilefni.

Með vísan til þess sem að framan er rakið telur stjórn LÍN að kærandi hafi fyrirgert mögulegum rétti sínum til skuldbreytingarinnar.

Niðurstaða

Í V. kafla úthlutunarreglna LÍN er fjallað umsóknir og útborgun mámslána. Í grein 5.2.7. í úthlutunarreglum LÍN segir m.a.: „Útborgun lána er háð því skilyrði að lánþegi hafi undirritað skuldabréf og tryggt lánið með sjálfskuldarábyrgðarmönnum eða veði.” Sömu skilyrði eiga við um skuldbreytingu lána. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi lagði ekki fram nauðsynleg gögn til skuldbreytingar á láni sínu og að erindi hans barst sjóðnum eftir að allir frestir til útgáfu skuldbreytingarlána voru útrunnir. Þess heldur hefur kærandi ekki stutt þá fullyrðingu sína að um mistök af hálfu LÍN hafi verið að ræða neinum gögnum.

Með vísan til framanritaðs er framangreindur úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 14. desember 2006 í máli kæranda er staðfestur. 

Til baka