Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-14/2008 - Umsóknarfrestur og útborgun - beiðni um undanþágu frá umsóknarfresti

Úrskurður

 

Ár 2008, miðvikudaginn 5. nóvember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-14/2008.

 

Kæruefni

 

Með kæru dags. 9. september 2008 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN frá 5. september sl. þar sem hafnað var beiðni kæranda um námslán þar sem umsókn kæranda hafði ekki borist LÍN innan tilgreindra tímamarka. 

Stjórn LÍN var með bréfi dags. 12. september sl. tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf stjórnar LÍN er dags. 30. september sl. Með bréfi dags. 2. október sl. var kæranda kynnt efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um það. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi hefur stundað nám í rafmagnstæknifræði við Syddansk Universitet í Óðinsvéum frá árinu 2005 og þegið námslán frá LÍN á því tímabili. Kærandi bendir á að hann hafi frá upphafi náms í rafmagnstæknifræði ávallt skilað fullnægjandi námsárangri sem sýnt hafi fram á lánshæfi hans að námsári loknu. Vegna misskilnings milli kæranda og umboðsmanns kæranda á Íslandi fórst fyrir að sækja um námslán fyrir námsárið 2007-2008. Kærandi bendir á að hann hafi ekki áttað sig á þessum mistökum fyrr en á vormisseri þar sem hann hafi ekki tekið yfirdrátt heldur fengið árlega útborgun að loknu námsári. 

Kærandi leggur á það áherslu að hann hafi ávallt staðist allar kröfur um námsárangur og telur það ósanngjarnt að formsatriði komi á veg fyrir að LÍN veiti honum umbeðið lán til að standa undir kostnaði og uppihaldi við áframhaldandi skólagöngu sína. 

Af hálfu stjórnar LÍN er vísað til gr. 5.1.2. í úthlutunarreglum LÍN þar sem kveðið er á um að umsókn um námslán skuli hafa borist LÍN áður en lánshæfur námstími hefst. Fyrir liggur að kærandi hafði fyrst samband við LÍN vegna umsóknarinnar þann 18. júní 2008. Stjórn LÍN vísar einnig til þess að kærandi haldi því fram að ástæður þess að það fórst fyrir hjá honum að sækja um námslán á réttum tíma megi rekja til misskilnings milli kæranda um umboðsmanns hans, án þess þó að gera grein fyrir í hverju sá misskilningur hafi verið fólginn. Þá bendir stjórn LÍN einnig á að kærandi hafi áður sótt um lán á pappírsformi og að síðast hafi hann sótt rafrænt um lán með innskráningu á "Mitt svæði" þann 25. ágúst 2006. Aðgangur kæranda að "Mínu svæði" átti jafnframt að tryggja honum nauðsynlegar upplýsingar um framgang umsókna hans. Honum mátti þannig vera ljóst allt námsárið 2007-2008 að umsókn um námslán það árið hafði ekki verið móttekin af LÍN og að engin lánsáætlun var til staðar.

 

Niðurstaða

 

Í gr. 5.1.2. í úthlutunarreglum LÍN segir m.a: "Sækja skal sérstaklega um námslán fyrir hvert aðstoðarár. Hver umsókn gildir til loka misseris. Umsókn verður að hafa borist áður en lánshæfur námstími hefst. Sjóðnum er þó heimilt að miða við upphaf misseris hafi umsókn borist fyrir: 30. september vegna aðstoðar til áramóta; 31. janúar vegna aðstoðar eftir áramót fram að sumri; 31. maí vegna sumarlána.

Fyrir liggur að kærandi hafði fyrst þann 18. júní 2008 samband við LÍN vegna umsóknar um lán fyrir skólaárið 2007-2008. 

Ekki er að finna í lögum um LÍN eða í úthlutunarreglum sjóðsins heimild til að veita undanþágu frá þeim tímamörkum, sem umsóknarfrestur er miðaður við. Þá hefur kærandi ekki gert skýra grein fyrir ástæðum þess að umsókn hans barst ekki tímanlega til sjóðsins. 

Með vísan til framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN frá 5 september 2008 í máli kæranda staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 5. september 2008 er staðfestur.

Til baka