Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-05/2008 - Skólagjöld - synjun um skólagjaldalán

Úrskurður

 

Ár 2008, miðvikudaginn 25. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-5/2008:

 

Kæruefni

 

Með bréfi dags. 17. apríl 2008 kærði kærandi, úrskurð stjórnar LÍN frá 4. apríl sl. þar sem staðfest var afgreiðsla LÍN á skólagjaldaláni til kæranda og hafnað ósk kæranda um fyrirgreiðslu til hennar vegna rangra upplýsinga, sem kærandi taldi sig hafa fengið um fjárhæð væntanlegs skólagjaldaláns. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 28. apríl sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dags. 9. maí sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 14. maí sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 20. maí sl.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi hóf sl. vetur dansnám við Trinity Leban skólann í London og sótti um lán til skólagjalda. Kærandi heldur því fram að hún hafi fengið rangar upplýsingar um lán til skólagjalda fyrir vetrurinn 2007-2008. Í því sambandi vísar kærandi til þess að inn á svæði kæranda á vefsetri LÍN hafi verið skráð undir skólagjöld GBP 6.335 fyrir önn I og GBP 6.335 fyrir önn II en í lánsáætlun hennar hafi aðeins verið skráð GBP 5.480 fyrir önn I. Kærandi heldur því fram að hún hafi fengið þau svör frá LÍN þegar hún leitaði eftir skýringum á lánsáætlun sinni hjá LÍN að skólagjaldahlutinn GBP 5.480 fyrir önn II yrði settur inn að lokinni útgreiðslu fyrir önn I þ.e. eftir áramót. 

Síðar hafi komið í ljós að heildarlán til kæranda hafi eingöngu numið GBP 5.480 fyrir allt skólaárið í stað GBP 10.960 svo sem kærandi hafi verið upplýstur um. Kærandi fer fram á að fá þá fyrirgreiðslu að heimiluð verði millifærsla milli ára til að kærandi njóti þeirrar fjárhagslegu stöðu sem upplýst hafi verið um af starfsmönnum sjóðsins að hún ætti að njóta. Ekki sé verið að fara fram á aukningu á heildarfyrirgreiðslu skólagjaldalána til kæranda. 

Stjórn LÍN hafnar erindi kæranda með vísan til 2. mgr. gr. 4.8. í úthlutunarreglum LÍN en þar segir að árlegt hámark skólagjaldaláns vegna sérnáms og almenns háskólanáms erlendis skuli vera 1/5 af samanlögðu hámarksláni skv. 4. mgr. greinarinnar. Hámark skólagjaldalána til námsmanna á Englandi er GBP 27.400 og 1/5 þar af nemur GBP 5.480. Stjórn LÍN vísar til þess að á svæði kæranda á vefsetri LÍN hafi fyrst verið færðar inn upplýsingar um raunveruleg skólagjöld hennar þ.e. GBP 6.335 fyrir haustönn og sama tala fyrir vorönn. Fyrsti útreikningur á lánsrétti kæranda var framkvæmdur þann 12. september 2007 og þar kom fram að skólagjaldalán hennar yrði GBP 5.480 fyrir námsárið í heild. Þá hafnar stjórn LÍN þeirri staðhæfingu kæranda að hún hafi fengið upplýsingar frá starfsmönnum LÍN um hærra lán en reglur sjóðsins heimila og gerir einnig þá kröfu til lánþega að þeir kynni sér úthlutunarreglur LÍN.

 

Niðurstaða

 

Í 2. mgr. gr. 4.8. í úthlutunaarreglum LÍN segir: "Skólaárið 2007-2008 skal árlegt hámark skólagjaldaláns vegna sérnáms og almenns háskólanáms erlendis vera 1/5 af samanlögðu hámarksláni skv. 4. mgr. þessarar greinar". Í fylgiskjali II með úthlutunarreglum LÍN kemur fram að hámark skólagjaldalána á Englandi nemur GBP 27.400 og nemur 1/5 hluti þeirrar fjárhæðar GBP 5.480. Kærandi fékk þá fjárhæð sem lán til skólagjalda á skólaárinu 2007-2008. 

Engin gögn hafa verið lögð fram um að starfsmenn LÍN hafi gefið misvísandi upplýsingar um lánsrétt kæranda. Upplýsingar um lánsfjárhæð kæranda lágu fyrir þegar um haustið 2007 og voru þá aðgengilegar á svæði kæranda á vefsetri LÍN. 

Með vísan til þessa er hinn kærði úrskurður staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN frá 4. apríl 2008 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka