Úrskurður
Ár 2007, fimmtudaginn 25. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-9/2007.
Kæruefni
Með bréfi dags. 3. júlí sl. kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN
frá 18. apríl sl. þar sem kæranda var synjað um að fella ábyrgðarmann niður af
lánum hennar hjá sjóðnum á þeirri forsendu að hún hefði ekki útvegað annan
ábyrgðarmann í staðinn sem uppfyllir skilyrði gr. 5.3.2. í úthlutunarreglum LÍN.
Með bréfi málskotsnefndar dags. 13. ágúst sl. var stjórn LÍN tilkynnt um
kæruna og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var með bréfi dags. sama
dag sent afrit af bréfinu til stjórnar LÍN. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust
nefndinni í bréfi dags. 28. ágúst sl. og var kæranda sent afrit þeirra með bréfi
dags. 31. ágúst sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að
koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir af hálfu kæranda
bárust málskotsnefndinni og var málið því tekið til úrskurðar.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi sem þegið hefur námslán hjá LÍN óskaði eftir því við stjórn LÍN að sonur hennar yrði leystur undan ábyrgð á námslánum hennar, en í staðinn kæmi sambýlismaður hennar. Stjórn LÍN hafnaði beiðninni á þeirri forsendu kærandi hefur ekki tilnefnt nýjan ábyrgðarmann sem uppfyllir skilyrði gr. 5.3.2. í úthlutunarreglum sjóðsins. Kærandi fer fram á að undanþága verði gerð af hálfu sjóðsins í hennar tilviki vegna ýmissa persónulegra ástæðna sem rakin eru í kæru hennar.
Niðurstaða
Málskotsnefnd hefur sjálfstætt aflað viðbótargagna úr
vanskilaskrá. Þar kemur fram að þann 4. júlí 2005 voru tvö árangurslaus fjárnám
gerð hjá aðila þeim sem kærandi hefur boðið fram sem nýjan ábyrgðarmann. Þá voru
þann 19. júní sl. enn gerð tvö árangurslaus fjárnám hjá viðkomandi, auk þess sem
upplýsingar eru um birtingu greiðsluáskorunar og áritun stefnu vegna vanskila á
árunum 2005 og 2006.
Í 5. mgr. gr. 5.3.2. í úthlutunarreglum LÍN er
svohljóðandi ákvæði:
"Óheimilt er að samþykkja þá menn sem
ábyrgðarmenn fyrir námsláni sem eru á vanskilaskrá eða teljast af öðrum ástæðum
bersýnilega ótryggir ábyrgðarmenn að mati sjóðsins".
Í
úthlutunarreglunum er ekki að finna ákvæði er heimilar undanþágu frá
framangreindu skilyrði. Með vísan til framangreindra upplýsinga um fjárhagsstöðu
þess aðila sem boðinn hefur verið fram sem nýr ábyrgðarmaður á lánum kæranda, er
það álit málskotsnefndarinnar að stjórn LÍN hafi með réttu hafnað beiðni
kæranda. Verður því úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 18. apríl sl. er staðfestur.