Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-04/2008 - Búsetuskilyrði - búseturegla

Úrskurður

Ár 2008, miðvikudaginn 16. júlí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-4/2008:

Kæruefni

Með bréfi dags. 10. mars 2008 kærði xxx f.h. kæranda, úrskurð stjórnar LÍN frá 14. desember 2007 þar sem kæranda var hafnað um aðstoð frá LÍN á grundvelli þess að hann hafði ekki átt lögheimili á Íslandi síðustu tvö ár fyrir upphaf þess tímabils sem sótt var um námslán vegna eða í þrjú ár af síðustu tíu árum fyrir upphaf tímabilsins. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 12. mars sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dags. 19. mars sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 10. apríl sl. en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir komu frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi flutti til Bretlands 1. júlí 1999 aftur til Íslands 21. ágúst 2007 og sótti þá um námslán. Stjórn LÍN hafnaði lánsumsókn hans á grundvelli 6. mgr. gr. 1.1. í úthlutunarreglum LÍN þar sem það er gert að skilyrði fyrir því að námsmaður fái aðstoð frá sjóðnum að hann hafi átt lögheimili á Íslandi í tvö ár samfellt fyrir upphaf þess tímabils sem sótt er um námslán vegna eða að hann hafi átt lögheimili hér á landi í þrjú ár af síðustu tíu árum fyrir upphaf tímabilsins. Ákvæðið fær einnig stoð í 4. mgr. 13. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN.

Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi búið erlendis vegna atvinnu foreldra hans en ekki vegna hans eigin vilja. Hann kveður föður sinn vera íslenskan ríkisborgara sem og hann sjálfan. Þá njóti bróðir hans, sem var eldri þegar foreldrar þeirra fluttu út, aðstoðar LÍN við nám í Edinborg, þar sem hann hafi uppfyllt skilyrði um búsetu á Íslandi á síðustu 10 árum áður en nám hans hófst. Kærandi tekur sérstaklega fram að hann telji reglur LÍN brot á reglum EES þar sem m.a. sé kveðið á um frjálsa flutninga fólks. Þá telur kærandi regluna augljóslega mismuna fólki þar sem bróðir hans njóti annarra kjara að þessu leyti en hann sjálfur nýtur sbr. það sem að framan er rakið.

Af hálfu stjórnar LÍN er því mótmælt að reglur sjóðsins brjóti í bága við reglur EES. Lög LÍN falli ekki beint undir EES-samninginn, en samkvæmt honum eigi farandlaunþegar og nánasta fjölskylda þeirra að njóta sömu félagslegra réttinda og ríkisborgarar dvalarlandsins. Á þeim grunni geti menn átt rétt á námsaðstoð en þau réttindi geti eðli máls samkvæmt aldrei orðið ríkari en gildi almennt. Framangreind búseturegla sé almenn og óháð ríkisfangi. Bent er á að áður en kærandi sótti um íslenska námsaðstoð hafi hann verið búsettur á Bretlandi og notið þar ákveðinna réttinda umfram íslenska ríkisborgara sem voru búsettir annars staðar.

Niðurstaða

Málskotsnefnd LÍN telur 4. mgr. 13. gr. laga nr. 21/1992 og 6. mgr. gr. 1.1. í úthlutunarreglum LÍN hafa að geyma fortakslaus og skýr ákvæði þess efnis að einungis þeir sem hafi átt lögheimili á Íslandi í tvö ár samfellt fyrir upphaf þess tíma sem sótt er um námslán vegna eða átt lögheimli hér á landi í þrjú ár af síðustu tíu árum fyrir upphaf tímabilsins geti átt rétt á láni frá sjóðnum. Fyrir liggur að kærandi máls þessa uppfyllir þessi skilyrði ekki og á því ekki rétt á námsaðstoð sem stendur.

Ekki er fallist á það sjónarmið kæranda að framangreindar reglur feli í sér brot á reglum EES, enda á framangreind búseturegla við um alla og er þar með ekki sérstaklega bundin við þá sem ekki eru íslenskir ríkisborgarar.

Með vísan til þessa er hinn kærði úrskurður staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 14. desember 2007 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka