Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-11/2007 - Skólagjöld - fyrirframgreiðsla skólagjaldalána

Úrskurður

 

Ár 2007, miðvikudaginn 5. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-11/2007:

 

Kæruefni

 

Með bréfi dags. 11. september 2007 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 31. ágúst sl. þar sem synjað var beiðni kæranda um fyrirframgreiðslu skólagjaldaláns í einu lagi vegna náms skólaárið 2007-2008. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 17. september sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dags. 28. september sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. sama dag en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 3. október sl.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi hóf sl. haust PhD rannsóknarnám í tölvunarfræði við York University, Englandi en kærandi hafði nýlokið námi í MSc tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. 

York University reiknar skólagjöld fyrir allt námsárið 2007-2008 og innheimtir skólagjöldin fyrirfram fyrir 1. október ár hvert. Kærandi sótti um lán til greiðslu skólagjalda að fjárhæð 12.075 GBP og í júlí sl. veitti LÍN henni lán til greiðslu skólagjalda fyrir haustmisserið 2007 og staðfesti jafnframt að ef kærandi skilaði fullnægjandi árangri haustið 2007 fengi hún skólagjaldalán fyrir vormisserið 2008 útborgað í janúar 2008. Kærandi vísar til þess að hún teljist ekki fyrsta árs nemi og er það óumdeilt í máli þessu. Þar af leiðandi eigi hún rétt á að fá skólagjaldalán fyrirfram greitt á þeirri önn sem hún þarf að geiða skólagjöldin sbr. gr. 5.2.1. í úthlutunarreglum LÍN en þar segir m.a.: "Heimilt er að greiða lán vegna skólagjalda og ferðalán skv. grein 4.8. og grein 4.12. á þeirri önn sem námsmaður greiðir slíkan kostnað"

Þá vísar kærandi til þess óhagræðis sem hún hefur orðið fyrir með þessari afgreiðslu stjórnar LÍN hvað varðar vaxtakostnað og gengisóvissu. 

Stjórn LÍN synjaði kæranda um námslán með vísan til greinar 4.8. en þar segir m.a.: "Heimilt er að greiða lán vegna skólagjalda út fyrir eitt misseri í senn við upphaf námstímabils til annarra námsmanna en fyrsta árs nema sbr. gr. 5.2.1." Þá leggur stjórn LÍN áherslu á að afgreiðsla sjóðsins sé ívilnandi fyrir kæranda og aðra þá námsmenn sem eru í sambærilegri stöðu og kærandi þar sem lán eru almennt ekki borguð út fyrr en í lok námsmissera þegar námsframvinda þess misseris hefur verið staðfest. Stjórn LÍN bendir einnig á að hefði kærandi talist fyrsta árs nemandi hefði hún ekki átt rétt á að fá skólagjaldalánið sem hún fékk afgreitt í júlí, fyrr en eftir haustmisseri.

 

Niðurstaða

 

Í gr. 5.2.1. í úthlutunarreglum LÍN sem fjallar um útborgun lána segir: "Heimilt er að greiða lán vegna skólagjalda og ferðalán skv. grein 4.8. og grein 4.12. á þeirri önn sem námsmaður greiðir slíkan kostnað. Skili námsmaður ekki tilskildum lágmarksárangri eftir viðkomandi skólaár eru þessi lán endurkræf skv. reglum um ofgreidd lán"

Í greininni er að finna undantekningu frá ákvæðum gr. 4.8. í úthlutunarreglum LÍN þar sem segir: "Heimilt er að greiða lán vegna skólagjalda út fyrir eitt misseri í senn við upphaf námstímabils til annarra námsmanna en fyrsta árs nema sbr. gr. 5.2.1." 

Það er óumdeilt að kærandi telst ekki til fyrsta árs nema og eiga því ákvæði gr. 5.2.1. í úthlutunarreglum LÍN við um kæranda. 

Eins og að framan er rakið er gert ráð fyrir því í gr. 5.2.1. að unnt sé að greiða skólagjaldalán út á þeirri önn sem námsmaður greiðir slíkan kostnað. Fyrir liggur að kærandi hefur á yfirstandandi önn greitt skólagjöld fyrir allt námsárið 2007-2008 eins og skólinn hefur krafist. Þá er gert ráð fyrir því í niðurlagi gr. 4.8. í úthlutunarreglum LÍN að unnt sé að veita undanþágu frá ákvæðunum um að greiða eigi skólagjaldalán út fyrir eitt misseri í senn við upphaf námstímabils ef sérstakar ástæður mæli með. 

Undantekningarákvæði gr. 5.2.1. er ívilnandi fyrir námsmenn og verður ákvæðið því skýrt kæranda í hag í máli þessu. Þar sem kæranda ber að greiða skólagjöld fyrir tvö misseri í einu þykir rétt með vísan til þess sem að framan er rakið að hún fái til þess lán í einu lagi á því misseri sem greiðsla er innt af hendi. Er því framangreindur úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda felldur úr gildi.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN frá 31. ágúst 2007 í máli kæranda er felldur úr gildi.

Til baka