Úrskurður
Ár 2007, miðvikudaginn 19. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-16/2007:
Kæruefni
Með bréfi dagsettu 26. október 2007 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 3. október sl. þar sem stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda um undanþágu frá greiðslu afborgunar námsláns þar sem kærandi var þrátt fyrir lág laun yfir viðmiðunartekjumörkum sjóðsins. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 1. nóvember sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar komu fram í bréfi dags. 9. nóvember sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 20. nóvember sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi fékk svokallað S-lán á árunum 1986-1991. Lánið er
verðtryggt, en ber ekki vexti. Kærandi hefur greitt afborganir lánsins frá árinu
2002 og er það í skilum. Afborganir ársins 2007 voru ákvarðaðar eftir almennum
reglum sjóðsins og tóku mið af tekjum kæranda á árinu 2006.
Kærandi
krefst frestunar á greiðslu afborgunar námsláns vegna lágra tekna á árinu 2007.
Bendir hún í því sambandi á að hún hafi verið í hálfri stöðu frá 1. mars til 15.
júní, frá 15. júní til 15. ágúst hafi hún verið án vinnu, en byrji þá aftur í
50% starfi. Telur kærandi getu sína til greiðslu námslánanna verulega skerta
vegna lágra launa og takmarkaðrar vinnu á árinu 2007.
Stjórn LÍN tekur
fram að þrátt fyrir tímabundið atvinnuleysi á árinu 2007 muni henni samkvæmt
fyrirliggjandi tekjuupplýsingum einnig reiknast tekjutengd afborgun á árinu
2008. Kærandi hafi ekki heldur sýnt fram á skyndilegar eða verulegar breytingar
á högum sínum milli ára sem skerða muni ráðstöfunarfé hennar eða möguleika til
að afla tekna.
Niðurstaða
Í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra
námsmanna er svohljóðandi ákvæði: "Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu
frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar
og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega
eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til
að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá
ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna
eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega
eða fjölskyldu hans."
Í 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um Lánasjóð
íslenskra námsmanna er svohljóðandi ákvæði: "Námsmaður sem hefur haft svo lágar
tekjur á fyrra ári að honum reiknast ekki viðbótargreiðsla og fjárhagur hans
hefur ekki batnað á endurgreiðsluárinu, getur sótt um undanþágu frá fastri
ársgreiðslu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða
aðrar sambærilegar ástæður valda þessum örðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu
hans. Skal hann þá leggja fyrir sjóðstjórn upplýsingar um eignir sínar, lífeyri
og annað það sem stjórnin telur máli skipta. Stjórninni er þá heimilt að veita
undanþágu að hluta eða öllu leyti eftir atvikum. Sjóðstjórn setur nánari
almennar reglur um framkvæmd þessa heimildarákvæðis".
Svo sem að framan
greinir reiknaðist kæranda tekjutengd afborgun á árinu 2007 vegna tekna ársins
2006. Þá liggur enn fremur fyrir, þrátt fyrir takmarkaða vinnu hennar á árinu
2007, að henni mun einnig reiknast tekjutengd afborgun á árinu 2008 vegna tekna
ársins 2007. Fallist er á það með stjórn LÍN að kæranda hafi ekki tekist að sýna
fram á skyndilegar eða verulegar breytingar á högum sínum milli ára sem skerða
muni ráðstöfunarfé hennar eða möguleika til að afla tekna. Því eru ekki fyrir
hendi skilyrði til að fallast á beiðni hennar.
Hinn kærði úrskurður er
staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 3. október 2007 í máli kæranda er staðfestur.