Úrskurður
Ár 2007, fimmtudaginn 28. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-7/2007:
Kæruefni
Með bréfi dags. 18. apríl 2007 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 15. mars sl. þar sem synjað var beiðni kæranda um undanþágu frá greiðslu fastrar afborgunar vegna örorku. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 24. apríl sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dags. 7. maí sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 8. maí sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi bendir á að hann hafi fengið námslán frá LÍN á árunum
1996-1998. Á árinu 1998 fékk kærandi heilablóðfall og varð í kjölfar þess að
hætta námi. Kærandi hefur verið óvinnufær síðan og er í dag metinn til 75%
varanlegrar örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins. Allar tekjur hans koma frá
Tryggingastofnun og lífeyrissjóði. Hann hefur fram að þessu fengið frest á
greiðslu afborgana af námslánum sínum á framangreindum forsendum og fór
umboðsmaðurinn fram á að áframhald yrði á þeirri tilhögun.
Kærandi telur
rétt að beita vísitöluhækkun viðmiðunartekna við ákvörðun um hvort tekjur
teljist of háar og að undanþágu frá greiðslu sé beitt hlutfallslega, en ekki
þannig að við það að fara yfir tekjuviðmið þá falli rétturinn til að njóta
undanþáguheimildar alfarið niður.
Í svari stjórnar LÍN kemur fram að
tekjur kæranda á árinu 2005 hafi verið 1.879.077 kr. og því hafi kærandi átt að
greiða samkvæmt reglum sjóðsins og skilmálum skuldabréfs 73.771 kr. þann 1. mars
2006 og 22.665 þann 1. september 2006. Árin 2001-2004 voru tekjur kæranda hins
vegar undir viðmiðunarmörkum LÍN. Vegna örorku fékk kærandi undanþágu frá
greiðslu fastrar afborgunar áranna 2002-2005.
Stjórn LÍN leggur áherslu
á að tekjur kæranda á árinu 2005 hafi verið mun hærri en tekjur hans árin á
undan og vel yfir 1.700.000 kr sem voru viðmiðunarmörk sjóðsins.
Vegna
fyrirspurnar kæranda um það hvort tekjuviðmiðunin fylgi vísitölubreytingum launa
eða lánskjara vísar stjórn LÍN til gr. 7.4.2. í úthlutunarreglum sjóðsins og
bendir á að þar komi fram að miðað sé við það hvort greiðanda reiknast
viðbótargreiðsla (tekjutengd afborgun) eða ekki. Kæranda reiknast tekjutengd
afborgun með gjalddaga 1. september 2006 og sé því synjað um undanþágu.
Vegna fyrirspurnar kæranda um hlutfallslega frestun afborgunar er vísað
til gr. 7.4.2. og gr. 7.3. í úthlutunarreglum LÍN og vakin athygli á að í
framkvæmd hafi ekki verið veitt undanþága frá fastri afborgun að hluta.
Niðurstaða
Samkvæmt grein 7.3. í úthlutunarreglum LÍN er árleg
endurgreiðsla námslána, annars vegar föst afborgun með gjalddaga þann 1. mars og
hins vegar viðbótargreiðsla sem innheimtist þann 1. september og er háð tekjum
fyrra árs.
Heimildir til undanþágu frá afborgunum námslána er að finna í
úthlutunarreglum LÍN í grein. 7.4.1. Undanþága vegna skyndilegra og verulegra
breytinga og í grein 7.4.2. Undanþága vegna lágra tekna.
Svo sem
fram kemur í gögnum málsins voru tekjur kæranda á árinu 2005, 1.879.077 kr. eða
töluvert hærri en viðmiðunarmörk sjóðsins, sem voru 1.700.000 kr. Þá liggur
einnig fyrir að ekki urðu breytingar á högum kæranda til hins verra á árinu.
Hvorki í lögum um LÍN né úthlutunarreglum sjóðsins er að finna ákvæði
sem veita heimild til hlutfallslegrar undanþágu frá endurgreiðslu námslána.
Teljast því engar heimildir til undanþágu frá endurgreiðslu í máli þessu. Með
vísan til framanritaðs er framangreindur úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda
staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 15. mars 2007 í máli kæranda er staðfestur.