Úrskurður
Ár 2007, fimmtudaginn 24. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-4/2007:
Kæruefni
Með bréfi dagsettu 28. mars 2007 kærði kærandi, úrskurð stjórnar LÍN frá 15. mars sl. þar sem synjað var beiðni hennar um að henni yrði veitt undanþága frá endurgreiðslu námslána árin 2006-2009. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 11. apríl sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar komu fram í bréfi dags. 20. apríl sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. sama dag en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum. Engar frekari athugasemdir voru gerðar af hálfu kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi stundaði listnám á árunum 1999-2005 og fékk námslán í
alls 13 annir á tímabilinu. Námslok voru ákveðin 31. maí 2005 og henni tilkynnt
með bréfi dags. 25. október 2006 að endurgreiðslur af námsláninu ættu að hefjast
30. júní 2007. Kærandi sótti um námslán skólaárið 2006-2007 vegna fyrirhugaðrar
dvalar í Rijksakademie van beeldende kunsten í Amsterdam og jafnframt um frestun
námsloka vegna lánshæfs námms. Báðum umsóknum var synjað með bréfum dags. 10.
nóvember 2006. Umsókninni um námslán var synjað á þeim grundvelli að fyrirhugað
nám kæranda væri ekki fullgilt nám á framhaldsháskólastigi en umsókninni um
frestun námsloka var hafnað með þeim rökum að kærandi hefði gert hlé á lánshæfu
námi sínu lengur en eitt skólaár.
Í kæru er Rijksakademie sögð vera
stofnun sem gefi listamönnum víðs vegar að úr heiminum tækifæri til að þróa
vinnu sína áfram án tillits til efnahagslegra krafna sem sjálfstæður listamaður
myndi annars þurfa að standa undir. Dvölin og námið séu framlag stofnunarinnar
til listamannanna þar sem hærri gæðakröfur séu gerðar en ella. Stofnunin sé opin
fólki af öllum þjóðernum en inntökuskilyrði séu ströng en þátttakendur fái
vinnustyrk og ýmis fríðindi, svo sem ódýrt leiguhúsnæði og möguleika á
verkefnastyrkjum en þau kjör séu sambærileg þeim sem LÍN veiti.
Framfærslustyrkur Rijksakademie nægi einungis til að greiða uppihald.
Kærandi kveður þátttöku sína í Rijksakademie vera beint framhald af námi
sem hún hafi sótt um og þegið námslán fyrir. Það sé því mótsagnakennt að byrja
að borga af lánunum þegar hún sé ekki komin í þá stöðu að fá afkomu af
vinnumarkaðnum. Það sé auðséð að ef hún byrji að borga af námslánum, myndi það
þrengja mjög að vinnuaðstæðum kæranda að álykta verði að það hljóti að draga
mjög úr vinnugetu hennar. Þá bendir kærandi á að tekjur hennar á árinu 2006 hafi
verið vel undir 1.800.000 krónum og því eigi hún rétt á frestun á greiðslu
tekjutengdra afborgana.
Stjórn LÍN byggir synjun sína á því að kærandi
uppfylli ekki þau skilyrði sem ákvæði úthlutunarreglna LÍN setji fyrir undanþágu
frá endurgreiðslu námslána. Samkvæmt grein 7.4.1. sé heimilt að veita undanþágu,
m.a. vegna lánshæfs náms að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þau skilyrði sem
stjórn sjóðsins setji vegna frestunar á fastri afborgun ársins 2007 séu þau að
lánshæft nám sé stundað á skólaárinu 2006-2007 ásamt því að tekjur ársins 2006
séu lægri en 1.800.000 krónur. Uppfylla þurfi bæði skilyrðin. Samkvæmt gögnum
sem sjóðnum hafi borist, sé kærandi ekki í lánshæfu námi skólaárið 2006-2007 og
því verði að synja undanþágubeiðni hennar.
Niðurstaða
Samkvæmt grein 7.4.1. í úthlutunarreglum LÍN er sjóðnum heimilt
að veita lánþega undanþágu frá endurgreiðslu námslána ef skyndilegar og
verulegar breytingar hafa orðið á högum hans milli ára, t.d. ef hann veikist
alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og
möguleika til að afla tekna, og útsvarsstofn vegna tekna á fyrra ári gefur ekki
rétta mynd af fjárhag hans á endurgreiðsluári. Ekki verður séð að ákvæðið eigi
við í málinu.
Í grein 7.4.2. í sömu reglum segir: Námsmaður sem
hefur haft svo lágar tekjur á fyrra ári að honum reiknast ekki viðbótargreiðsla
og fjárhagur hans hefur ekki batnað á endurgreiðsluárinu, getur sótt um
undanþágu frá fastri ársgreiðslu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, veikindi,
þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda þessum örðugleikum
hjá lánþega eða fjölskyldu hans.
Samkvæmt ákvæðinu verður að
uppfylla tvenns konar skilyrði til þess að unnt sé að veita undanþágu frá
endurgreiðslu, þ.e. annars vegar að viðkomandi hafi haft svo lágar tekjur eins
og þar er nánar tilgreint og hins vegar að fjárhagsörðugleikarnir stafi af nánar
tilgreindum ástæðum. Ákvæði greinarinnar eru í samræmi við ákvæði 6. mgr. 8. gr.
laga um LÍN nr. 21/1992.
Af gögnum málsins og fullyrðingum kæranda
verður ráðið að tekjur hennar séu undir viðmiðunarmörkum LÍN. Hins vegar hefur
stjórn LÍN bent á að kærandi sé ekki í lánshæfu námi skólaárið 2006-2007 og
styðja framlögð gögn frá Rijksakademie van beeldende kunsten þá niðurstöðu. Er
því ljóst að skilyrði fyrir undanþágu samkvæmt fyrrgreindu ákvæði 7.4.2. í
úthlutunarreglunum eru ekki uppfyllt. Engar heimildir eru samkvæmt lögum og
reglum LÍN til að heimila undanþágu frá endurgreiðslu í máli þessu. Með vísan
til framanritaðs er framangreindur úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda
staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 15. mars 2007 í máli kæranda er staðfestur.