Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-15/2007 - Endurgreiðsla námslána - beiðni um endurútreikning tekjutengdrar afborgunar

Úrskurður

Ár 2007, miðvikudaginn 19. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-15/2007:

Kæruefni

Með bréfi dagsettu 4. október 2007 sem móttekið var 19. sama mánaðar kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 13. september sl. þar sem synjað var um endurútreikning tekjutengdrar afborgunar 2007. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 25. október sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar komu fram í bréfi dags. 31. október sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 2. nóvember sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir kæranda komu fram í bréfi hennar dagsettu 13. nóvember sl.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi sendi LÍN tölvubréf dags. 4. september sl. þar sem hún benti á að á vefsíðu sjóðsins kæmi fram að við útreikning á endurgreiðslu námslána bæri að miða við útsvars- og skattstofn. Hins vegar kæmi ekki fram á vefsíðunni að endurgreiðsla hjá lánþegum búsettum erlendis væri ekki byggð á útsvars- og skattstofni eins og hann er reiknaður út í hverju landi. Benti þetta til þess að annað hvort væru upplýsingarnar á vefsíðu LÍN villandi eða að LÍN endurreiknaði stofninn án þess að hafa heimild fyrir því í þeim lögum og reglugerðum sem LÍN ber að fara eftir. Gerði kærandi síðan í bréfinu ráð fyrir því að sjóðurinn reiknaði út tekjutengda afborgun hennar að nýju út frá þeim útsvars- og skattstofni sem norsk skattayfirvöld hafa ákveðið.

Af hálfu kæranda er á því byggt að samkvæmt upplýsingum frá norskum skattyfirvöldum sé útsvars- og skattstofn hennar NOK 350.091. Ekkert í lögum og reglugerðum LÍN veiti sjóðnum heimild til þess að hunsa útsvarsstofn þeirra lánþega sem eiga skattheimili erlendis og endurreikna hann út frá því hvernig samsvarandi tekjur hefðu verið skattlagðar á Íslandi. Það komi skýrt og greinilega fram í upphafi 10. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN að það sé útsvarsstofn sem liggur til grundvallar endurgreiðslunni. Eðlilegast sé að það sé útsvarsstofn eins og hann er reiknaður út í því landi sem viðskiptamenn sjóðsins eiga skattheimili sitt en þar þurfi þeir að lifa af tekjum sínum eftir að tekjutengda afborgunin hefur verið greidd. Þurfi lagabreytingu til að LÍN væri heimilt að endurreikna útsvarsstofn lánþega búsettra erlendis.

Stjórn LÍN byggir synjun sína á ákvæðum 3. mgr. 10. gr. laga um LÍN þar sem segir að lánþega, sem á endurgreiðslutímanum sé ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum, skuli gefast kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og síðan skuli hámark endurgreiðslu ákveðið í samræmi við það. Kærandi sé búsett í Noregi og endurgreiði nú S-lán. Þegar greiðandi slíks láns sé skattskyldur á Íslandi, sé stofn til útreiknings tekjutengdu afborgunarinnar útsvarsstofn hans, en sé hann ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum sé honum gefinn kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar, sbr. ákvæði 10. gr. áðurnefndra laga. Kærandi hafi sent sjóðnum upplýsingar um tekjur sínar í Noregi og hafi útsvarsstofn hennar verið ákvarðaður út frá þeim kr. 4.562.994, þ.e. heildartekjur að fjárhæð NOK 428.223 að frádregnu lífeyrissjóðsiðgjaldi NOK 8.483 sem geri NOK 419.740 eða IKR 4.562.994. LÍN ákveði tekjustofn vegna erlendra tekna eins og lánþeginn væri skattskyldur af öllum tekjum sínum á Íslandi. Í tilviki kæranda séu t.d. vergar tekjur hennar skilgreindar lægri en samkvæmt norskum skattalögum en munurinn felist í fjármagnstekjum sem ekki séu meðtaldar í íslenska útsvarsstofninum. Á móti komi að óheimilt sé að draga frá vaxtakostnað eða annan fjármagnskostnað eins og kærandi fari fram á.

Niðurstaða

Í 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN segir að árleg endurgreiðsla ákvarðist í tvennu lagi, annars vegar sé um að ræða fasta greiðslu óháða tekjum lánþega en hins vegar viðbótargreiðslu sem sé háð tekjum fyrra árs. Tekjutengd afborgun með gjalddaga 1. september 2007 er því ákvörðuð út frá heildartekjum ársins 2006. Eins og segir í 1. mgr. 10. gr. sömu laga er með hugtakinu tekjustofn átt við útsvarsstofn lánþega að viðbættum tekjum samkvæmt c-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt, þegar tekjur lánþega eru skattskyldar á Íslandi. Hins vegar er í sömu lagagrein einnig að finna fyrirmæli um það hvernig finna skal út heildartekjur lánþega, sem ekki er skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum, og segir þar í 3. mgr.:

"Sé lánþegi á endurgreiðslutímanum ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum skal honum gefinn kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og skal árleg viðbótargreiðsla ákveðin í samræmi við það."

Ljóst er að tekjustofn er ekki í öllum löndum reiknaður út með sama hætti. Með framangreindum lagaákvæðum eru gefin fyrirmæli um það hvernig finna skuli út grundvöll útreiknings á heildartekjum lánþega sem gefur sambærilega niðurstöðu óháð því hvar lánþegi býr. Er því tekjustofn vegna erlendra tekna ákveðinn eins og lánþeginn væri skattskyldur af öllum tekjum sínum á Íslandi, óháð skattareglum í því landi sem hann býr. Með þeim hætti er framkvæmd LÍN í samræmi við lög og jafnræðis gætt milli lánþega. Með vísan til framanritaðs er framangreindur úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 13. september 2007 í máli kæranda er staðfestur. 

Til baka