Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-02/2005 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá tekjutengdri afborgun

Úrskurður

Ár 2008, fimmtudaginn 16. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-2/2005.

Kæruefni

Með kæru dags. 25. apríl 2005 kærði kærandi þá ákvörðun stjórnar LÍN frá 13. desember 2004 að reikna kæranda tekjutengda afborgun 1. september 2004 af áætluðum tekjum hans erlendis. Þar sem kærufrestur var liðinn var máli kæranda vísað frá málskotsnefnd LÍN og var kæranda tilkynnt um það með bréfi dags. 3. maí 2005.

Í framhaldi af kvörtun kæranda til umboðsmanns Alþingis og áliti hans dags. 24. mars 2006 kvað málskotsnefnd LÍN upp úrskurð dags. 6. febrúar 2007 og staðfesti ákvörðun stjórnar LÍN þess efnis að reikna kæranda tekjutengda afborgun 1. september 2004 af áætluðum tekjum hans erlendis.

Kærandi leitaði á ný til umboðsmanns Alþingis vegna úrskurðarins frá 6. febrúar 2006 og er álit umboðsmanns Alþingis dags. 22. apríl 2008 í málinu nr. 4997/2007. Í niðurstöðukafla álitsins kemur fram að umboðsmaður beinir þeim tilmælum til málskotsnefndar að hún taki málið fyrir að nýju komi fram beiðni um það frá kæranda. Með bréfi dags. 21. maí sl. óskaði kærandi eftir því að málskotsnefnd tæki mál sitt fyrir á nýjan leik. Á fundi nefndarinnar 13. júní sl. var ákveðið að taka mál kæranda til efnislegrar meðferðar og var stjórn LÍN í bréfi dags. 19. júní sl. tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf stjórnar LÍN dags. 26. júní sl. Með bréfi dags. 30. júní sl. var kæranda kynnt efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um það. Bréf kæranda er dags. 10. júlí sl. Þá barst málskotsnefnd LÍN bréf frá kæranda dags. 2. september sl. þar sem kærandi ítrekar sjónarmið sín.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundaði nám í Bandaríkjunum og naut því námslána frá LÍN árin 1992-1995. Þá hefur eiginkona kæranda stundað nám í Bandaríkjunum frá árinu 2000 og þegið íslenskt námslán vegna þess. Í framlögðu búsetuvottorði dags. 11. maí sl. kemur fram að kærandi hafi frá árinu 1991 átt lögheimili á Íslandi og liggur fyrir skattframtal hans vegna tekna ársins 2003. LÍN áætlaði tekjur ársins 2003 á kæranda við útreikning tekjutengdrar afborgunar hans af námsláni með gjalddaga 1. september 2004. Kærandi kvartaði yfir þessu við sjóðinn en af hálfu sjóðsins var því borið við að tekjur hans hefðu verið áætlaðar þar sem hann dveldist í Bandaríkjunum og einu upplýsingarnar frá skattinum um tekjur þeirra hjóna sýndu kr. 0. Var þess óskað að kærandi sendi sjóðnum svonefnt FORM 1040 og W-2 launamiða ef hann teldi fram í Bandaríkjunum en ef hann hefði ekki atvinnuleyfi ætti hann að senda sjóðnum ljósrit úr vegabréfi sínu. Þessu hafnaði kærandi með vísan til þess að hann væri skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og þyrfti því ekki að leggja fram gögn frá Bandaríkjunum.

Af hálfu stjórnar LÍN er vísað til þess að skv. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN skuli, ef lánþegi er ekki á endurgreiðslutímanum skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum, gefinn kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og sé hámark árlegrar endurgreiðslu ákveðið í samræmi við það. Ef lánþeginn hins vegar geri þetta ekki eða ef talið er að upplýsingar hans séu ósennilegar og ekki hægt að sannreyna útsvarsstofn samkvæmt því, skuli stjórn LÍN áætla lánþeganum útsvarsstofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu. Samkvæmt íslensku skattframtali ársins 2004 hafi kærandi og eiginkona hans bæði verið tekju- og eignalaus á árinu 2003. Þá hafi kærandi ekki skilað inn upplýsingum um erlendar tekjur sínar á árinu 2003 en þar sem framangreindar upplýsingar hans um tekjur ársins 2003 hafi þótt ósennilegar, hafi tekjur hans verið áætlaðar til útreiknings á tekjutengdu afborguninni 1. september 2004, sbr. 3. mgr. greinar 7.3. í úthlutunarreglum sjóðsins.

Í athugasemdum stjórnar LÍN frá 26. júní sl. er sérstaklega mótmælt endurupptöku málsins þar sem ekkert nýtt hafi komið fram og að frestir til endurupptöku málsins séu liðnir samkv. 24. grein stjórnsýslulaga. Þá er einnig bent á að niðurstaða umboðsmanns Alþingis leiði til þess að jafnræðis verði ekki gætt meðal lánþega þ.e. þeirra sem stunda nám í löndum þar sem tvísköttunarsamningar eru í gildi og hinna.

Kærandi vísar til þess að hann sé búsettur og eigi lögheimili í Reykjavík og þar af leiðandi skattskyldur af öllum tekjum og eignum á Íslandi. Hann hafi skilað skattskýrslu fyrir árið 2003 þar sem fram komi að hann hafi verið tekjulaus en eiginkona hans sé í doktorsnámi í Bandaríkjunum og þiggi til þess lán frá LÍN. Kærandi byggir á því að hvergi í lögum, sem gilt hafi árið 2003-2004, komi fram að LÍN geti krafið lánþega, sem eru skattskyldir af öllum tekjum og eignum á Íslandi, um upplýsingar um laun erlendis eða áætlað laun á þá sem dvelja í lengri eða skemmri tíma í útlöndum. Ljóst sé að LÍN geti einungis áætlað laun á þá sem annað hvort skili ekki skattskýrslu eða eru búsettir erlendis og eru ekki skattskyldir af öllum tekjum og eignum á Íslandi og þær upplýsingar um tekjur annars staðar sem þeir gefa upp eru ósennilegar. Hvorugt eigi við um kæranda og því komi undantekningarákvæði 10. gr. laga um LÍN ekki til álita í máli kæranda.

Kærandi telur að ef LÍN hefði rétt til þess að krefja lánþega sem skila skattskýrslu um staðfestingu á því að þeir hafi ekki laun í öðrum löndum, eins og raunin sé í þessu máli, væri sönnunarbyrðin flutt yfir á lánþega í öllum tilfellum, sama hvaða upplýsingar um tekjur lægju fyrir í skattskýrslu. Gæfi þetta starfsmönnum sjóðsins einnig óskorað vald til þess að áætla tekjur á hvern sem er ef fjárhæð launatekna á skattskýrslunni hentaði þeim ekki.

Niðurstaða

Málskotsnefnd LÍN ákvað að endurupptaka mál þetta þrátt fyrir mótmæli stjórnar LÍN með vísan til þess að um veigamikla hagsmuni er að ræða fyrir kæranda.

Í 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN kemur fram að árleg endurgreiðsla ákvarðist í tvennu lagi, annars vegar föst greiðsla en hins vegar viðbótargreiðsla sem er háð tekjum fyrra árs. Síðan segir í 3. mgr. 10. gr. sömu laga: "Sé lánþegi á endurgreiðslutímanum ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum skal honum gefinn kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og skal árleg viðbótargreiðsla ákveðin í samræmi við það. Geri hann það ekki eða telja verður upplýsingar hans ósennilegar og ekki unnt að sannreyna tekjustofn samkvæmt því skal stjórn sjóðsins áætla honum tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu."

Fram er komið að kærandi lagði fram hjá LÍN skattframtal 2004 sem sýnir að hann hafði engar tekjur á árinu 2003. Niðurstaða máls þessa byggir á því hvort stjórn LÍN hefur heimild til að óska eftir upplýsingum frá kæranda um tekjur hans svo sem segir í tilvitnaðri grein hér að framan og áætla honum tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu verði hann ekki við óskum sjóðsins.

Við túlkun þessarar heimildar stjórnar LÍN verður fyrst að ákvarða hvort kærandi sé á endurgreiðslutímanum skattskyldur af öllum tekjum sínum og eignum á Íslandi. Það eitt að kærandi láti ekki af hendi umbeðin gögn nægir eitt sér ekki til þess að heimild lánasjóðsins verði virk því jafnframt þarf að liggja fyrir að kærandi sé "ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum". M.ö.o. kemur heimildin til að óska eftir frekari gögnum frá kæranda ekki til álita ef hann er skattskyldur af öllum tekjum sínum og eignum á Íslandi á endurgreiðslutímabilinu.

Í 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992 segir að þegar tekjur eru skattskyldar á Íslandi þá sé með tekjustofni í lögunum átt við útsvarsstofn lánþega að viðbættum tekjum skv. C–lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekju- og eignarskatt.

Af ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992 verður ráðið að það hvort tekjur eru skattskyldar á Íslandi samkvæmt ákvæðinu ræðst af því hvort tekjur lánþega falli undir útsvarsstofn lánþega að viðbættum tekjum skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003. Ákvörðunarvald um álagningu skatta er í höndum skattstjóra samkvæmt ákvæðum í VIII. og IX. kafla laga nr. 90/2003. Fyrir liggur í máli þessu að kærandi er skattskyldur af öllum tekjum sínum og eignum á Íslandi samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda sem lánasjóðurinn hefur aðgang að skv. heimild í 4. mgr. 14. gr. laga nr. 21/1992.

Ljóst er að stjórn LÍN hefur heimild á grundvelli 2. og 3. málsl. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992 til að krefja lánþega um frekari upplýsingar um tekjur sínar og eignir. Verði lánþegi ekki við þessum óskum eða að telja verður upplýsingar lánþega ósennilegar getur stjórn LÍN áætlað honum tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu. Þessi heimild stjórnar LÍN er háð því skilyrði að lánþegi sé á endurgreiðslutímabilinu ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum.

Með vísan til framanritaðs verður að fallast á það með kæranda að stjórn LÍN hafi skort lagaheimild til að krefja kæranda um frekari upplýsingar um tekjur sínar á grundvelli heimildar í 3. mgr, 10. gr. laga nr 21/1992 þar sem kærandi var á endurgreiðslutímanum skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum.

Með vísan til framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN frá 13. desember 2004 í máli kæranda felldur úr gildi.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 13. desember 2004 er felldur úr gildi.

Til baka