Úrskurður
Ár 2008, fimmtudaginn 21. ágúst, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-8/2008:
Kæruefni
Með kæru dagsettri 10. maí sl. kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 28. febrúar sl. þar sem kæranda var synjað um námslán. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dags. 16. maí sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar komu fram í bréfi dags. 29. maí sl. og var afrit þess sent kæranda með bréfi dags. sama dag. Með bréfi dags. 2. júní sl. var kæranda sent afrit af bréfi stjórnar LÍN og jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Með bréfi dags. 12. júní sl., sem barst málskotsnefnd 23. þess mánaðar, komu fram frekari athugasemdir af hálfu kæranda. Með bréfi dags. 30. júní sl. óskaði málskotsnefnd eftir því að kærandi veitti henni upplýsingar um það hvort skiptum væri lokið á búi hans og jafnframt hver væri fjárhagsleg staða kæranda að öðru leyti. Var stjórn LÍN sent afrit af bréfinu sama dag. Svör kæranda koma fram í bréfi hans dags. 11. júlí sl. og meðfylgjandi gögnum.
Málsatvik og ágreiningsefni
Bú kæranda var tekið til gjaldþrotaskipta 2003 en skiptum á
búinu lauk 2. febrúar 2005. Kærandi hefur lokið BA námi í lögfræði við Háskólann
í Reykjavík og stundar nú meistaranám í sömu grein við skólann sem hann kveðst
munu ljúka á haustönn 2009. Kærandi sótti um námslán vegna skólagjalda og liggur
fyrir að Landsbanki Íslands hf. hefur með bréfi dags. 30. janúar sl. tekist á
hendur ábyrgð vegna endurgreiðslu námslána kæranda gagnvart LÍN. Er ábyrgðin
veitt fyrir skólaárið 2007 til 2008 og gildir í 15 ár frá lokum skólaárs og
miðast upphæð ábyrgðarinnar við veitt námslán á viðkomandi skólaári. Jafnframt
er mælt fyrir um að ábyrgðartaki veiti LÍN heimild til að innheimta
ábyrgðargjald og afgreiðslugjald og skila þeim til Landsbankans við útborgun
lánsins.
Kærandi byggir kröfu sína á ákvæðum 5. mgr. 6. gr. laga nr.
21/1992 um LÍN og grein 5.1.8. í úthlutunarreglum sjóðsins. Í framangreindu
ákvæði úthlutunarreglnanna sé vísað til þriggja þátta, tveggja hlutlægra og eins
huglægs. Huglægi þátturinn snúi að því mati stjórnar LÍN hverju sinni á því
hvort umsækjandi um námslán teljist vera tryggur greiðandi eða ekki. Ljóst sé af
fyrirliggjandi gögnum að kærandi sé ekki í vanskilum við sjóðinn og bú hans sé
ekki undir gjaldþrotaskiptum auk þess sem fyrir liggi að hann njóti fulls
trausts viðskiptabanka síns sem sé tilbúinn að tryggja skilvísar greiðslur til
LÍN á næstu 15 árum. Það sé því ekki í neinu samræmi við efni umsóknar kæranda
eða lög um sjóðinn að hafna ábyrgð virtustu fjármálastofnunar landsins með þeim
hætti sem sjóðurinn geri.
Kærandi vísar til þess að krafa LÍN um að á
láni kæranda sé ábyrgðarmaður umfram viðurkenndan ábyrgðaraðila til að tryggja
með tvöföldum hætti þá endurgreiðslu sem til umsóknar sé, hafi í för með sér
íþyngjandi og hamlandi áhrif á framvindu náms hans. Athugasemdir sjóðsins séu
hvorki studdar haldbærum rökum né tilvísunum til lagagreina eða
úthlutunarreglna. Stjórnin vísi til ákvæða í grein 5.3.2. í úthlutunarreglum
sjóðsins þar sem stjórninni sé veitt heimild til að viðurkenna ábyrgð
viðurkenndrar fjármálastofnunar sem háð er eftirliti Fjármálaeftirlitsins.
Landsbanki Íslands hf. uppfylli þau skilyrði ákvæðisins og því verði ekki
fullyrt að bankinn sé ekki tryggur ábyrgðaraðili fyrir lánsumsókn kæranda. Þá
verði ekki séð að í 6. gr. laga nr. 21/1992 sé það gert að skilyrði að ábyrgð
til viðbótar fyrrgreindri ábyrgð bankans sé nauðsynleg. Vísar kærandi til þess
að lögunum hafi verið breytt á þann hátt að í stað þess að gera að skilyrði að
tveir ábyrgðarmenn ábyrgðust námslán, væri nú nægjanlegt að hafa einn
ábyrgðarmann. Í máli þessu hafi ekki verið opnað fyrir þann möguleika af hálfu
stjórnar LÍN að fara mildari leið fyrir kæranda, svo sem með því að setja
tímamark á endurgreiðslu við þann árafjölda sem bankinn er ábyrgur fyrir, sem þó
hljóti að koma til skoðunar þar sem stjórnvaldi sé skylt að beita meðalhófsreglu
og ganga ekki lengra en nauðsyn krefur hverju sinni.
Kærandi kveður
stjórn LÍN byggja huglægt mat sitt á stöðu kæranda á fimm ára gömlum upplýsingum
og sé það ekki í tengslum við það hvort hann sé eða geti verið ábyrgur fyrir
þeirri lánveitingu sem sótt sé um. Það hljóti að vera á verksviði stjórnarinnar
að virða meðalhófsregluna í stað þess að setja svo hamlandi fyrirkomulag að það
setji framvindu náms kæranda í óvissu. Gangi það þvert á markmið 1. gr. laga um
LÍN þar sem segi að hlutverk sjóðsins sé að tryggja þeim, sem falla undir lögin,
tækifæri til náms án tillits til efnahags. Loks bendir kærandi á að hann hafi
lokið fyrstu önn í meistaranámi sínu í lögum með meðaleinkunnina 7,90 og hafi
því staðist allar kröfur um námsframvindu.
Stjórn LÍN byggir synjun sína
á erindi kæranda á því að samkvæmt grein 5.1.8. í úthlutunarreglum LÍN þurfi
lánþegi m.a. að uppfylla það skilyrði að hann sé ekki í vanskilum við sjóðinn
þegar sótt er um nýtt lán og að bú hans sé ekki til gjaldþrotameðferðar eða að
hann teljist af öðrum ástæðum bersýnilega ótryggur lántakandi. Bendir stjórn LÍN
á að kærandi hafi verið á vanskilaskrá Lánstrausts hf. vegna gjaldþrots árið
2003 og hefði hann því talist bersýnilega ótryggur lántakandi. Í samræmi við
ákvæði síðasta málsliðar greinar 5.1.8. í úthlutunarreglunum hafi kæranda verið
bent á að hann gæti fengið námslán afgreitt með undanþágu ef hann tilgreindi
annan aðila sem væri tilbúinn til að tryggja endurgreiðslu námsláns hans til
viðbótar fyrri ábyrgðarmanni. Kærandi hafi tilnefnt Landsbanka Íslands hf. á
umsókn sinni um námslán sem ábyrgðaraðila í stað ábyrgðarmanns. Ábyrgð, sbr.
grein 5.3.2. í úthlutunarreglum sjóðsins og 6. gr. laga nr. 21/1992 um sjóðinn,
sé skilyrði lánveitingar og sé til viðbótar skilyrðum sem lánþeginn sjálfur
þurfi að uppfylla, sbr. grein 5.1.8. Undanþága frá síðarnefndu skilyrðunum
krefjist viðbótarábyrgðar, þ.e. að ótryggur lánþegi geti talist tryggur
lántakandi.
Þá bendir stjórn LÍN á að ábyrgð lögpersónu í stað
einstaklings sé háð ákveðnum skilyrðum og um hana gildi tilteknar reglur, m.a.
hvað tímalegnd ábyrgðar varðar, sbr. 2. mgr. greinar 5.3.2. í reglum sjóðsins.
Það sé þannig mat stjórnar að bankaábyrgð jafngildi sjálfskuldarábyrgð
einstaklings, sbr. heimild skv. 7. mgr. 6. gr. laga um sjóðinn til að samþykkja
aðrar tryggingar en ábyrgð ábyrgðarmanns. Almennt gildi sömu reglur um ábyrgð
lögpersónu og gildi um sjálfskuldarábyrgð einstaklinga, sbr. síðasta málslið 2.
mgr. greinar 5.3.2. í reglum sjóðsins. Bankaábyrgð geti með öðrum orðum tryggt
stöðu lánþega sem annars væri bersýnilega ótryggur lántakandi eða komið í stað
sjálfskuldarábyrgðar einstaklings, en aldrei samtímis. Ekkert dæmi sé um að lán
hafi verið samþykkt til ótryggs lántakanda með sjálfsskuldarábyrgð eins
ábyrgðarmanns.
Niðurstaða
Í 7. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN segir að stjórn
sjóðsins ákveði hvaða skilyrðum lántakendur og ábyrgðarmenn skuli fullnægja og
eru skilyrði, sem lánþegar þurfa að uppfylla, tilgreind í grein 5.1.8. í
úthlutunarreglum LÍN. Kemur þar fram að lánþegar þurfi m.a. að uppfylla þau
skilyrði að þeir séu ekki í vanskilum við sjóðinn, þegar sótt er um nýtt lán og
bú þeirra sé ekki til gjalþrotameðferðar eða að þeir teljist af öðrum ástæðum
bersýnilega ótryggir lántakendur. Þá kemur fram í ákvæðinu að teljist námsmaður
ótryggur lántakandi samkvæmt ofangreindu, geti hann sótt um undanþágu frá
þessari grein enda sýni hann fram á annað, eða að hann leggi fram aðrar ábyrgðir
sem sjóðurinn telur viðunandi.
Ekkert er fram komið um að kærandi sé í
vanskilum við LÍN. Hins vegar liggur fyrir að bú kæranda var tekið til
gjaldþrotaskipta árið 2003 vegna ábyrgða hans á skuldum fyrirtækis sem hann kom
að. Skiptum á búinu lauk 2. febrúar 2005 eins og áður er rakið. Þá hefur kærandi
lýst því að hann sé í viðræðum við kröfuhafa um niðurfellingu á hluta krafna
þeirra í þrotabúið og hafi einhverjum málum þegar verið lokið með þeim hætti en
áætlaður heildarkostnaður við þessa samninga sé um það bil fjórar milljónir
króna. Kærandi stundar með námi sínu störf sem framkvæmdastjóri hjá xxxx á
Íslandi og af framlögðum skattskýrslum 2006 og 2007 má ráða að árlegar
atvinnutekjur hans hafi numið yfir fimm milljónum króna.
Að framanrituðu
virtu sýnist kærandi uppfylla tvö þeirra skilyrða, sem lánþegar þurfa að
uppfylla samkvæmt framangreindri grein 5.1.8., að því leyti að hann er hvorki í
vanskilum við LÍN né er bú hans til gjaldþrotameðferðar. Kemur þá til álita
hvort kærandi teljist bersýnilega ótryggur lántakandi í skilningi ákvæðisins.
Mat stjórnar LÍN að þessu leyti byggist á því að nafn kæranda er að finna í
vanskilaskrá fyrirtækisins Lánstrausts hf. vegna gjaldþrotsins frá 2003. Fallast
má á að slík skráning gefi vísbendingu um fjárhagslega stöðu viðkomandi. Á hitt
ber þó að líta að fimm ár eru nú liðin frá því að bú kæranda var tekið til
gjaldþrotaskipta og rúm þrjú ár síðan skiptum á búinu var lokið. Þá liggja fyrir
í málinu áðurgreindar upplýsingar um tekjur kæranda og fjárhag og um að hann
eigi í viðræðum við kröfuhafa um niðurfellingu krafna að hluta. Að þessu virtu
þykir ekki tækt að byggja mat á því, hvort kærandi er bersýnilega ótryggur
lántakandi, einvörðungu á því að nafn hans er að finna í áðurnefndri
vanskilaskrá og verður að telja að sú niðurstaða sé ekki í samræmi við
meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Í ljósi þessa og þegar litið er til þess að
framlögð ábyrgð Landsbanka Íslands hf. á láni kæranda uppfyllir skilyrði greinar
5.3.2., verður ekki talið að niðurstaða stjórnar LÍN sé í samræmi við lög og
reglur um sjóðinn. Verður framangreind ákvörðun stjórnar LÍN um að hafna
lánsumsókn kæranda því felld úr gildi.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 28. febrúar 2008 í máli kæranda er felldur úr gildi.