Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-13/2007 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá afborgun

Úrskurður

Ár 2007, miðvikudaginn 19. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-13/2007:

Kæruefni

Með bréfi dagsettu 15. október 2007 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 8. júní sl. þar sem stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda um undanþágu frá greiðslu afborgunar námsláns og frestun námsloka var hafnað. Að sögn kæranda var kæran fyrst send málskotsnefndinni í júlí sl. Það bréf barst nefndinni aldrei af óútskýrðum ástæðum og sendi því kærandi nefnt bréf frá 15. október sl. að beiðni nefndarinnar. Með hliðsjón af þeim atvikum þótti nefndinni ekki rétt að vísa málinu frá sem of seint fram komnu. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 18. október sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar komu fram í bréfi dags. 25. október sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. sama dag en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Viðbótarathugasemdir dags. 5. nóvember sl. bárust frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundaði lánshæft þriggja ára BS-nám í viðskiptafræði við HÍ skólaárin 2000-2001 til 2004-2005 og fékk námslán í samtals 7 misseri á þessum árum. Síðast fékk kærandi afgreitt lán vegna námsástundar haustið 2004. Kærandi sótti um námslán skólaárið 2005-2006 en þegar ljóst var að hún myndi ekki skila lánshæfum námsárangri það árið fékk hún tilkynningu hinn 13. febrúar 2007 um frágang skuldabréfs nr. R-029117 og að námslok hennar hefðu verið ákveðin 21. desember 2004, þ.e. í lok þess misseris þegar hún lauk síðast lánshæfu námi. Kærandi gerði athugasemd við þessa tilkynningu með bréfi dags. 21. febrúar sl. og fékk svarbéf frá LÍN dags. 27. febrúar sl. þar sem erindi hennar um frestun námsloka var synjað með tilvísun í grein 2.5.1. í úthlutunarreglum sjóðsins. Kærandi óskaði eftir úrskurði stjórnar með bréfi dags. 28. apríl sl. Í úrskurði hennar frá 8. júní voru áður ákvörðuð námslok staðfest.

Kærandi óskar eftir frestun á að byrja að greiða af námslánum þar til hún hefur klárað BS nám sitt. Hún kveðst hafa hafið nám árið 2000 og eiga einungis tvö fög eftir og ritgerðina. Kærandi kveðst hafa stefnt að því að klára haustið 2005 en hún hafi misst eiginmann sinn þann 1. október það ár. Kærandi kveður kostnað við útför hans hafa verið mikinn auk þess sem hann hafi skilið eftir sig verulegar skuldir sem hún hafi verið ábyrgðarmaður á. Þá hafi móðir hennar veikst af krabbameini í desember sama ár og látist í mars 2006. Kærandi kveðst hafa tekið systurson sinn í fóstur, en hann sé greindur með "aspergers" og sé misþroska. Þá kveðst kærandi sjálf hafa veikst af krabbameini sl. vetur og verið óvinnufær með öllu í þrjá mánuði. Kveður kærandi öll þessi áföll hafa haft afdrifarík áhrif á fjárhag hennar auk þess sem einbeitingin í náminu hafi minnkað verulega.

Af hálfu stjórnar LÍN er á það bent að læknisvottorð sem fylgja kærunni staðfesti einungis veikindi 29. apríl til 10. júní 2007, þ.e. eftir að kærandi sendi stjórn LÍN erindi sitt. Þá er einnig á það bent að samkvæmt upplýsingum RSK hafi tekjur kæranda verið kr. 3.993.900 á árinu 2006 og því reiknist henni bæði föst og tekjutengd afborgun á árinu 2007. Stjórn LÍN bendir á að kærandi kunni að eiga rétt á undanþágu frá föstu afborguninni vegna skyndilegra og verulegra breytinga á árinu 2007, sbr. gr. 7.4.1. í úthlutunarreglum sjóðsins. Kærandi hafi hins vegar ekki sótt um slíka undanþágu.

Niðurstaða

Í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er svohljóðandi ákvæði: "Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans". 

Í 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er svohljóðandi ákvæði: "Námsmaður sem hefur haft svo lágar tekjur á fyrra ári að honum reiknast ekki viðbótargreiðsla og fjárhagur hans hefur ekki batnað á endurgreiðsluárinu, getur sótt um undanþágu frá fastri ársgreiðslu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda þessum örðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans. Skal hann þá leggja fyrir sjóðstjórn upplýsingar um eignir sínar, lífeyri og annað það sem stjórnin telur máli skipta. Stjórninni er þá heimilt að veita undanþágu að hluta eða öllu leyti eftir atvikum. Sjóðstjórn setur nánari almennar reglur um framkvæmd þessa heimildarákvæðis". 

Námslok kæranda hafa verið ákveðin í samræmi við ákvæði gr. 2.5.1. í úthlutunarreglum LÍN. Svo sem að framan greinir reiknaðist kæranda tekjutengd afborgun á árinu 2007 vegna tekna ársins 2006. Þá hefur kærandi ekki sótt um undanþágu frá greiðslu afborgana á grundvelli gr. 7.4.1. í úthlutunarreglum LÍN. Af þessum sökum og með vísan til framangreindra laga- og reglugerðarákvæða eru ekki fyrir hendi skilyrði til að fallast á beiðni kæranda í máli þessu.

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 8. júní 2007 í máli kæranda er staðfestur. 

Til baka