Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-08/2007 - Námsframvinda - skilgreining á fullu námi

Úrskurður

Ár 2007, þriðjudaginn 11. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-8/2007:

Kæruefni

Með bréfi dags. 6. júní 2007 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 16. mars sl. þar sem synjað var beiðni kæranda um lán á þeim grundvelli að nám kæranda var ekki talið lánshæft. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 12. júní sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dags. 22. júní sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 25. júní sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 27. júní sl.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi hóf á þessu ári nám til diplóma gráðu í mannauðsstjórnun hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands. Námið er skipulagt sem þriggja missera nám samhliða starfi (3 x 12 ECTS-einingar) og telst námið samsvara 36 ECTS-einingum á háskólastigi. Kærandi lauk 24 ETCS-einingum á vormisseri 2007 og áætlaði námslok í janúar 2008. Aðstæður kæranda hafa hins vegar breyst og er kærandi nú innritaður í viðskipta- og hagfræðideild Háskóls Íslands frá haustinu 2007.

Í janúar sl. sótti kærandi um lán til LÍN til framfærslu auk láns fyrir skólagjöldum og skilaði tilskildum gögnum þar að lútandi.

Stjórn LÍN synjaði kæranda um námslán á þeim forsendum að námið væri ekki skipulagt sem lánshæft nám. Til að nám sé lánshæft þurfi það að vera skipulagt þannig að námsmaður ljúki a.m.k. 45 ECTS-einingum á skólaári (tveimur misserum).

Kærandi vísar til gr. 1.2. í úthlutunarreglum LÍN en þar kemur fram að nám á háskólastigi sé lánshæft og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Í greininni séu taldir upp þeir skólar sem bjóða upp á lánshæft nám, þar efst á lista sé Háskóli Íslands. Kærandi bendir á að Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands sé deild innan Háskóla Íslands og diplóma námið í mannauðsstjórnun sé nám á háskólastigi metið í ECTS-einingum. Þá bendir kærandi einnig á að nemendur sem lokið hafa diplóma námi í mannauðsstjórnun eigi þess kost að fá 30 ECTS-einingar metnar inn í B.S. nám við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og telur kærandi þarna gæta verulegs ósamræmis.

Í svari stjórnar LÍN kemur fram að synjun stjórnarinnar um námslán til kæranda byggist á gr. 2.2. í úthlutunarreglum LÍN um námsframvindu. Stjórn LÍN tekur fram að almennt teljist námsmaður vera í fullu námi ljúki hann 60 ECTS-einingum á tveimur misserum, sbr. gr. 2.1.1. Til að námsmaður fái námslán sé gerð sú krafa að hann ljúki að jafnaði 100% af fullu námi og í það minnsta 75% af fullu námi skv. skipulagi skóla samþykktu af stjórn LÍN, sbr. 1. mgr. gr. 2.2.1. og 1. mgr. gr. 2.2.2. í úthlutunarreglum LÍN. Stjórn LÍN hafi því ekki samþykkt nám hjá Endurmenntun Háskóla Íslands sem lánshæft þar sem það sé í öllum tilvikum skipulagt sem minna en 75% af fullu námi skv. almennum kröfum LÍN.

Stjórn LÍN bendir jafnframt á að Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands sé ekki deild innan Háskóla Íslands sbr. reglur fyrir HÍ nr. 458/2000 gr. 14 en þar segir í 2. mgr.: „Endurmenntunarstofnun er hins vegar ekki háskóladeild og hefur ekki heimild til að veita prófgráðu.”

Að lokum tekur stjórn LÍN fram að af þeim 36 ECTS-einingum sem lokið er í mannauðsstjórnum innan Endurmenntunarstofnunar HÍ fást 30 ECTS-einingar metnar til lokaprófs í BS-námi við viðskipta- hagfræðideild HÍ. Af þeim 24 einingum sem kærandi lauk á vorönn 2007 nýtast 20 einingar með þeim hætti. Það samsvarar 67% námsframvindu, sem aftur telst ekki lánshæf ástundun skv. reglum LÍN.

Niðurstaða

Í gr. 2.2.1. í úthlutunarreglum LÍN segir: "Námsframvinda er metin á þeim misserum og árum sem námsmaður nýtur aðstoðar. Skal námsmaður að jafnaði ljúka 100% af fullu námi skv. skipulagi skóla samþykktu af stjórn sjóðsins.” Síðan segir í gr. 2.2.2: „Námsmaður þarf að ljúka í það minnsta 75% af fullu námi skv. skipulagi skóla samþykktu af stjórn sjóðsins til þess að fá námslán.”

Það er óumdeilt að nám kæranda í mannauðsstjórnun við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands er skipulagt sem þriggja missera nám. Eftir tvö misseri hefur kærandi lokið 24 ECTS- eininga námi. Almennt telst námsmaður vera í fullu námi ljúki hann 60 ECTS-einingum á skólaári (tveimur misserum) og er námið lánhæft ef það nemur í það minnsta 75% námshlutfalli eða 45 ETCS-einingum. Þar sem kærandi uppfylli ekki lágmarksskilyrði framangreindra úthlutunarreglna LÍN um námsframvindu er ekki unnt að fallast á það með kæranda að hún eigi rétt á námslánum frá LÍN vegna þessa náms.

Með vísan til framanritaðs er framangreindur úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 16. mars 2007 í máli kæranda er staðfestur. 

Til baka