Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-05/2007 - Umsóknarfrestur og útborgun - synjun á afgreiðslu láns

Úrskurður

 

Ár 2007, föstudaginn 1. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-5/2007:

 

Kæruefni

 

Með bréfi dags. 19. mars 2007 kærði kærandi, úrskurð stjórnar LÍN frá 16. mars sl. þar sem synjað var beiðni kæranda um námslán á vormisseri 2006. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 12. apríl sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar komu fram í bréfi dags. 25. apríl sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 27. apríl en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum. Engar frekari athugasemdir voru gerðar af hálfu kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi hóf mastersnám í Copenhagen Business School haustið 2004. Námið er lánshæft í allt að 5 misseri til að ljúka því. Í framhaldi af upplýsingum um námsárangur frá skóla fékk kærandi afgreitt lán vegna haustannar 2004, vorannar 2005 og haustannar 2005. Vorið 2006 sótti kærandi um sumarlán 2006 og sendi lánasjóðnum upplýsingar um að fyrirhuguð námslok yrðu haustið 2006. Í svari sjóðsins við erindi þessu var kærandi beðinn um staðfestingu skóla á nýjum námslokum. Kærandi svaraði þessu erindi ekki, né heldur bréfi sjóðsins dags. 18. desember 2006 þar sem athygli kæranda var vakin á því að vottorð um námsárangur vantaði og að lánveitingum vegna námsársins 2005-2006 skyldi lokið fyrir 1. febrúar 2007. Hinn 27. febrúar 2007 barst LÍN staðfesting á skólavist kæranda og að áætluð námslok hans væru í ágúst 2007. Þá staðfesti skóli kæranda þann 5. mars 2007 að kærandi hafði síðast skilað námsárangri eftir haustmisseri 2005, eða misserið sem hann fékk síðast afgreitt námslán frá sjóðnum. Jafnframt fékk LÍN staðfestingu á því að kærandi hefði unnið að lokaritgerð um hausið 2006 og fékk kærandi afgreitt lán vegna þeirrar annar á grundvelli ástundunarvottorðs. 

Með tölvupósti dags. 12. mars 2007 fór kærandi fram á lán vegna náms á vormisseri 2006. Stjórn LÍN synjaði erindi kæranda með hinum kærða úrskurði þar sem engar staðfestar upplýsingar höfðu borist sjóðnum um lánshæft nám á vormisseri 2006. 

Kærandi skýrir með nokkuð óljósum hætti hverjar voru ástæður tafa á svörum til LÍN, en orðrétt segir m.a. í kærunni: "Umboðsmaður gleymdi bréfi sem sent var til sjóðsins, og undirritaður fékk ekki bréfið í hendur fyrr en umsóknarfrestur var liðinn. Einnig var undirritaður að flytjast á sama tíma í upphafi árs 2007 frá Danmörku til Íslands". Í tölvupóstsamskiptum kæranda við LÍN sem fylgdu kærunni kemur fram að kærandi hafi unnið að lokaritgerð sinni bæði á vor- og haustönn 2006.

 

Niðurstaða

 

Þrátt fyrir útskýringar kæranda á ástæðum aðgerðarleysis hans gagnvart LÍN liggur ekkert fyrir um að hann hafi lagt fram staðfestar upplýsingar um að hann hafi lokið lánshæfu námi á vormisseri 2006. Á hann því ekki rétt á námsláni fyrir þá önn sbr. gr. 2.2.2. í úthlutunarreglum LÍN. 

Með vísan til þessa er hinn kærði úrskurður staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN frá 16. mars 2007 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka