Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-18/2007 - Námslengd - fimm ára regla

Úrskurður

Ár 2008, fimmtudaginn 31. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-18/2007.

Kæruefni

Með bréfi til málskotsnefndar LÍN kærði kærandi, kt. 170176-4809, úrskurð stjórnar LÍN frá 31. ágúst 2007, þar sem kæranda var synjað um námslán í lengri tíma en fimm ár samanlagt þar sem kærandi var ekki talin uppfylla undanþáguskilyrði í gr. 2.4.2. í úthlutunarreglum LÍN. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 22. nóvember sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dags. 6. desember sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 20. desember sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Ódagsett bréf barst frá kæranda dags. 8. janúar sl. þar sem hún kom á framfæri frekari athugasemdum í málinu.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi nam bóklega hluta blikksmíðar við Borgarholtsskóla og fékk námslán vorið 2000 og skólaárin 2000-2001 og 2001-2002, samtals í 5 misseri. Kærandi útskrifaðist síðan með sveinspróf í janúar 2005. Haustið 2005 hóf kærandi nám í byggingafræði í Danmörku. Það er skipulagt sem 7 missera nám. Samkvæmt því á hún að geta lokið náminu haustið 2008. Kærandi hefur fengið fullt námslán skólaárin 2005-2006 og 2006-2007, samtals í 4 misseri. Í vor fékk kærandi bréf frá LÍN þar sem athygli hennar var vakin á því að hún ætti ekki rétt á láni allan námstímann, sbr. reglur sjóðsins um hámarkslánstíma. Í hinum kærða úrskurði er staðfest að kærandi eigi einungis rétt á láni skv. almennum reglum sjóðsins í eitt misseri í viðbót, þ.e. samtals í 5 ár eða 10 misseri. Erindi kæranda um námslán vorið 2008 var því synjað. Á hinn bóginn var henni veitt undanþága og gefinn kostur á námslánið skólaárið sem hún lýkur náminu, sbr. staflið b) í gr. 2.4.2. í úthlutunarreglum LÍN.

Kærandi bendir á að hún hafi allt frá árinu 2000 verið haldin lesblindu auk þess sem hún hafi síðar greinst með athyglisbrest. Af þessum sökum óskar kærandi eftir undanþágu frá reglum LÍN um hámarkslánstíma sbr. staflið c) í gr. 2.4.2. úthlutunarreglna LÍN. Af hálfu LÍN er á það bent að kærandi hafi ekki á sínum námsferli tafist í námi vegna lesblindunnar eða athyglisbrestsins og hún hafi því ekki þurft á undanþágum að ræða varðandi kröfur um námsframvindu. Kærandi kveðst hafa þurft að beita sig mjög hörðu í náminu og að það sé ekki LÍN að þakka að hún hafi getað haldið áætlun heldur námsráðgjafa hennar í Borgarholtsskóla og því að hún hafi átt þess kost að taka munnleg próf. Að öðrum kosti hefði hún flosnað upp úr námi.

Niðurstaða

Óumdeilt er að almenna reglan er sú að námsmaður getur einungis fengið lán í 5 ár samanlagt hjá LÍN, eða samtals í 10 misseri, nema til komi undanþágur sem er að finna í gr. 2.4.2. í úthlutunarreglum LÍN. Í staflið c) þeirrar greinar er svohljóðandi skilyrði fyrir undanþágu að þessu leyti: "Hann hefur áður a.m.k. í sex misseri á námstíma fengið undanþágu frá almennum skilyrðum um námsframvindu skv. grein 2.3.3. vegna örorku eða lesblindu." Fyrir liggur að kærandi hefur ekki notið slíkra undanþága í sex misseri eða lengur og því verður ekki séð að skilyrði fyrir undanþágu í máli þessu séu fyrir hendi. Ekki eru fyrir hendi heimildir til að veita undanþáguna af þeim sökum einum að námið hafi reynst kæranda erfiðara vegna fötlunarinnar en ella hefði verið. Hinn kærði úrskurður er því staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 31. ágúst 2007 í máli kæranda er staðfestur. 

Til baka