Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-07/2008 - Ábyrgðarmenn - beiðni um afléttingu ábyrgðar

Úrskurður

 

Ár 2008, miðvikudaginn 25. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-7/2008:

 

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 27. apríl sl. kærði kærandi, úrskurð stjórnar LÍN frá 4. febrúar sl. þar sem synjað var beiðni hans um að hann yrði leystur undan sjálfsskuldarábyrgð á námsláni bróður hans. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 30. apríl sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar komu fram í bréfi dags. 9. maí sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 14. maí en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Með bréfi dags. 26. maí sl. komu fram frekari athugasemdir af hálfu kæranda. Málskotsnefnd óskaði eftir frekari upplýsingum hjá LÍN um rekstur málsins hjá sjóðnum og bárust þær nefndinni 18. júní sl.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi er ábyrgðarmaður á námsláni bróður síns. Lán bróður kæranda er svonefnt S-lán en að baki því eru svokölluð T-skuldabréf á árunum 1982-1989. Skráðir ábyrgðarmenn eru A, B og C. Ábyrgð A er tæp 74%, B 17% og C 9% en allir ábyrgðarmennirnir eru nú látnir. 

Lán þetta er verðtryggt en án vaxta og nemur höfuðstóll eftirstöðva 2.424.839 krónum. Hefur lánið verið samfellt í vanskilum frá því í september 2002 og í innheimtu hjá lögmönnum síðan 22. nóvember 2002. Fyrsti gjalddagi lánsins var 1. september 1995 en þegar A ábyrgðarmaður lést árið 1997 voru allar afborganir lánsins í vanskilum. Dánarbú A var tekið til einkaskipta en auk lánþega voru bræður hans erfingjar A, þeir kærandi, D og E. Með uppgjöri á mynduðum afborgunum og útgáfu sérstaks skuldabréfs hafi láni lánþega verið komið í skil 15. ágúst 2002. Aftur komst lánið í vanskil og vorið 2003 kannaði lánþegi möguleika á skuldbreytingu vegna vanskilanna en ekkert varð úr henni. Árið eftir voru þeir D og kærandi í sambandi við LÍN vegna lánsins og samþykkti stjórn sjóðsins þá niðurfellingu á tekjutengdu afborgun ársins 2003 en lánið var áfram í vanskilum. Hjá LÍN eru engin samskipti vegna þessa skráð eftir árið 2004 fyrr en kærandi hafði samband við sjóðinn í nóvember 2007 í því augnamiði að ljúka málinu. Með bréfi til stjórnar LÍN dagsettu 21. janúar sl. fór kærandi fram á það að hann og bræður hans D og E yrðu leystir undan ábyrgð á námslánum bróður síns. Eins og rakið er hér að framan hafnaði stjórn LÍN þeirri beiðni með úrskurði dagsettum 1. febrúar sl. 

Kærandi byggir kröfu sína á því að lántaki hafi notfært sér vankunnáttu kæranda og bræðra hans þegar hann hafði forgöngu um það að bú móður þeirra, A, var tekið til einkaskipta. Árið 2002 hefðu kærandi, D og E fengið tilkynningu um að lánið væri komið í vanskil og að ekkert hefði verið greitt af því frá árinu 1995. Þá fyrst hefðu þeir vitað af því að þeir urðu ábyrgðarmenn á láninu við einkaskipti á dánarbúi móður þeirra. Á árinu 2004 hefðu þeir síðan frétt að ekkert hefði verið greitt af bréfinu frá því 1. september 2002, eða hálfum mánuði eftir að bréfinu hafði verið komið í skil af þeim bræðrum. Lánþegi hefði tilkynnt bræðrunum að búið væri að koma málunum í lag í eitt skipti fyrir öll en það hefði síðan ekki verið fyrr en árið 2007 sem þeir bræður hefðu fengið tilkynningu um að ekkert hefði verið greitt og að allir gjalddagar frá 1. september 2002 væru ógreiddir. Enginn viti nú hvar lánþegi heldur sig og hafi bræðrunum ekki tekist að ná sambandi við hann. Ljóst sé að lánþegi muni ekki greiða námslán sín. Kærandi byggir á því að lög og reglugerðir um LÍN gefi fullt svigrúm til þess að fella niður ábyrgð námslána, sem til er komin við fráfall ábyrgðarmanns, vegna framangreindra aðstæðna. 

Stjórn LÍN byggir synjun sína á erindi kæranda á því að samkvæmt grein 5.3.2. í úthlutunarreglum LÍN sé óheimilt að fella niður ábyrgðarmenn af námsláni nema nýr ábyrgðarmaður komi í staðinn sem uppfyllir skilyrði sjóðsins um ábyrgðarmenn. Önnur niðurstaða en sú, sem fram komi í úrskurði stjórnar LÍN í málinu, væri andstæð hagsmunum sjóðsins og ekki í samræmi við þær skuldbindingar sem ábyrgðarmaður hefur gengist undir. Stjórn sjóðsins hafi engin tök á að ganga úr skugga um ætlaðar blekkingar við einkaskipti á dánarbúi móður lántakanda.

 

Niðurstaða

 

Í 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN er gert ráð fyrir því að námsmaður, sem þiggur námslán, leggi fram yfirlýsingu að minnsta kosti eins ábyrgðarmanns sem taki að sér sjálfsskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins. Í 7. mgr. sömu lagagreinar segir að stjórn sjóðsins ákveði hvaða skilyrðum lántakendur og ábyrgðarmenn skuli fullnægja. Þar segir jafnframt að ábyrgð ábyrgðarmanns geti fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins meti fullnægjandi. Samkvæmt ákvæðum greinar 5.3.3. í úthlutunarreglum LÍN getur lántakandi útvegað nýjan ábyrgðarmann ef upphaflegur ábyrgðarmaður deyr en að öðrum kosti taka erfingjar hins látna við ábyrgðinni eftir almennum reglum ef erfingjar hafa á annað borð tekið á sig ábyrgð á skuldum dánarbúsins. Óumdeilt er að búi ábyrgðarmannsins A var skipt einkaskiptum og liggur fyrir að kærandi og bræður hans eru erfingjar hennar ásamt lántakanda. Lántakandi hefur hvorki útvegað nýjan ábyrgðarmann að láninu né sett aðra tryggingu sem stjórn LÍN metur fullnægjandi. Engin heimild er því í lögum og reglum um LÍN til þess að fella niður ábyrgð kæranda og bræðra hans á láni lánþega án þess að annar ábyrgðarmaður eða annars konar ábyrgð, sem stjórn sjóðsins samþykkir, komi í staðinn. Með vísan til framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN frá 1. febrúar 2008 í máli kæranda er staðfestur.

 
Til baka