Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-17/2007 - Búsetuskilyrði - búseta á Íslandi

Úrskurður

Ár 2008, fimmtudaginn 17. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-17/2007:

Kæruefni

Með bréfi dags. 1. nóvember 2007 var af hálfu kæranda kærður úrskurður stjórnar LÍN í máli hans. Með úrskurðinum synjaði stjórnin umsókn kæranda um námslán. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 22. nóvember sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar komu fram í bréfi dags. 5. desember sl.og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 20. desember sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir voru gerðar af hálfu kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er íslenskur ríkisborgari en flutti til Danmerkur árið 1998 og bjó þar uns hann flutti til Íslands sl. vor. Hann hóf flugvirkjanám í Teknisk Erhvervsskole Center í Danmörku síðastliðið haust en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru námslok hans áætluð í október 2010. Kærandi sótti um námslán fyrir námsárið 2007-2008 en umsókn hans var hafnað með bréfi LÍN dags. 31. júlí 2007 með þeim rökum að hann uppfyllti ekki skilyrði greinar 1.1. í úthlutunarreglum sjóðsins um lögheimili á Íslandi í tvö ár samfellt.

Af gögnum málsins sýnist kærandi byggja kröfu sína um námslán á því að verði beiðni hans um námslán hér á landi synjað, fái hann enga fyrirgreiðslu, hvorki hér á landi né í Danmörku, og verði að hverfa frá námi. Hann sæki í raun um námslán í um það bil 4 mánuði á ári í 4 ár þar sem hann verði í starfsnámi í 8 mánuði ár hvert.

Stjórn LÍN byggir synjun sína á því að kærandi uppfylli ekki það skilyrði 6. mgr. greinar 1.1. í úthlutunarreglum LÍN um að hafa átt lögheimili á Íslandi í tvö ár samfellt fyrir upphaf þess tímabils sem sótt er um námslán vegna eða átt lögheimili hér á landi í þrjú ár af síðustu tíu árum fyrir upphaf tímabilsins. Sé engin heimild til undanþágu frá þessu skilyrði. Þá vísar stjórn LÍN einnig til samhljóða ákvæðis í 3. og 4. mgr. 13. gr. laga um LÍN nr. 21/1992.

Niðurstaða

Í grein 1.1. í útlhutunarreglum LÍN er að finna almenn ákvæði um veitingu námslána. Þar segir í 6. mgr. að það sé skilyrði fyrir því að námsmaður fái aðstoð frá sjóðnum að hann hafi átt lögheimili á Íslandi í tvö ár samfellt fyrir upphaf þess tímabils sem sótt er um námslán vegna eða að hann hafi átt lögheimili hér á landi í þrjú ár af síðustu tíu árum fyrir upphaf tímabilsins. Ákvæðið fær samsvörun í 4. mgr. 13. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN þar sem fram kemur að til þess að njóta námslána frá sjóðnum þurfi viðkomandi að hafa haft fasta búsetu á Íslandi í tvö ár samfellt eða haft fasta búsetu hér á landi í þrjú ár af síðustu tíu árum fyrir upphaf þess tímabils sem sótt er um lán vegna. Samkvæmt því sem fram kemur í kæru og í fyrirliggjandi gögnum málsins er ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði framangreindra ákvæða laga og úthlutunarreglna. Engar heimildir eru samkvæmt lögum og reglum LÍN til að heimila undanþágu frá skilyrðum þessum. Með vísan til framanritaðs er framangreindur úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 3. október 2007 í máli kæranda er staðfestur

Til baka