Úrskurður
Ár 2008, miðvikudaginn 12. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-19/2007:
Kæruefni
Með bréfi dags. 30. nóvember 2007 kærði kærandi ákvörðun stjórnar LÍN. Með bréfi dags. 4. desember 2007 var stjórn LÍN tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Stjórn LÍN benti á það í bréfi sínu dags. 10. desember sama ár að mál kæranda hefði ekki farið fyrir stjórnina og óskaði eftir að málinu yrði vísað frá. Með bréfi dags. 19. desember sama ár var kæranda tilkynnt um frávísun málsins og leiðbeint um að hún gæti lagt erindi sitt undir stjórn LÍN og kært þann úrskurð til málskotsnefndar ef hún yrði ekki sátt við niðurstöðuna. Með bréfi dags. 14. janúar 2008 kærði kærandi úrskurð stjórnar frá 14. desember 2007 þar sem henni var synjað um frestun á námslokum hennar og staðfest að námslokin skyldu miðuð við 27. janúar 2006. Með bréfi dags. 21. janúar sl. var stjórn LÍN tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar komu fram í bréfi dags. 25. janúar sl. 5. desember sl. Afrit af bréfi stjórnar var sent kæranda með bréfi dags. 29. janúar sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir bárust frá kæranda ásamt frekari gögnum með bréfi dags. 3. febrúar sl.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi fékk námslán í sjö misseri á árunum 1997-1998, þ.e. í
tvö misseri vegna undirbúningsnáms við Viðskiptaháskólann á Bifröst, í tvö
misseri vegna viðskiptafræðináms í Danmörku og í þrjú misseri vegna náms í
margmiðlunarfræðum. Árið 1999 var námslokum kæranda frestað til 27. nóvember
sama ár. Kærandi hóf nám í hjúkrunarfræði í Danmörku haustið 2003 og fékk
námslán eftir haustmisseri 2003 og 2004. Haustið 2005 féllst LÍN á að fresta
námslokum kæranda fram til janúar 2006 með vísan til þess að hún hefði stundað
lánshæft nám án námslána. Hefur kærandi því fengið námslán í níu misseri en
fengið námslokum frestað í tvígang.
Með bréfi dags. 22. ágúst 2007 var
kæranda tilkynnt um ákvörðun námsloka vegna frágangs á skuldabréfi. Segir þar að
á árinu 2008 verði tvö ár liðin frá því að kærandi fékk síðast afgreitt námslán
eða skilaði síðast upplýsingum um lánshæfan námsárangur til sjóðsins og beri því
að ákveða námslok hennar við lok þess misseris sem kærandi skilaði síðast
lánshæfum námsárangri á námsárinu 2005-2006. Námslokin hafi því verið ákveðin
27. janúar 2006 og endurgreiðslur hefjist 30. júní 2008. Þann 14. október 2007
var kæranda sent bréf þar sem fram kemur að LÍN fallist á með henni að námslok
hennar hafi ekki verið rétt tilgreind við frágang skuldabréfs og því hafi
námslokum hennar verið frestað í samræmi við grein 2.5. í úthlutunarreglum
sjóðsins. Með bréfi dags. 18. sama mánaðar var kæranda tilkynnt að henni hefði
verið sent rangt bréf 14. október sama ár um breytt námslok. Hið rétta sé að
samkvæmt grein 2.5.4. í úthlutunarreglum LÍN sé ekki heimilt að fresta námslokum
ef námsmaður hefur fullnýtt það svigrúm sem hann eigi rétt á án þess að ljúka
náminu. Sjóðurinn geti því ekki fallist á að breyta námslokum kæranda og verði
þau því áfram skráð við lok síðasta aðstoðartímabils.
Kærandi byggir
kröfu sína á því að hún sé enn í námi og hafi staðist námskröfur skóla síns. Í
gögnum frá skólanum komi fram að hún ljúki lokaprófi í mars 2008 og við það beri
að miða námslok hennar. Kærandi byggir á því að hún hafi notið námslána í 8
misseri eða 4 ár. Námi hennar hafi seinkað vegna barnsfæðingar og þar sem hún sé
einstæð móðir með tvö börn. Kærandi kveðst alltaf hafa tilkynnt LÍN um
námsframvindu sína og námsárangur og það verið metið. Hún hafi því ekki gert ráð
fyrir að þurfa að borga afborgun námsláns svo fljótt sem sjóðurinn ráðgeri enda
búi hún við þröngan fjárhagslegan kost.
Kærandi bendir á að hún hafi
ekki farið á vanskilalista fyrr en árið 2005 þegar LÍN áætlaði námslok hennar
árið 2003 en dró síðan þá ákvörðun sína til baka. Þetta hafi valdið kæranda
kostnaði þar sem ein greiðslan hafi farið í lögfræðiinnheimtu og greiði hún nú
5.500 krónur á mánuði til lögmannsstofunnar vegna þessa. Greiðslugeta kæranda
þoli ekki frekari fjárútlát. LÍN hafi dregið seinni afborgun ársins 2005 til
baka og viðurkennt námslok kæranda. Kærandi óski eftir því að tekið verði mið af
gögnum málsins þar sem lagt hafi verið upp með lánsvilyrði fyrir átta önnum
haustið 2003 og tekið tillit til bágra fjárhagsaðstæðna kæranda. Þannig verði
felldar niður greiðslur hennar á námslánum og námslok miðuð við mars 2008.
Stjórn LÍN byggir synjun sína á því að kærandi hafi fengið námslán í níu
misseri og fengið frestun á námslokum sínum í tvö misseri. Teljist hún því hafa
fengið námsaðstoð í samtals 11 misseri sem samsvari heildarsvigrúmi hennar til
aðstoðar. Heildarsvigrúmið sé ákvarðað samkvæmt gerin 2.4.2. í úthlutnarreglum
LÍN að viðbættu einu misseri þar sem síðasta misseri hjúkrunarfræðináms í
Danmörku, þ.e. sjöunda misserið, teljist samkvæmt reglum sjóðsins á
framhaldsháskólastigi, sbr. grein 2.4.3. Varðandi bréf LÍN til kæranda 14.
október 2007 er á því byggt af hálfu stjórnar sjóðsins að leiðréttingin sem
fólst í bréfinu dags. 18. sama mánaðar standi, sbr. grein 5.9. í
úthlutunarreglum sjóðsins. Ákvörðun námsloka kæranda hafi engin áhrif á
afborganir hennar í fyrirsjáanlegri framtíð þar sem hún sé þegar byrjuð að
greiða af láni vegna fyrra náms. Samkvæmt reglum sjóðsins sé einungis greitt af
einu námsláni í einu og muni kærandi því ekki hefja endurgreiðslu af láni vegna
hjúkrunarfræðinámsins fyrr en eldra námslánið er uppgreitt.
Niðurstaða
Samkvæmt því sem fram kemur í síðasta málslið greinar 2.2.1. í
úthlutunarreglum LÍN telst námsmaður hafa fullnýtt svigrúm sitt þegar hann hefur
fengið lán eða frestun á námslokum í þann annafjölda sem heildarsvigrúm gerir
ráð fyrir. Samkvæmt því og með vísan til þess sem að ofan er rakið, hefur
kærandi notið námsaðstoðar, þ.e. námslána eða frestunar á námslokum, í 11
misseri. Að uppfylltum skilyrðum um námsframvindu getur námsmaður að hámarki
fengið lán í allt að fimm ár samanlagt, sbr. grein 2.4.2 í úthlutunarreglunum.
Kærandi hefur því fullnýtt svigrúm sitt til þess að ljúka námi. Teljast námslok
því réttilega ákveðin 27. janúar 2006.
Fram er komið að kæranda var sent
bréf með röngum upplýsingum um ákvörðun námsloka hennar þann 14. október 2007.
Þau mistök voru leiðrétt í bréfi til hennar fjórum dögum síðar. Í ljósi þessa og
þess að kærandi greiðir nú af öðru námsláni en því sem hér um ræðir og að
ákvörðun námsloka hennar vegna hjúkrunarnámsins hefur ekki áhrif á endurgreiðslu
þess láns, verður ekki talið að framangreind mistök breyti neinu um niðurstöðu
málsins. Þá verður ekki talið að unnt sé að fjalla um hugsanlega frestun á
endurgreiðslu námsláns vegna hjúkrunarnámsins enda er ljóst að fjárhæð
endurgreiðslunnar er óljós og hún ekki gjaldkræf fyrr en í júní 2008. Með vísan
til alls framanritaðs er hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 14. desember 2007 í máli kæranda er staðfestur.