Úrskurður
Ár 2008, fimmtudaginn 21. ágúst, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-6/2008:
Kæruefni
Með bréfi dags. 30. apríl 2008 kærði kærandi úrskurð stjórnar
LÍN frá 4. apríl sl. þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá greiðslu á
fastri afborgun af námsláni sínu.
Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með
bréfi dags. 30. apríl sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana.
Kæranda var sent afrit bréfsins. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi
dags. 9. maí sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. 14. maí sl. en
þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari
sjónarmiðum sínum. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 16. maí sl.
Með bréfi dags. 4. júní sl. óskaði málskotsnefnd eftir því að kærandi
veitti henni upplýsingar um áætlaðar tekjur hennar á árinu 2008, bæði
launatekjur og aðrar tekjur. Var stjórn LÍN sent afrit af bréfinu sama dag. Svör
kæranda koma fram í bréfi hennar dags. 10. júní sl. og meðfylgjandi gögnum.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi stundar nám í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík.
Kærandi fór þess á leit við stjórn LÍN að fá undanþágu frá greiðslu á fastri
afborgun af námsláni sínu með gjalddaga 1. mars 2008. Rökstuðning sinn byggði
kærandi á að greiðslubyrði hennar væri mjög mikil, hún væri einstæð móðir með
þrjú börn á framfæri á aldrinum 10-17 ára og átti von á barni, sem hún eignaðist
þann 11. apríl sl. Þá benti kærandi á að tekjur hennar hafi verið skertar frá
áramótum 2007 þar sem yfirvinna hjá vinnuveitanda hennar var að mestu lögð niður
og að hún færi í fæðingarorlof sem leiddi til enn frekari tekjuskerðingar. Að
lokum benti kærandi á að möguleikar hennar á aukavinnu yrðu ekki til staðar á
þessu ári þar sem hún væri með kornabarn á framfæri.
Kærandi hefur lagt
fram gögn sem staðfesta að greiðslubyrði hennar er mjög mikil. Einnig hefur
kærandi að beiðni málskotsnefndar lagt fram áætlun um tekjur sínar á árinu 2008
sem kærandi áætlar u.þ.b. kr. 2.400.000. Stjórn LÍN hafnar erindi kæranda með
vísan til þess að tekjur kæranda á árinu 2007 hafi verið kr. 4.565.898 og að
tekjur þess árs hafi að auki verið 17,2% hærri en árið á undan. Þá bendir
stjórnin einnig á að kæranda muni auk þess reiknast tekjutengd afborgun á árinu
2008 þar sem tekjur kæranda eru vel yfir viðmiðunarmörkum sem eru kr. 1.900.000
og að undanþága frá fastri afborgun verði alla jafna ekki veitt þegar þannig
standi á. Stjórnin vísar einnig til þess að barnsburður kæranda og væntanleg
tekjuskerðing af þeim sökum á árinu 2008 verði ekki jafnað við skyndilegar og
verulegar breytingar á högum hennar milli ára sem jafna megi við slys eða
alvarleg veikindi.
Niðurstaða
Í gr. 7.4.1. í úthlutunarreglum LÍN segir: "Nú gefur
útsvarsstofn vegna tekna á fyrra ári ekki rétta mynd af fjárhag lánþega á
endurgreiðsluári, vegna skyndilegra og verulegra breytinga sem hafa orðið á
högum hans milli ára, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er
skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Ef lánþegi
gerir skriflega grein fyrir þessum breyttu högum sínum og styður hana tilskildum
gögnum, er sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu,
ýmist til lækkunar eða niðurfellingar á greiðslum, eftir atvikum".
Þó fyrir liggi að ráðstöfunartekjur kæranda komi til með að lækka á
árinu 2008 eru ástæður þess hvorki að rekja til alvarlegra veikinda né slyss.
Tekjur kæranda koma auk þess til með að verða vel yfir viðmiðunarmörkum LÍN um
greiðslu á tekjutengdri afborgun á árinu 2008. Ekki verður því séð að beiðni
kæranda um undanþágu frá greiðslu fastrar afborgunar á árinu 2008 falli undir
ofangreint undaþáguákvæði í úthlutunarreglum LÍN.
Með vísan til þessa er
hinn kærði úrskurður staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 4. apríl 2008 í máli kæranda er staðfestur.