Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-09/2008 - Skólagjöld - greiðslutími skólagjaldalána

Úrskurður

 

Ár 2008, fimmtudaginn 16. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-9/2008.

 

Kæruefni

 

Þann 5. desember 2007 kvað málskotsnefnd LÍN upp úrskurð í málinu nr. L-11/2007. Í því máli felldi nefndin úr gildi úrskurð stjórnar LÍN frá 31. ágúst 2007 þar sem kæranda hafði verið synjað um fyrirframgreiðslu skólagjaldaláns í einu lagi vegna náms skólaárið 2007-2008. Málskotsnefndin komst að niðurstöðu sinni með eftirfarandi rökstuðningi: 

"Í gr. 5.2.1. í úthlutunarreglum LÍN sem fjallar um útborgun lána segir: "Heimilt er að greiða lán vegna skólagjalda og ferðalán skv. grein 4.8. og grein 4.12. á þeirri önn sem námsmaður greiðir slíkan kostnað. Skili námsmaður ekki tilskildum lágmarksárangri eftir viðkomandi skólaár eru þessi lán endurkræf skv. reglum um ofgreidd lán." 

Í greininni er að finna undantekningu frá ákvæðum gr. 4.8. í úthlutunarreglum LÍN þar sem segir: "Heimilt er að greiða lán vegna skólagjalda út fyrir eitt misseri í senn við upphaf námstímabils til annarra námsmanna en fyrsta árs nema sbr. gr. 5.2.1.

Það er óumdeilt að kærandi telst ekki til fyrsta árs nema og eiga því ákvæði gr. 5.2.1. í úthlutunarreglum LÍN við um kæranda. 

Eins og að framan er rakið er gert ráð fyrir því í gr. 5.2.1. að unnt sé að greiða skólagjaldalán út á þeirri önn sem námsmaður greiðir slíkan kostnað. Fyrir liggur að kærandi hefur á yfirstandandi önn greitt skólagjöld fyrir allt námsárið 2007-2008 eins og skólinn hefur krafist. Þá er gert ráð fyrir því í niðurlagi gr. 4.8. í úthlutunarreglum LÍN að unnt sé að veita undanþágu frá ákvæðunum um að greiða eigi skólagjaldalán út fyrir eitt misseri í senn við upphaf námstímabils ef sérstakar ástæður mæli með. 

Undantekningarákvæði gr. 5.2.1. er ívilnandi fyrir námsmenn og verður ákvæðið því skýrt kæranda í hag í máli þessu. Þar sem kæranda ber að greiða skólagjöld fyrir tvö misseri í einu þykir rétt með vísan til þess sem að framan er rakið að hún fái til þess lán í einu lagi á því misseri sem greiðsla er innt af hendi. Er því framangreindur úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda felldur úr gildi.


Með kæru dags. 21. maí 2008 sem barst málskotsnefndinni þann 29. maí 2008 kærir kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 4. apríl 2008 þar sem stjórn LÍN hafnaði erindi kæranda um afgreiðslu á erindi hennar í samræmi við úrskurðinn frá 5. desember 2007 á þeim forsendum að hún hefði ekki skilað inn fullnægjandi gögnum fyrir 15. mars 2008, en stjórn LÍN hafði ákveðið að taka fyrir að nýju mál kæranda vegna úrskurðarins í málinu nr. 11/2007.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

 

 

Niðurstaða

 

Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafði þegar fengið meirihluta skólagjalda greiddan frá LÍN áður en hún þurfi að inna greiðslu af hendi. Þá voru eftirstöðvar lánsins greiddar út stuttu eftir úrskurð málskotsnefndarinnar hinn 5. desember 2007 í málinu nr. L-11/2007. 

Með því að grein 4.8 í úthlutunarreglum LÍN hefur nú verið breytt verulega auk þess sem ekki verður annað séð en kærandi hafi þegar náð fram því í málnu sem til stóð, þykja ekki efni til að málskotsnefndin fjalli frekar um mál þetta og er málinu vísað frá nefndinni.

 

Úrskurðarorð

 

Málinu er vísað frá.

Til baka